Æðislegur leikur

Ég fór á leik í gær og þvílíkur leikur. Ég hef ekki skemmt mér svona vel í langan tíma. Hann byrjaði með látum. Aðeins hálfa mínútu inn í leikinn fékk einn minna manna tveggja mínútna brottvísun. Ó nei, ætlar þetta að verða svoleiðis leikur þar sem við eyðum helmingnum af tímanum í skammarboxinu. En eftir að hafa tapað tveimur leikjum í röð höfðu mínir menn annað planað. Fimmtán sekúndum síðar nær Alexandre Burrows pökknum við varnarlínuna, skautar með hraða upp völlinn og skorar. Fjórir gegn fimm og það vorum við sem skoruðum en ekki Nashville. En þetta var bara byrjunin. Þegar fyrsti leikhluti var búinn var staðan 4-2 okkur í vil. Eftir það róaðist leikurinn aðeins en við skiptum ekki yfir í einhæfan varnarleik heldur bætum tveim mörkum við, einu í hvorum síðari leikhluta. Lokatölur 6-2 fyrir Canucks og við sitjum aftur í úrslitasæti.

Rosemary vinkona mín kom með mér, fyrsta sinn í mörg ár sem hún sér leik. Við fengum reyndar ekki sæti saman því við keyptum miða á hálfvirði en þar selja þau bara einstök sæti. En það skiptir engu máli, þegar ég fer á leiki er ég bara að horfa á það sem fram fer en ekki að sósíalísera. Við hittumst bara í hléum í staðinn. Rosemary var heppin. Ef maður sér aðeins einn leik í vetur þá var þetta einmitt leikurinn. Mark vinur minn var búinn að spá því að þessi yrði góður. Kannski vegna þess að síðast þegar þessi lið léku hér í GM höllinni töpuðum við 3-0 (ég sá þann leik líka) og tveir varnarmanna okkar meiddust. Annar, Kevin Bieksa lenti í því að kálfvöðvi hans var skorinn í sundur af leikmanni Nashville. Meiðslin héldu áfram í gærkvöldi. Kesler fékk pökk í kálfann og Aaron Miller var hent í vegginn af Jordan Tootoo og meiddist á öxl. Það er hugsanlegt að hann verði ekki meira með í vetur.

Þessi leikur þaggaði aðeins niður í hinum svokölluðu fylgismönnum sem hafa verið að kalla á hálshöggvun undanfarið. Þangað til næsti leikur tapast. En vonandi var þetta það sem liðið þarf til að komast af stað aftur. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband