Í sól og sumaryl...

Ég vil byrja á því að þakka öllum sem hafa sent mér góðar kveðjur. Ég er svona að komast niður á jörðina aftur eftir að hafa svifið um á bleiku skýi í tvo daga.

Dagurinn í dag var ofsalega fallegur. Sannkallaður vordagur. Krókusarnir í garðinum eru komnir upp og þess verður ábyggilega ekki langt að bíða að kirsuberjatrén fari að blómstra. Ég veit að það er svolítið ósanngjarnt að núa þessu um nasir Íslendinga sem sitja í sínum snjó, en dagurinn var bara svo fallegur að ég varð að segja frá því.

Ég fékk mér göngutúr um eitt leytið. Labbaði niður á Arbutus með tölvuna mína í bakpokanum. Planið var að kaupa mér kaffi og köku í sænska bakaríinu og reyna að vinna. En þegar þangað kom...haldiði ekki að þeir séu búnir að breyta hjá sér...taka öll sætin í burtu. Nú er þetta bara eins og venjulegt bakarí þar sem maður getur keypt brauð og farið með það heim. Svo ég keypti sænskt flatbrauð og eitt kardimommubrauð (mmmmm) og fór í leit að öðru kaffihúsi. Fann eitt neðar á Arbutus, fékk mér chai latté og skrifaði og skrifaði. Borðið var hins vegar hátt miðað við stólinn svo ég fékk í axlirnar. Þá var bara að ráði að fara út í  göngutúr í góða veðrinu og smám saman labbaði ég vestureftir. Á Alma settist ég niður á annað kaffihús, Coppa Joe's, fékk mér kaffi, borðaði kardimommubrauð í leyni og hélt áfram að skrifa. Gekk vel og skrifaði eins og vitleysingur. Enda verð ég að gera eins mikið í ritgerðinni og hægt er næstu mánuðina, áður en vinnan byrjar hjá Vanoc. Klukkan sex labbaði ég á vídeóleigu og fékk mér evrópskar myndir (eina norska, eina eftir Kusturica), keypti kjúklinga-shawarma hinum megin við götuna og hoppaði svo upp í strætó. Það var bara hálftíma gangur eftir heim en komið var myrkur og það hafði kólnað. Þar að auki vildi ég borða shawarmað heitt. 

Ég myndi segja að þetta hafi bara verið hinn fínasti dagur. Á morgun spila ég fótbolta. Við þurfum að vinna með nokkurra marka mun til þess að komast áfram í úrslitakeppnina. Ef það gengur ekki fáum við að fara í uppbótarkeppni neðri liðanna - þar er keppt um að verða sigurvegari aumingjannaLoL


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Marinó Már Marinósson

Blessuð vertu en það gæti hafa verið smá rigning en þú sérð það auðvitað ekki enda spennandi tímar framundan.     Þú þarft engar áhyggjur að veðrinu hér.  Stutt í vorið.   reyndar er allt ófært við Vík í Mýrdal og snjóflóðahætta fyrir vestan.  Bláfjöll lokuð vegna veðurs. 

Þessir Svíar ....... að taka sætin!     

Marinó Már Marinósson, 2.3.2008 kl. 13:00

2 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Hehe, þetta er alveg rétt hjá þér Marinó. Það er vel hugsanlegt að veðrið hafi verið ömurlegt og ég hafi bara ekki fattað það! En já, bölv. Svíarnir. Og svo hafa Svíarnir í hokkíliðinu mínu heldur ekki staðið sig sem skyldi. Þarf maður að gefa þeim meira jólaglögg?

Kristín M. Jóhannsdóttir, 2.3.2008 kl. 16:22

3 Smámynd: Marinó Már Marinósson

Jólaglögg? Það er of gott.       Íslenskt Brennivín.

Marinó Már Marinósson, 2.3.2008 kl. 17:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband