Miðsvetrarpróf og skemmtun í höllinni

Í dag skiluðum við miðsvetrarprófinu aftur til nemenda. Þau hafa ábyggilega mörg fengið sjokk því fallprósentan var líklega í kringum 40. Af 150 nemendum fengu tveir A+ og enginn fékk A. Ég var reyndar ákaflega stolt af því að sú sem var hæst í öllum bekknum var í hópnum mínum. Hún var að vonum ánægð með frammistöðu sína.

Síðar um daginn, þegar ég var að koma af fundi  með Hotze, rakst ég á einn nemanda minn sem féll. Hún hafði fengið skilaboð á prófinu sínum um að bóka fund með prófessornum. Hann ræddi við mig svolitla stund og ég reyndi að hvetja hann til dáða. Þetta er alveg ákaflega geðungur ungur drengur og mér þótti ákaflega sárt að sjá hvað honum gekk illa á prófinu. Honum hefur gengið ágætlega í heimaverkefnum en verr þegar tímapressa er á.

Þegar ég kom heim fann ég skilaboð frá Mark sem stakk upp á að við færum á leikinn í kvöld gegn Phoenix Coyotes. Þjálfari Phoenix er enginn annar en Wayne Gretsky sem er besti hokkímaður allra tíma - jafnvel enn betri en Maurice Richard og þá er mikið sagt því Richard er þjóðhetja í Kanada. Það er Gretsky reyndar líka. Hann hætti spilamennsku árið sem ég flutti til Kanada og andlitið á honum var klístrað alls staðar. Hann var frábær leikmaður og er víst ákaflega geðugur náungi (þótt kona hans hafi verið hluti af skandal sem hefur með veðmál að gera) en mér leiðist hann sem þjálfari. Hann er síkvartandi og reiðist í hvert sinn sem leikmenn hans eru sendir af velli - jafnvel þegar brotin eru augljós. Þveröfugt við hann Vigneault okkar.

Við fórum niðreftir og urðum að kaupa miðana okkar frá skölpurum, sem þýddi að við þurftum að borga meira en vanalega - en við fengum tvo miða saman á uppseldan leik svo það var gott. Leikurinn reyndist alveg magnaður og við unnum 3-1. Ég skal sleppa því að fara út í smáatriði því ég veit að enginn nennir að lesa þau. En trúið mér, við skemmtum okkur konunglega.

mark and meSet inn mynd sem var tekin með farsímanum mínum þannig að gæðin eru ekki mikil. Mark er frá Winnipeg og mætti stoltur í bol merktum Winnipeg Jets. Sem var pínulítið fyndið vegna þess að þegar Jets voru seldir frá Winnipeg (Winnipegbúar eru enn í sárum eftir það) þá var liðið selt til Arizona og varð Phoenix Coyotes -  liðið sem við lékum gegn í kvöld. Þetta var fyrir tólf árum og einn þáverandi leikmanna, Shane Doan er ennþá með liðinu. (Verð að bæta því við hér að ég skrifaði fyrst 'er still með liðinu' -  bölv. enskan alltaf að troða sér inn.) En auðvitað hélt Mark með Vancouver enda mikill Canucks aðdáandi. Ég held svei mér þá að hann hafi flutt til Vancouver til að geta búið í borg með almennilegu hokkíliði. Alla vega sagði hann að ef Winnipeg fengi aftur NHL lið þá myndi hann flytja aftur heim!

Yfir og út, ég er farin að sofa. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Marinó Már Marinósson

Talandi um að enskan troði sér inn.     Stuttu eftir að ég kom frá USA hérna forðum, þá átti ég til að segja "taka bað" ef ég ætlaði í bað.

Maður ætti kannski að setja sig inn í þessa leiki á skautum til að fylgjast með, því þú skrifar skemmtilega um leikina og allt sem er að gerast í kringum þá.   

Marinó Már Marinósson, 18.3.2008 kl. 10:41

2 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Haha, veistu það Marinó, ég hef staðið sjálfa mig að því að segja nákvæmlega það sama - taka bað, eða taka sturtu.

Og takk fyrir hólið. Já, hokkí er ofsalega skemmtilegur leikur en maður þarf aðeins að skilja það sem er að gerast áður en hægt er að detta algjörlega ofan í það. Fyrstu skiptin sem ég sá hokkí fannst mér þetta t.d. bara allt í lagi. Svo fór ég að fylgjast meira með og kolféll alveg. Nún finnst mér þetta jafnskemmtilegt og að horfa á handbolta og þá er mikið sagt (hefur alltaf fundist skemmtilegra að horfa á handbolta en fótbolta þótt mér finnist skemmtilegra að spila fótbolta). 

Kristín M. Jóhannsdóttir, 18.3.2008 kl. 16:54

3 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Ef Olíumenn ná að halda jafntefli í öllum leikjum sem eftir eru eiga þeir smá möguleika því þeir virðast vinna alla í vítakeppninni. Ekkert lið er eins sterkt eftir 65 mínútna leik. Ég verð hins vegar að hryggja þig með því að möguleiki ykkar er einmit stjarnfræðilegur. Ég held að við höfum gengið frá Phoenix í gær með því að setja þá sjö stig út úr úrslitasæti og Oilers eru enn neðarlega.

Góðu fréttirnar eru að liðið þitt hefur alveg stórkostlega unga leikmenn eins og Sam Gagne og eftir eitt til tvö ár ættu þeir að geta staðið sig virkilega vel. Þarf bara smá þolinmæði hjá þeim þarna í Alberta.

Aðalatriðið hjá okkur er að lenda annað hvort í þriðja sæti eða sjötta sæti. Við megum alls ekki lenda í sjöunda því þá spilum við á móti San Jose og þótt við getum svo sem unnið einn eða tvo leiki þá held ég að við ættum ekki séns að vinna seríuna. Ég vil spila á móti Calgary en til þess að það gerist verður annað liðið að lenda í þriðja sæti og hitt í sjötta. Við gætum líka unnið Colarado og Minnesota, og jafnvel Detroit, en San Jose og Anaheim myndu éta okkur lifandi. 

Kristín M. Jóhannsdóttir, 18.3.2008 kl. 23:16

4 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Rétt hjá þér, þetta er enn mögulegt. Nema við höfum ekki hugsað okkur að láta ykkur fá fjögur stig frá okkur!!! Kannski tvö - í mesta lagi.

Kristín M. Jóhannsdóttir, 19.3.2008 kl. 00:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband