Þegar gott lið á sér ömurlega fylgismenn
5.3.2008 | 07:35
Það er fátt sem ég þoli eins illa eins og fylgjendur hópíþrótta. Það er eins og að minnsta kosti helmingurinn séu asnar með enga þolinmæði. Þegar liðinu gengur illa þá öskra þessir hálfvitar og heimta að hinn og þessi verði reknir, en ef vel gengur þá eru allir æðislegir.
Ég var að lesa aðeins skrifin inni á heimasíðu Canucks hokkíliðsins en okkur hefur ekki gengið alveg sem skyldi síðustu fjóra leikina. Og nú hópast inn á síðuna liðið sem heimtar að þjálfarinn verði rekinn og/eða framkvæmdastjórinn. Framkvæmdastjórinn er sakaður um að hafa ekkert gert til að fá sterkan sóknarmann áður en skiptitímanum lauk og þjálfarinn er sakaður um að láta leikmenn spila leiðinlegan varnarbolta. Hann er þar að auki ásakaður um að blanda línum of mikið, láta ekki réttu mennina spila, o.s.frv. Ég verð reyndar að segja: Það má greinilega reka báða því borgin er full af fólki sem greinilega veit betur hvernig á að stjórna hokkíliði. Undarlegt að þessir aftursætisbílstjórar skuli ekki hafa verið ráðnir fyrir löngu.
Sumir ganga meira að segja svo langt að heimta til baka þjálfara og framkvæmdastjóra sem voru hér áður, en...surprise surprise...gekk enn verr en nú gengur.
Ef liðið nær að hrista sig saman og vinna nokkra næstu leiki og komast í úrslitakeppnina þá munu þessar raddir þagna og í staðinn fara allir að segja að þeir vissu nú að liðið ætti þetta í sér.
Bölvaðir aular. Ég þoli ekki svona pakk sem siglir bara eftir vindi. Ég hef trú á því að maður eigi að standa með sínu liði í gegnum þykkt og þunnt, og jafnvel þótt það sé þunnt lengst af. Enda er ég og verð alltaf Þórsari!!! Og ég sný ekki baki við Canucks þótt þeir hafi tapað fjórum leikjum. Það eru um 18 leikir eftir og við erum bara tveimur stigum út úr úrslitakeppnissæti eins og er. Einn sigur fram yfir liðið á undan okkur og við erum inni. Ekki ætla ég að örvænta strax. Ég er bara skapvond út í þetta pakk sem kallar sig aðdáendur.
Verst var þetta í haust þegar ég sá liðið leika á móti Nashville. Okkar annars frábæri markvörður átti slakan leik og missti inn tvö aulaleg mörk. Þessi maður sem er elskaður framar öðrum í þessari borg mátti þola það að baulað var á hann. Ég horfði í kringum mig og átti ekki til orð. Mér fannst ég vera í leikhúsi í Frakklandi fyrr á öldum þegar tómötum var kastað á lélega leikara. Og þetta var í byrjun vetrar. Einn lélegur leikur frá Luongo og það var baulað á hann.
Strákarnir mínir eiga þetta ekki skilið. Og hananú.
Athugasemdir
Ég er nú kannski ekki besta manneskjan til að tala um svona, því ég fer ekki á svo marga leiki. En það sem ég hef þó heyrt og séð er að það er næstum eins og þetta fólk sem þú talar um skipti um ham þegar á völlinn kemur og finnst allt í góðu að sleppa öllum reglum í sambandi við virðingu og kurteisi við annað fólk.Alveg ótrúlega.
Anna Guðný , 5.3.2008 kl. 12:32
Hárrétt hjá þér, þetta eru leiðindapésar, sem finnst eðlilegt að vinna alltaf og tapa aldrei. Verst er að þeir koma aldrei til með að skilja hugtakið "eðlilegt gengi liðs" þ.e. að allir íþróttamenn eru mannlegir (vonandi) og eiga sína góðu og slæmu daga.
Við hin sem skiljum þetta og höldum með okkar mönnum "Í blíðu og stríðu" verðum bara að taka á þolinmæðinni gagnvart þessum pésum.
Kveðja,
Ómar Pétursson, 5.3.2008 kl. 15:09
Ég er sammála þér. Mér finnst reyndar að þeir sem ekki geta staðið með sínum mönnum í gegnum þykkt og þunnt geti ekki kallað sig stuðningsmenn.
Sigurður Eðvaldsson (IP-tala skráð) 5.3.2008 kl. 18:00
Þetta eru athyglisverðar skoðanir.
Það er ekki gott að þola ekki sjálfan sig, þ.e. fylgjanda hópíþrótta, ég skil vel að þér leiðist það. Hitt, að ekki sé sæmilegt að bölsótast út í "sína menn" þegar illa gengur, er ég algjörlega ósammála. Þannig skapast jú þrýstingur á leikmenn og þjálfara að vera á tánum, það er svo auðvelt að verða værukær og löt stjarna ef enginn öskrar á mann.
Þetta er partur af lýðræðinu, hvernig haldið þið að alþingi yrði ef allir héldu bara með sínu líði?
Það yrði bara einn Sjálfstæðisflokkur með öllu hallelúja liðinu, "takk pabbi Geir!"
Nei, það þarf að öskra annað slagið til að blóðið renni í æðunum á "sumum"
Ævar (IP-tala skráð) 5.3.2008 kl. 23:11
Nei nú er ég ekki sammála þér Ævar. Ég skil reyndar að hluta hvað þú ert að fara því þú ert að segja að það setji þrýsting á leikmenn ef fylgismenn verða ævir. En finnst þér í alvöru eðlilegt að fylgismenn heimti að láta reka þjálfara ef fjórir leikir tapast, þótt liðið sé í alveg þokkalegu ástandi annars? Er ekki eðlilegra að fá svoleiðis viðbrögð þegar liðið er búið að vera að skíta á sig í einhvern tíma? Þetta er spurning um að yfirgefa ekki skútuna um leið og lekur pínulítið. Og svo er ekki þar með sagt að maður þoli ekki sjálfan sig þótt maður þoli ekki fjölda manns sem tilheyrir sama hóp. Þótt maður alhæfi stundum þá er nokkuð ljóst að alltaf eru undantekningar. Og þegar ég tala um að þola ekki áhangendur liðs þá eru það kannski aðallega þeir sem hafa sig sem mest í frammi sem eru óþolandi og í raun eru flestir ágætir. Þetta er nú bara svona venjuleg íslensk samræðutækni.
Kristín M. Jóhannsdóttir, 6.3.2008 kl. 01:45
Frábært að þú sért á leið til Kína.
Hvenær verður þú næst á Íslandi ( á 89 re-union?) lát heyra. Best væri ef Rut yrði hér á sama tíma og þú - og Helga Fanney líka.
Baráttukveðjur,
Helga Kristjáns.
Helga Kristjánsdóttir (IP-tala skráð) 6.3.2008 kl. 03:46
Hæ Helga. Smá misskilningur. Ég mun vinna við Vetrarólympíuleikana í Vancouver 2010, ekki sumarólympíuleikana í Kína í sumar.
Ég veit ekki hvenær ég kem heim næst, líklega um jólin. Það er hugsanlegt að ég komi á MA hátíð með árgangi 89 en það er þó ekki líklegt. Ég fæ mjög lítið sumarfrí frá vinnunni og svo er ég að vona að ég útskrifist næsta vor og þá er líklegra að ég verði hér. Nema ég verði orðin rík og geti skotist heim.
Kristín M. Jóhannsdóttir, 6.3.2008 kl. 05:21
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.