Frekari fréttir af Vanoc og töp helgarinnar

Í fótboltanum með mér er kona að nafni Carly. Síðastliðinn mánudag byrjaði hún að vinna fyrir Vanoc sem nokkurs konar almannatengslamanneskja. Hún mun sjá um tengslin milli Vanoc og stuðningsaðilja. Hún sagði mér að þetta væri alveg frábær vinnustaður og ég ætti eftir að finnast dásamlegt að vinna þarna. Hún sagði að hraðinn væri reyndar mikill en allir væru svo áhugasamir og duglegir að andrúmsloftið vær æðislegt. En maður yrði að vera tilbúinn til að vinna mikið. Hún væri búin að vinna í tvær vikur og væri þegar búin að vera þarna tvisvar sinnum til tíu að kvöldi.

Það er gott fyrir mig að þekkja nú þegar einhvern á vinnustaðnum. Við höfum þegar talað um að reyna að nýta okkur íþróttaaðstöðuna á svæðinu vel og jafnvel hreyfa okkur eitthvað í hádegishléum. Það gæti orðið mitt hlutverk að draga Carly niður í leikfimissalinn (já, það er fullbúinn leikfimissalur í húsinu með öllu tilheyrandi).

Ég hlakka til.

Annars er það helst í fréttum að við stelpurnar töpuðum í vítakeppni í gær gegn liði sem við hefðum átt að vinna auðveldlega. Ég veit ekki hversu mörg skot við áttum að marki. Þær höfðu góðan markmann og þótt vörnin hafi ekki verið sérlega góð þá náðist hún að þvælast nógu mikið fyrir til þess að við lentum í vandræðum. Þar með fór von okkar um að komast í úrslitakeppnina. Það ættu þó að vera nokkrir leikir eftir því við eigum enn eftir eina tvo deildarleiki og þar að auki er oftast sett á fót svona aukaúrslitakeppni fyrir þá sem komast ekki í alvörukeppnina. Við höfum einu sinni leikið til úrslita þar.

Hokkíliðið mitt tapaði líka og að þessu sinni vegna þess að þeir léku ömurlega, ekki af því að þeir voru óheppnir. Þetta var leikur sem þeir áttu að vinna. Bæði vegna þess að leikurinn var gegn Chicago sem er neðarlega í deildinni og við vinnum þá alltaf, en líka vegna þess að Chicago liðið var hrjáð af meiðslum og þeir spiluðu því með hálfgert aukalið. Við, sem höfum átt í meiðslum líka, vorum komin með næstum því alla okkar leikmenn til baka. Ömurlegt. Við verðum að fara að standa okkur betur ef við ætlum að komast í úrslitin. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Marinó Már Marinósson

Eins gott að þú hafir ekki haldið svipaða ræðu yfir þínu liði eins og þjálfarinn gerði í myndbrotinu sem þú sýndir okkur bloggverjum um helgina.   

Marinó Már Marinósson, 3.3.2008 kl. 20:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband