Hvíti knötturinn

Það er fátt sem fer eins mikið í taugarnar á mér eins og þegar annað fólk fer illa með tímann minn. Liðið mitt, Presto, átti að spila undanúrslitaleik í fótboltanum í dag og við vorum allar mættar á svæðið á réttum tíma og tilbúnar að spila. Nema hvað enginn var dómarinn. Við biðum í hálftíma og enginn kom. Við reyndum að hringja í deildina en fengum bara símsvara. Það er óþolandi þegar maður skipuleggur helgina í kringum eitthvað sem síðan verður ekki að veruleika vegna heimsku eða tillitsleysis annarra. Við vitum svo sem ekkert hvað gerðist. Kannski fékk dómarinn hjartaáfall og var fluttur á spítala, kannski klikkaði deildin á því að útvega dómara... hver svo sem ástæðan var þá var þetta ekki skemmtilegt fyrir okkur. Nú þarf að setja þennan leik á annan tíma hvenær sem það svo sem verður. Við spurðum stelpurnar í hinu liðinu hvort þær vildu spila gamni leik í staðinn fyrst við vorum allar mættar þarna hvort sem var, en þær nenntu því ekki. Svo í staðinn skipum við okkar liði í tvennt og héldum æfingu í staðinn.

Um kvöldið spilaði ég svo leik með innanhússliðinu mínu. Við áttum í svolitlum vandræðum með suma strákana í liðinu. Nokkrir eru svo æstir í að skora að þeir einleika boltanum og þeir kunna heldur ekki að slappa af. Þegar staðan var 3-0 fyrir okkur bað Dave alla um að slappa af því við mættum ekki vinna leikinn með of miklum mun. Það er vegna þess að þrír leikir eru fyrst leiknir til að ákveða í hvaða deild við eigum að leika. Við viljum ekki leika í annarri deild og viljum því ekki standa okkur of vel. En það er ekki hægt að stoppa suma og þegar staðan var orðin 7-0 fyrir okkur var Dave orðinn svo pirraður að vörnin var farin að gefa hinu liðinu boltann. Gallinn var að markvörðurinn er ekki ánægður með að fá á sig mörk svo hann lék eins og engill og stoppaði næstum allt sem kom nálægt honum. En það tókst að lokum að leyfa þrjú mörk svo lokastaðan varð 7-3. Það var svolítið fyndið þegar ein stelpan í þeirra liði skoraði þriðja markið. Hún fagnaði svo rosalega að hún fór í handahlaup. Vissi greinilega ekki að vörnin hafði beinlínis spilað boltanum til hennar svo hún gæti skorað. Dave vildi alls ekki að við héldum markinu hreinu. Spurningin er hvernig næsti leikur fer og hvort við þurfum að róa okkur þar líka. En eftir tvær vikur hefst keppnin fyrir alvöru og þá verður nú gaman.

Dómarinn í kvöld var mjög góður. Hann er eldri maður sem leyfði leiknum að ganga og stoppaði boltann bara þegar brotin voru óþarflega gróf. Hann var meira að segja pínulítið fyndinn einu sinni. Það var eftir að hitt liðið skoraði sitt fyrsta mark og staðan var 7-1. Þá kallaði einhver í okkar liði: "Útaf með markmanninn" (markmaðurinn Joe er með cerebral palsy en stendur sig alveg frábærlega þótt fatlaður sé. Strákarnir stríða honum mikið og hann kann að taka því - hefur held ég bara gaman af. Þeir eru allir frændur þessir strákar í liðinu - portúgalskir). Dómarinn kallaði þá á móti:" Hvað meinarðu eiginlega? Markmaðurinn er algjörlega búinn að halda ykkur inni í þessum leik." Hann er samt ekki eins skemmtilegur og Angelo sem er aðaldómarinn í deildinni og sá besti. Hann dæmdi leikinn á eftir okkar leik svo hann var mættur á svæðið þegar við komum af vellinum. Hann kom beint yfir til mín og tók í höndina á mér. Hann hefur alltaf gaman af að spjalla. Hann sagði mér að planið væri að halda fótboltamót á milli deilda hjá Vanoc. Þeir héldu víst svoleiðis mót í kringum jólin og ætlunin er að halda annað slíkt í vor. Hann dæmir fyrir þá. Hann sagði mér að ég skyldi endilega njósna um hvenær þetta yrði svo ég gæti spilað með. Vona að ég fái það þótt ég byrji ekki að vinna þar fyrr en í júní.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband