Skíðaferð til Whistler

Whistler er framtíðarskíðasvæði Ólympíuleikanna 2010. Ég ákvað að kanna málið aðeins og skrapp á skíði.

Lagt var af stað frá Vancouver klukkan sjö á laugardagsmorgni (sem þýddi að ég þurfti að vakna klukkan hálfsex og taka strætó miðsvæðis þangað sem ég var sótt) og við vorum komin á skíðin um tíu leytið. Ég var í bíl og skíðaði síðan með tveim þýskum stærðfræðingum og það var  ágætt en svolítið leiðinlegt til lengdar. Kannski aðallega vegna þess að ég þurfti alltaf að bíða eftir þeim við lyfturnar því ég var svo miklu fljótari niður, en líka vegna þess að þau voru bæði svolítið eins og svona týpískir Þjóðverjar, hvort á sinn hátt. Það þreytti aðeins í mér Íslendinginn.

Við skíðuðum Blakcomb fyrri daginn sem reyndist hinn yndislegasti dagur. Veðurspáin var slæm en þeir hér kunna ekkert að spá og það var meira að segja glaðasól hluta af deginum. Þegar við fórum yfir í nýju jökulbrekkuna var veðrið til dæmis alveg dásamlegt sem var mjög heppilegt því það svæði er eitt hið alfallegasta þarna.

Við fórum niður um fjögur leytið þegar lyftum var lokað (engin flóðljós og því aldrei opið eftir myrkur) og vorum komin í skála UBC rúmlega hálf fimm. Ég var í hóp með post doc fólki úr UBC. Þar var farið í heitan pott sem var ekki svo heitur en hafði þeim mun meiri klór í staðinn. Mann verkjaði í augun án þess að fara með hausinn ofaní. Síðan var sest að spjalli og pízzur pantaðar en klukkan var varla tíu þegar allir voru  komnir í háttinn. Ótrúlegt. En maður var bara svo þreyttur eftir daginn.  

Vaknað var eldsnemma morguninn eftir, um sjö leytið, farið niður í þorp í morgunverð og svo í brekkurnar. Færið var æðislegt, sérstaklega þarna fyrst um morguninn þegar fáir voru búnir að skíða brautirnar. Ég naut þess að taka stórar beygjur og fara hratt, nokkuð sem ekki er hægt að gera þegar brekkurnar fyllast af fólki. Spáð hafði verið yndislegu veðrið með sólskini hluta dags. Það veður var líklega daginn áður því það fór fljótt að snjóa og manni var alveg ískalt á kinnunum. Ég sá eftir að hafa ekki tekið skíðagrímuna sem Rut gaf mér en þegar spáð er hita og sólskyni þá tekur maður ekki með sér skíðagrímu. Ég verð bara að fara að hafa hana í úlpuvasanum.

Ég renndi mér niður nýju brunbrekkuna fyrir Ólympíuleikana. Ég myndi segja að hún sé ekki eins skemmtileg og brunbrekka kvenna í Lake Louise þar sem keppt var á Calgary leikunum 1988, en býsna skemmtileg þó. Ég þarf síðar að prófa kvennabrekkuna. Ég vildi ekki fara niður báðar sama daginn því maður fer alla leiðina niður að Whistler Creek og þarf að taka gondóla til baka. Það er mjög tímafrekt.

Ég fór upp með síðustu lyftum klukkan fjögur og renndi mér niður. Lærvöðvarnir voru um það bil að gefa eftir. Mikið rosalega er erfitt að fara niður allt fjallið í lok dags.

Ég var komin í bæinn um sjö leytið, fór í heitt bað til að slaka á vöðvunum, skellti mér svo í fótboltagallann og kom mér yfir í Burnaby þar sem ég þurfti að spila klukkan tíu að kvöldi. En það þarfnast annarrar færslu. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband