Skíðamót á föstudaginn langa

Samkvæmt reglum Skíðasambands Íslands verður maður fullorðinn sautján ára gamall; það er þá sem maður færist úr unglingaflokki og yfir í fullorðinsflokk. Hægt var að keppa á Skíðalandsmóti Íslands fyrr ef maður hlaut nægilega mörg stig í flokki fimmtán til sextán ára. Ég náði þessum stigum sextán ára og fór þá á mitt fyrsta landsmót. Landsmótin mín urðu reyndar ekki nema þrjú því ég hætti keppni átján ára þegar hnén á mér voru farin að kvarta í hvert sinn sem ég fór á skíði.

Þá hafði andrúmsloftið líka breyst mikið á skíðunum. Við vorum með júgóslavneskan þjálfara sem skildi ekki af hverju við vorum að vesenast í skóla þegar við gætum verið á skíðum. Hann var því farinn að bjóða upp á dagæfingar klukkan eitt og þeir sem voru til í að skrópa í skólann eða vinnuna gátu komið þá og fengið sérstaka æfingu. Ég var í MA og var ákveðin í að klára stúdentinn með sóma. Þar að auki vissi ég alltaf að skíðin ættu ekki eftir að verða lífsviðurværi mitt, hvorki sem keppandi né þjálfari, svo ég var ekki tilbúin til þess að fórna skólanum til þess að fá aukaæfingu. Ég var því óánægðari og óánægðari og þegar sársaukinn í hnjánum bættist við þá varð ákvörðunin um að hætta ekki svo erfið. Jafnvel þótt ég væri að hætta einhverju sem hafði verið líf mitt frá því ég var átta ára.

En ég ætlaði að tala um landsmótin. Á þessum árum fóru þau alltaf fram um páskana. Þá var vanalega keppt í svigi og stórsvigi á Skírdag og svo á laugardeginum, og liðakeppnin og síðar samhliða svigið var  á páskadag. Á föstudeginum langa var eingöngu keppt í göngu og við sem vorum í alpagreinunum höfðum því ekkert að gera þennan dag. Allar búðir voru lokaðar enda mátti ekki hnerra á föstudeginum langa á þessum árum, og við vorum stödd í ókunnum bæ úti á landi (annars vegar á Siglufirði og hins vegar á Ísafirði - þriðja árið mitt var á Akureyri svo ég gat bara haldið mig heima þegar ég var ekki að keppa). Þetta voru leiðinlegust dagar sem ég man eftir. Ég man sérstaklega eftir skíðamótinu á Siglufirði. Við gistum í skálanum inni á Dal og höfðum ekkert að gera. Ég fór aðeins á skíði því mér leiddist svo ógurlega, en þegar maður keppir þrjá daga af fjórum þá langar mann ekkert sérstaklega á skíði þennan eina frídag. Ég man líka að ég labbaði út að göngubraut og horfði aðeins á keppnina, en einhverra hluta vegna hefur mér aldrei fundist skemmtilegt að horfa á skíðagöngu þótt það sé alveg ágætt að labba sjálfur á gönguskíðum.

Ekki var neitt gagn af því að fara niður í bæ því allt var lokað og þar að auki þó nokkur spölur niðreftir og ekkert reglulegt far að fá. Maður sat því í skálanum og lét sér leiðast. Reyndar voru nokkrir strákar úr Reykjavík með gítar (Einar Úlfs og strákarnir hans  Valdimars Örnólfssonar) og eitthvað var sungið, en almennt ráfaði fólk um skálann og lét sér leiðast. Við skildum aldrei af hverju allt þurfti að vera lokað á þessum degi.

Annars var kannski bara ágætt að búðir voru lokaðar þegar hópur ungmenna kom í bæinn. Á unglingameistaramótum var aðalsportið hjá sumum að stela úr búðum og sjá hvort þeir/þær kæmust upp með það. Man eftir að fólk var að stela alls konar hlutum sem það vantaði ekki einu sinni - bara upp á sportið. Annars vil ég nú trúa því að þessum sautján ára og eldri hafi fundist minna varið í búðarhnupl en þessum 13-16 ára.

Er þetta virkilega það sem mér dettur helst í hug þegar ég hugsa um föstudaginn langa? 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

Já, Stína, það er eðlilegt að leiðindi komi upp í hugann þegar minnst er á föstudaginn langa. Margir krakkar héldu að það væru aukaklukkutímar í föstudeginum langa. Allt var bannað, m.a.s. að spila. Það eina leyfilega var að fara á skíði.

GUÐI sé lof fyrir áorðnar breytingar ... segir heiðinginn.

Berglind Steinsdóttir, 21.3.2008 kl. 19:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband