Klifurklám
21.3.2008 | 20:39
Það eru komin göt á klifurskóna mínaþar sem stóru tærnar eru. Það er ekki beinlínis gott og í gær rak ég aðra tána í veginn og varð að setjast niður og nudda hana svolítið. Patrick settist hjá mér en hann er einn klifraranna sem ég sé þarna af og til. Ég sagði honum að ég neyddist til að fá mér nýja skó og að ég hefði verið að skoða nýja vörulistann frá MEC (stærsta útivistarbúðin í Vancouver) svo ég gæti valið mér nýja skó.
"Aaaaahhh", stundi hann. "Klifurklám!"
"Klifurklám?"
"Já, maður fær nýjan vörulista frá MEC og situr svo og slefar yfir öllum klifurbúnaðinum sem hægt er að kaupa. Nýju beltin eru t.d. æðisleg"
Mér fannst þetta gott orð og ætla framvegis að nota það. Eftir smá umræðu um hvaða skór eru góðir og hvernig nýju beltin virka mælti Patrick með skónum sem hann notar sem eru þægilegir skór frá Mad Rock. Ódýrir en þrælgóðir sagði hann. Hann bætti svo við: "Og þeir eru vel harðir."
Svo ég svaraði auðvitað: "Sem leiðir beint til baka að klifurklámi!"
Athugasemdir
Stína þetta var daður!! Er hann sætur - á lausu ;)
Hrabba (IP-tala skráð) 22.3.2008 kl. 10:38
Sætur? Já. Ákaflega. Á lausu? Ekki hugmynd. Það er ekki hægt að klifra með hringa þannig að maður veit aldrei hjúskaparstöðu neins.
Kristín M. Jóhannsdóttir, 22.3.2008 kl. 16:07
Ég verð að koma þessu orði að í skjátexta við tækifæri. Klifurklám. Set það i hópinn með undirhundinum þínum.
Gísli Ásgeirsson, 26.3.2008 kl. 19:49
Hehe. Endilega. Láttu mig vita þegar þú kemur þessu að í skjátexta. Það verður gaman að sjá hversu sniðugur þú þarft að vera til að finna rétta samhengið.
Kristín M. Jóhannsdóttir, 26.3.2008 kl. 22:59
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.