Óvænt gjöf að heiman
16.3.2008 | 05:21
Ég á bestu foreldra í heimi. Þau hafa alltaf stutt mig í hverju því sem ég hef tekið fyrir hendur og þegar ég var yngri og var að keppa í íþróttum, hvort sem það voru skíðin, frjálsarnar eða fimleikarnir, þá voru þau alltaf á staðnum að hvetja mig. Þau eru alltaf að gera eitthvað fyrir mig og ég vildi að ég fengi tækifæri til þess að hitta þau oftar, svo og bræður mína og fjölskyldur þeirra.
Og í dag fékk ég pakka með páskaeggi. Það var reyndar frá Bónusi (mamma og pabbi eru ekki alveg búin að ná því að súkkulaði á að koma frá Nóa Siríusi) en Bónusegg er miklu betra en ekkert egg. Og þau þögðu algjörlega yfir þessu þannig að það var eintóm gleði þegar pakkinn kom. Fékk líka þessa fínu sokka og litla fána og slúðurblöð. Mér finnst alltaf gaman að sjá íslenska slúðrið þótt ég sitji og fussi og svei yfir vitleysunni.
Dagurinn í dag reyndist betri en ég bjóst við. Ég sat frá níu til fimm og fór yfir miðsvetrarpróf. Ég hélt að þetta yrði ömurlegt en í staðinn reyndist þetta hin mesta skemmtun. Sum svörin voru svo ótrúlega vitlaus að við veltumst um af hlátri yfir þeim. Ég veit að það er ljótt að segja þetta því maður á ekki að hlæja að fyrsta árs nemum, en í alvöru, sumt sem þeim dettur í hug er bara svo bráðskemmtilegt. Eftir að við kláruðum að fara yfir prófin fórum við öll (við erum fimm aðstoðarkennararnir og svo prófessorinn) á Mahony's bar á kampus og þar var verið að sýna Canucks-leikinn. Við unnum Dallas 4-3 og þetta var mjög mikilvægur sigur.
En nú er ég farin að sofa. Þarf að spila tvo fótboltaleiki á morgun.
Athugasemdir
Af hverju ekki Bónus-páskaegg?
en
Gleðilegar páskakveðjur frá öllum í Blönduhlíð
Arnar Geir Geirsson (IP-tala skráð) 17.3.2008 kl. 09:21
Það er bara ekki eins bragðgott. En það er samt gott því það er íslenskt páskaegg með málshætti og nammi!
Sendi kveðjur til baka í Blönduhlíð.
Kristín M. Jóhannsdóttir, 17.3.2008 kl. 16:11
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.