Fréttir frá Kanada
4.3.2008 | 17:20
Hótanirnar í UBC
Í fréttum í gær var sagt frá því að lögreglan í Vancouver væri búin að handtaka nemandann sem stóð að baki hótununum gegn líffræðibyggingunni í UBC fyrir nokkrum vikum. Nemandinn er nítján ára gamall strákur, Hwi Lee. Lítið er vitað um hann en strákur með sama nafni hefur meðal annars keppt á Kanadaleikunum í eðlisfræði. Lögreglan vill ennþá ekkert segja um það hvað fólst í hótununum en þó er viðurkennt að þær hafi beinst gegn einum ritara líffræðideildarinnar svo og nemendum. Jæja, það er gott ð málið er úr sögunni. Þegar maður hefur í huga allar þær skotárásir sem gerðar hafa verið í háskólum undanfarin ár þá er ekki laust við að maður verði pínulítið hræddur þegar svona gerist.
Nágrannaerjur á sjöundu götu
Ég sagði ykkur aldrei frá því hvernig nágrannaerjurnar enduðu hér í húsinu. Þegar frá horfði hafði Rita heimtað að við borguðum allar jafnan hluta í rafmagnsreikningunum og að hún væri ekki skipt eins og alltaf hefur verið, eftir stærð íbúðar. Alison og ég ræddum málin en áður en við höfðum tekið ákvörðun um hvað gera skyldi kom gasreikningurinn. Rita skildi eftir skilaboð á síma Alison um að hún væri sátt við að skipta þeim reikning upp á gamla mátann. Alison hringdi í mig og ég stakk upp á að við myndum bara borga báða reikningana upp á gamla mátann. Við myndum bara láta Ritu fá ávísun fyrir báðum reikningum og svo myndum við bara sjá hvað gerðist. Það varð úr, við borguðum báðar reikninginn samkvæmt gömlu skiptingunni og biðum svo. Ekkert gerðist. Rita sagði ekki orð og mér sýnist málið vera úr sögunni. Líklega hefur sú gamla bara verið í vondu skapi þegar hún frekjaðist þetta og sá svo að sér þegar hún róaðist. Annað hvort það eða þá hún tók ekkert eftir því að við borguðum lægri upphæð en hún bað um!
Sarah Polley er rísandi stjarna
Munið þið eftir henni litlu Söruh Polley sem lék Söru Stanley í þáttunum Leiðin til Avonlea? Sarah er löngu orðin stór og hefur undanfarin ár aðallega leikið í sjálfstæðum myndum utan Hollywood. Hún lék m.a. í þessari undarlegu hálfíslensku mynd No such thing og einnig var hún í Bjólfskviðu Sturlu Gunnarssonar. Blaðamenn myndu því segja að hún væri Íslandsvinur. Nýlega skrifaði hún handrit að myndinni Away from her og leikstýrði einnig. Þessi mynd hefur fengið þvílíka lofdóma og í gær vann Sara margfalt fyrir þessa mynd á Juno verðlaununum, hinum kanadíska óskar. Hún vann m.a. fyrir bestu leikstjórn og bestu mynd. Það er því ljóst að Sara litla Stanley frá Avonlea er fullvaxin og er að gera góða hluti í kvikmyndaheiminum. Þið skulið fylgjast með henni í framtíðinni því hún á bara eftir að verða betri.
Athugasemdir
Eins gott að Rita lesi ekki bloggið þitt eða skilji íslensku því þá sendir hún ykkur rukkun fyrir mismuninum.
Marinó Már Marinósson, 4.3.2008 kl. 20:31
Hún er óttaleg Lovely Rita meter maid.
Marinó Már Marinósson, 4.3.2008 kl. 20:35
Á hún ekki rætur á Íslandi? . Einhvernveginn minnir mig það.
Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir, 4.3.2008 kl. 22:09
Mér datt líka það sama í hug og Marinó. ég er farin að halda að Leiðin til Avonlea hafi farið framhjá mér. Þekki ekki þessa leikkonu - og svo þykist ég vita svo mikið um kvikmyndir
Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 4.3.2008 kl. 22:55
Hehe, alveg rétt Marinó...eins gott að Rita kann ekki neina íslensku. Anna, Leiðin til Avonlea voru kanadískir sjónvarpsþættir sem voru sýndir á RÚV í einhver ár. Maður horfði á krakkana stækka því þau voru varla nema tíu ára eða svo í fyrstu þáttunum en voru orðnir unglingar þegar þættirnir hættu. Mannstu ekkert eftir Aunt Hettie og litla pottorminum honum Felix?
Kristín M. Jóhannsdóttir, 5.3.2008 kl. 03:22
Hér er smá linkur um Söru Íslandsvin: http://en.wikipedia.org/wiki/Sarah_Polley
Marinó Már Marinósson, 5.3.2008 kl. 11:16
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.