Í miðvesturríkjunum
14.10.2006 | 04:35
Það tekur fjóra tíma að fljúga frá Vancouver til Chicago og maður kemur í nýjan heim. Sem betur fer hafði Matt sent mér tölvupóst og sagt mér að hitastig hafi hrapað í miðvesturríkjunum svo ég tók kápuna mína með. Hún hefur komið að góðum notum. Hér var um frostmark í gær þegar ég kom og varla mörgum gráðum hlýrra í dag. Ég hrapaði sem sagt niður um sirka 23 gráður.
Ráðstefnan hefur gengið vel. Ég var með mitt verkefni klukkian hálf fimm og fékk nokkrar erfiðar spurningar en ekkert í líkingu við útreiðina á Spáni. Í kvöld fór ég út að borða með fólki hér. Það er svo miklu betra að gista heima hjá nemendum en á hóteli. Ekki er það bara að það er ódýrara heldur kynnist maður miklu fleira fólki þannig. Ef ég hefði verið á hóteli hefði ég sennilega farið eitthvert ein að borða og síðan heim á hótelherbergi og horft á sjónvarp eða farið yfir verkefni allt kvöldið. Þetta var miklu skemmtilegra.
Ég talaði við Martin í kvöld. Á morgun ætla þeir að ganga frá bátnum fyrir veturinn. Ég hugsa hlýlega til þessa báts. Ég veit líka að Martin á eftir að sakna þess að geta ekki farið út að sigla eftir vinnu. En það þýðir líklega að hann mun eyða meiri tíma í stúdíóinu að taka upp plötuna hans Brunos. Ég hef líklega ekkert sagt ykkur frá Bruno. Geri það kannski seinna. Hann er mikill Bjarkar aðdáandi. En söngurinn hans er ekkert í líkingu við Björk. Mér finnst hann hljóma einna helst eins og hann sé með hægðartreppu. Sem er sorglegt því hann er góður lagasmiður. En nóg um það.
Nú er best að koma sér í háttinn því ég þarf að sitja yfir fyrirlestrum allan morgundaginn. Var á fyrirlestrum í dag frá níu til hálfátta sem var nú eiginlega meira en nóg.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.