Skatturinn
13.3.2008 | 00:01
Undanfarin ár hefur íslenska skattskýrslan mín meira og minna gengið út á það að skrá hversu mikið ég skulda lánasjóðnum og hversu lítið ég á í banka. Þannig að pabbi hefur gert þetta fyrir mig. Að þessu sinni er skýrslan aðeins flóknari því ég hef fengið styrk frá Rannís undanfarin ár og þarf því að fylla inn tekur og frádráttarliði. Svo pabba fannst ég gæti nú gert þetta sjálf sem er alveg hárétt þar sem hægt er að gera þetta á netinu.
Ég verð að segja þetta: Mikið hrikalega eru Íslendingar nú heppnir með það hversu auðvelt er að gera skattskýrsluna. Þetta var þokkalega auðvelt þegar ég bjó heima enda var ég bara unglingur þegar ég fór að gera skýrsluna sjálf (og lét svo pabba lesa yfir hana) en nú er þetta ennþá auðveldara.
Skýrslan hér í Kanada er algjör horbjóður. Maður þarf að borga bæði fylkisskatt og landsskatt og þarf að reikna út hvorn tveggja. Þá eru mismunandi skattþrep þannig að maður þarf að reikna út prósentuhlutfallið, svo þarf að reikna út eina tölu hér, færa hana inn í reit á öðru blaði, bæta svo við tölum frá enn öðru blaði sem maður þarf að reikna út...maður er stanslaust að fara fram og til baka á milli síðna því á bak við hverja tölu eru flókinn útreikningur. Skýrslan mín er fremur einföld því ég er bara með tekjur frá háskólanum og gjöldin eru skattar, lífeyrissjóður og skólagjöld. Ég á engar eignir sem teljast til tekna, hvorki hús né bíl, almennt séð ætti þessi skýrsla að vera auðveld. En það tekur mig alltaf einhverja klukkutíma að gera hana og ég geri ALLTAF mistök. Og það er ekki það að ég sé svona hrikalega slæm í reikningi, það er bara svo margt að fylla inn að það er auðvelt að gleyma einhverju.
En ég vildi bara hrósa skattstjóra fyrir það hversu vel þeim hefur tekist að halda íslensku skýrslunni tiltölulega auðveldri. Ef stjórnvöld myndu nú sjá sóma sinn í því að hafa lægri skattþrep fyrir tekjuminna fólk þá væri ég hæstánægð með kerfið.
Athugasemdir
Alveg væri ég til í að hafa meiri fyrirhöfn við að fylla út skattskýrsluna, ef ríkið tæki minni skatt af mér í staðinn.
Marinó Már Marinósson, 13.3.2008 kl. 16:46
Þú ættir þá að koma til Danmerkur. Hér eru nánast allar upplýsingar sendar á tölvutæku formi til skattstjóra og standa á skattaskýrslunni þinni þegar þú færð hana. Það er undantekning að maður þurfi annað en að skrifa undir og segja "takk og bless"
Við Marinó vil ég segja: Glaður myndi ég borga meira í skatt á Íslandi ef ég fengi jafn mikið fyrir hann og í Danmörku. Mig hryllir við tilhugsuninni um lága skattprósentu á Íslandi og enn lægra þjónustustig!
Skúli Freyr Br., 13.3.2008 kl. 20:55
Ég dáist að jákvæðninni í þér gagnvart skattskýrsluútfyllingum á Íslandi. Einu sinni tók ég þá ákvörðun að það að fylla út skattskýrslu væri nokkuð sem ég ætlaði aldrei að læra - hef staðið við það og læt sjá um það fyrir mig - og borga með glöðu geði. Græði gott skap í æði marga daga á því
Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 13.3.2008 kl. 21:31
Tilvitnun :
Skýrslan hér í Kanada er algjör horbjóður. Maður þarf að borga bæði fylkisskatt og landsskatt og þarf að reikna út hvorn tveggja. Þá eru mismunandi skattþrep þannig að maður þarf að reikna út prósentuhlutfallið
Ef stjórnvöld myndu nú sjá sóma sinn í því að hafa lægri skattþrep fyrir tekjuminna fólk
Smá mótsögn
Baldur (IP-tala skráð) 13.3.2008 kl. 23:47
Baldur, það er enginn mótsögn því það eru ekki mismunandi skattaþrep sem gera kanadísku skýrsluna svona flókna. Það eru síðurnar tuttugu eða svo sem allar hafa um þrjátíu til fjörutíu reiti sem þarf að fylla út. Já, það að reikna mismunandi skattþrep myndi hafa einum reit meira að fylla út og eina tölu í viðbót að reikna en það er nú allur munurinn. Og eins og þetta er gert á Íslandi núna þá yrði þetta gert fyrir mann. Sem sagt, íslenska skattskýrslan héldi áfram að vera hundrað sinnum auðveldari en sú kanadíska þótt bætt yrði við skattþrepum. Hér er ekki um neina mótsögn að ræða nema fyrir kapítalista sem mega ekki heyra á það minnst að fátækara og tekjuminna fólk komist af með minni skattgreiðslur. Og þar er þetta ekki einu sinni mótsögn heldur bara illska.
Sveinn, einmitt það sem ég var að segja. Annars er ekki alveg rétt að það þurfi bara að samþykkja. Það á alla vega ekki við um alla. Þegar ég opnaði mína skattskýrslu á netinu var aðeins búið að fylla út LÍN og ekkert annað. Launin mín sem koma frá Rannís voru ekki þarna inni. En ég er líklega undantekning þar sem ég á ekki lögheimili á Íslandi.
Kristín M. Jóhannsdóttir, 14.3.2008 kl. 01:05
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.