Þessir krakkar geta verið svo þreytandi

Ég hef aldrei skilið af hverju fólk geymir alltaf allt þangað til á síðustu stundu og þá sérstaklega þegar maður er í skóla. Nemendur mínir eiga að skrifa útdrátt úr fræðigrein og skila á miðvikudaginn. Þetta er hópverkefni og það er alltaf erfiðara að vinna slík verkefni því eitt af  aðalvandamálunum er að finna tíma þar sem allir í hópnum geta komið saman.

Síðasta föstudag fengu hóparnir að velja sér grein (engir tveir hópar hafa sömu grein). Ég sagði þeim þá að byrja strax á verkefninu því þau hefðu aðeins eina og hálfa viku til þess og þau mættu ekki geyma þetta fram á síðustu stundu. Ég lagði líka áherslu á að þetta væru níðþungar greinar þar sem um væri að ræða alvöru fræðigreinar en ekki kafla í skólabókum eins og þau eru vön. Og efnið er líka flókið því það er um málskilning og greinarnar koma því úr læknisfræði, sálfræði og hljóðfræði. Fyrir utan að lesa greinina þurfa þau að útskýra um hvað hún fjallar og koma með gagnrýni. Þetta er EKKI auðvelt verkefni.

Í dag var liðin vika frá því þau fengu verkið og nú eru bara fimm dagar þar til þau þurfa að skila því. Enginn hópanna var búinn að lesa sína grein og flestir áttu eftir að finna hana á bókasafninu. Í kvöld fékk ég póst frá einum hópanna þar sem þau spurðu mig hvar þau gætu fundið hana. Tímaritið sem inniheldur greinina sem þau völdu er til á bókasafninu, það eina sem þau þurftu að gera var að skrá nafnið á því í leitarvélina og þau hefðu fengið nákvæmar upplýsingar um hvar hana væri að finna. En það var greinilega auðveldara að spyrja mig. 

Ég velti því stundum fyrir mér hvort þessir krakkar legðu meira á sig sig ef þeir væru á íslenskum námslánum sem væru tekin af þeim ef þeir féllu. En í staðinn borga mamma og pabbi brúsann og lífið er leikur! 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hér hittir þú á áhugamál hjá mér. Geri ráð fyrir að þú sért hér að tala um krakka í háskólanámi. Svo þegar þú ert búin að fá þau inn á safnið að lesa er spurning hvernig þau vinna með textann.

Set hér inn link í grein sem ég skrifaði í tengslum við ráðstefnu í HÍ 2005. Efnið er að hluta til úr grunnlitteratur sem ég byggi doktorsverkefnið mitt á. Datt í hug að þú fyndir þarna eitthvað sem þú kannast við sem kennari (sérstaklega umfjöllun um rannsóknir Marton og félaga og svo lokaorðin). http://www.hi.is/Apps/WebObjects/HI.woa/swdocument/1007506/Anna%C3%93lafsd%C3%B3ttir.pdf 

Gangi þér vel með krakkana þína

Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 15.3.2008 kl. 09:24

2 Smámynd: Brynja skordal

Hafðu ljúfa helgi mín kæra

Brynja skordal, 15.3.2008 kl. 10:07

3 Smámynd: Nanna Katrín Kristjánsdóttir

Úff þetta heitir frestunar árrátta.  HEld þau vilji alveg standa sig, bara vandar framkvæmdina af einhverjum ástæðum.  Það eru til leiðir til að vinna á svona frestunar áráttu, en seinna getur þetta virkilega hrjáð fólk.

Nanna Katrín Kristjánsdóttir, 15.3.2008 kl. 10:17

4 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Sumir segjast vinna betur undir álagi, ég kalla það frestunaráráttu ...

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 15.3.2008 kl. 17:25

5 identicon

Ég er alveg sammála þér Kristín.  Ég hef reyndar aldrei kennt á Íslandi, en ég get borið saman háskólakrakka í Noregi og Bandaríkjunum.  Mikill munur.  Þau í Noregi þurfa að standa algjörlega á eigin fótum (á námslánum) og þau eru svo miklu miklu sjálfstæðari heldur en þessi spilltu pabbabörn hérna fyrir vestan.  Sérstaklega fann ég fyrir þessu þegar ég kenndi fyrir nokkrum árum við einkaháskóla hér ... krakkarnir höfðu svo mikla peninga að það skipti þau engu máli þótt þau féllu.  Bara því meiri tími til þess að leika sér áður en þau þurfa að fara að vinna.  Kveðjur frá Santa Cruz.

Þorbjörg (IP-tala skráð) 16.3.2008 kl. 02:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband