Um sendiherra og konsúla

Það er ótrúlega mikill munur á utanríkisþjónustu Íslands og Kanada. Þessu hef ég svolítið kynnst á þessum átta árum sem ég hef búið hér erlendis. Mestu munar um það að ég vann um tíma fyrir Foreign Language Institute of Ottawa sem er undirverktaki kanadísku utanríkisþjónustunnar og sér um að kenna sendiherrum og starfsmönnum þeirra tungumál þeirra landa sem þeir eru sendir til.

Þar eru starfsmenn virkilega vel undirbúnir undir störf sín. Sumir eru sendir í tungumálaskóla í heilt ár áður en þeir eru sendir til starfa. Það hefur jafnvel komið fyrir að starfsmenn sendiráða eru sendir í þriggja ára tungumálanám áður en þeir fá að fara til landsins. Það á t.d. við um marga þá sem fara til Arabaríkja. Reyndar sagði mér einhver að það væru aðallega njósnararnir sem færu í svo langt nám enda þurfi þeir að læra málið ítarlega. En það breytir því ekki að þetta fólk er undirbúið virkilega vel áður en það er sent á svæðið. Ég veit þetta af eigin raun því ég var sjálf í því að kenna núverandi sendiherra Kanada á Íslandi svolítið í íslensku. Hún fékk reyndar bara sex vikna undirbúning því það tók þá langan tíma að finna einhvern til að kenna og eins kom staða hennar upp fremur snögglega. En þar sem ég vann þarna í Ottawa hitti ég fjöldann allan af sendiherrum og starfsmönnum sendiráða sem settust niður frá átta til fjögur og lærðu um tungumál og menningu landsins sem þeir átti að flytja til.

Hvað ætli Íslendingar undirbúi sitt starfsfólk vel? Ég man eftir því þegar ég fór einu sinni á skrifstofu Eiðs Guðnasonar, þáverandi konsúls í Winnipeg, og hann sat og hlustaði á tungumálaspólur á kínversku enda um það bil að taka við sem sendiherra í Kína. Ég er viss um að hann keypti þessar spólur sjálfur og að íslenska utanríkisþjónustan gerði lítið eða ekkert til þess að undirbúa hann undir starfið.

Það er líka mikill munur á því hverjir fá stöður innan utanríkisþjónustu þessara tveggja landa. Fyrsta árið mitt í Kanada var samleigjandi minn að reyna að fá starf í kanadísku utanríkisþjónustunni. Hún var eiturklár, með masterspróf frá Manitobaháskóla, algjörlega tvítyngd á ensku og frönsku, með góða starfsreynslu. Hún tók nokkur próf, komst í viðtöl, en þótti að  lokum ekki nógu góð til þess að starfa innan utanríkisþjónustunnar. Hún fór í staðinn í eins árs nám í fjölmiðlafræði og fékk starf um leið hjá ríkissjónvarpinu CBC.

Sendiherrar Kanada eru vanalega starfsmenn sem hafa unnið innan utanríkisþjónustunnar í mörg ár. Þegar ég var að kenna í Ottawa benti Anna (núverandi sendiherra á Íslandi) mér á mann sem var nýskipaður sendiherra í Róm. Hann var í sömu byggingu og við að læra ítölsku. Hún hvíslaði því að mér að hann hefði fengið pólitíska ráðningu. Þetta þótti skandall í kanadísku utanríkisþjónustunni. Sjálf hafði Anna unnið fyrir ríkið allan sinn feril og fékk að lokum sendiherrastöðu að launum enda hafði hún sannað sig.

Hafandi sagt allt þetta vil ég samt sem áður segja að stjórnmálamenn eru að mörgu leyti vel undirbúnir fyrir sendiherrastöður og ég hef eingöngu haft góða reynslu af sendiherrum úr hópi stjórnmálamanna. Þegar ég flutti til Kanada var Svavar Gestsson ræðismaður í Winnipeg og hann var alveg magnaður í því starfi. Hann og Guðrún bæði enda eru þau sendiherrahjón sem vinna mjög vel saman. Þau reyndust mér ákaflega vel í alla staði og Svavar var gífurlega vinsæll í Winnipeg. Það var algjör synd að hann skyldi ekki hafa fengið að taka við sendiherrastöðunni í Ottawa þegar hún varð loks að veruleika.

Eiður Guðnason tók við af honum og byrjaði rólegar en Svavar hafði. Held að hann sé svolítið feiminn. En innan skamms var hann búinn að ávinna sér traust og virðingu fólksins og ég myndi segja að hann hafi verið ákaflega góður konsúll. Við söknuðum hans líka þegar hann fór. Markúsi Erni kynntist ég ekki eins vel enda var ég aðeins sex vikur í Ottawa og hitti hann aðeins tvisvar á þeim tíma. Mér skilst að hann hafi verið býsna vinsæll þar.

En stjórnmálamennirnir eru ekki endilega betri en þeir sem hafa aðra reynslu. Núverandi ræðismaður í Winnipeg er ákaflega geðugur og vinsæll maður, Atli Ásmundsson. Hann tók við eftir að ég flutti til Vancouver en ég hitti hann nokkrum sinnum áður, á meðan hann starfaði fyrir utanríkisráðherra, og ég hef hitt hann nokkrum sinnum eftir að hann varð konsúll, og ég verð að segja að hann hefur staðið sig alveg geysilega vel í þessu starfi. Frábært dæmi um fólk sem hefur unnið í mörg ár í utanríkisþjónustunni og fær að lokum að fara erlendis og þjóna landi sínu þaðan.

Ég hef líka kynnst konsúlum og sendiherrum sem mér hefur ekki líkað og sem ég tel að hafi ekki staðið sig í starfi, og það er athyglisvert að það hafa ekki verið stjórnmálamennirnir. Þannig að kannski er það alls ekki slæmt að við höfum notað sendiherrastólana sem laun fyrir stjórnmálamenn sem vilja hætta í pólitík.

 


mbl.is Segir sendiherra of marga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband