Alltaf í boltanum

Eftir að ég kom heim frá Whistler á sunnudagskvöldið fékk ég mér (örstutt) bað og fór svo yfir í Burnaby þar sem ég spila innanhúsfótbolta. Vor/sumarboltinn er að hefjast og við leikum tvo leiki sem eiga að ráða því í hvaða deild við erum sett. Við viljum spila í þriðju deild en erum í pínulítilli hættu að vera sett í aðra deild. Þar eigum við hins vegar ekki heima og myndum sennilega tapa flestum leikjum. Í þriðju deild myndum við spila á móti svipuðum liðum og vinna nokkra leiki og tapa nokkrum. Í fyrra var liðið sett í aðra deild vegna þess að í þessari forkeppni spiluðu allir í liðinu af krafti en mótherjarnir ekki. Þeir fóru illa út úr annarri deildinni. Þetta vissi ég hins vegar ekki því ég spilaði ekki með þeim í fyrra. Hef bara komið inn nú í vetur af og til ef þá vantaði stelpur í liðið (þetta er blandað lið). En núna verð ég með á fullu. Við töpuðum leiknum með tveim mörkum og ég grínaðist eftir á með það að við hefðum auðvitað bara tapað af því að við vildum ekki spila í of hárri deild. Ég vissi ekki að það var einmitt málið. Ég hélt við hefðum spilað eins vel og við gætum - ég gerði það. Dave, fyrirliði (og þjálfari minn í kvennaboltanum) þaggaði niður í mér af því að sá sem er yfir knattspyrnudeildinni stóð rétt hjá. Ég skildi ekki af hverju af því að ég vissi ekki að ég hefði hitt naglann á höfuðið. Fékk útskýringuna eftir á.

Leikurinn var annars skemmtilegur og fullt af mörkum. Hitt liðið var svolítið gróft og dómarinn sem var tiltölulega ungur hafði ekki alveg tök á honum. Angelo, sem er uppáhaldsdómarinn minn (vildi að allir dómarar væru eins og hann) var þarna hins vegar til að fylgjast með og hann talaði við strákinn eftir á og og veitti honum góð ráð svo vonandi verður hann betri. Ég vildi annars að Angelo dæmdi hjá okkur í kvennaboltanum. Hann er svo afslappaður og lætur ekkert slá sig út af lagi. Er þrælfyndinn líka og hikar ekkert við að stríða leikmönnum. Í gær var Joe til dæmis eitthvað að hanga á boltanum og Angelo kallaði til hans: Ekki einoka boltann svona asninn þinn. Einu sinni þegar hann dæmdi leik þar sem ég spilaði datt ég niður eftir átök við eina stelpuna og þar sem ég lá á jörðinni sparkaði ég boltanum í burtu. Maður á auðvitað ekki að gera það og sumir dómarar verða alveg vaðvitlausir ef maður stendur ekki strax á fætur. Stelpan varð fúl yfir þessu og kallaði eitthvað til dómarans sem sagði henni að hætta bara þessu væli. Já, það munar rosalega miklu hver dæmir leikina. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband