Gýpa

Haldiði ekki að ég hafi borðað hangikjét í páskamatinn. Gunnar og Suzanne áttu vestur-íslenskt hangikjöt og það var eldað með öllu fíneríinu sem með fylgir: kartöflum, uppstúf, grænum baunum, rauðkáli... Það eina sem vantaði var laufabrauð og bland. Í eftirrétt voru pönnukökur með bláberjasultu og rjóma. Og auðvitað leifar af páskaeggi (frá Nóa Siríusi - mmmmmmmmmm).

Yrsa var í essinu sínu og sýndi leikfimi út um allt gólf. Hún var reyndar ekki hrifin af hangikjötinu, sem hún borðar þó alltaf þegar hún kemur til Íslands. Ég held hún sé bara svona klár að hún hafi áttað sig á því að þetta var ekki íslenskt lamb. Hún vildi ekki einu sinni borða kartöflurnar og grænu baunirnar en ég tók að mér verkið og sagði Búkollu á meðan ég mataði hana. Lærði það af eigin reynslu að matur bragðast miklu betur þegar maður fær sögu með honum. Suzanne spurði mig hvort ég gæti komið í heimsókn á hverju kvöldi. Ég sagðist skyldu koma næst þegar væri fiskur því þá gæti ég sagt henni söguna "Ýsa var það heillin" og fyrir pabba myndi ég auðvitað hafa Nomma og Guðmund á Selárbakka í aðalhlutverkum. Eða var Guðmundur ekki annars á Selárbakka? Og hvar bjó Nommi? Ég er greinilega farin að ryðga í þessu öllu. Man þó að Helga gamla bjó í Hillnakofanum. Eða er ég farin að rugla því líka? Nei, það er ekki furða þótt þið vitið ekkert um hvað ég er að tala. Þetta er Þverholtstal.  

Þegar ég var að kveðja og var búin að þakka kærlega fyrir allar veitingarnar - að því ég hélt - kallaði Yrsa til mín: Þú átt eftir að þakka fyrir páskaeggið. Já, hún veit hvað hún syngur hún Yrsa enda orðin fullra þriggja ára. 

En bara svo þið vitið það þá gerði ég sama og ekkert nema að borða í allan dag. Ég sem var svo ánægð með það að ég væri komin niður í sömu þyngd og ég var í þegar ég var í menntaskóla. En ég held ég hafi bætt við einum tíu kílóum í dag. Páskaegg, amerískar pönnsur og pylsur, páskabollur, hangikjöt, rjómabollur, meira páskaegg... Já, svona eiga páskarnir að vera!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Gleðilega páska Gýpa litla. Langt er síðan ég hef heyrt þetta nafn. Yljaði mér dálítið. Mikið væri gaman að rifja upp söguna af henni Gýpu, er held ég alveg búinn að gleyma henni. Með beztu kveðju.

bumba (IP-tala skráð) 24.3.2008 kl. 10:39

2 Smámynd: Sigrún Jónsdóttir

Það væri frábært að fá söguna af henni Gýpu.  Ég fékk þessa sögu með hafragrautnum í mörg ár, en það eina sem ég man er að Gýpa blessunin sprakk!..eða það minnir mig  Í dag finnst mér hafragrautur lostæti, svo ekki hefur sagan skemmt neitt fyrir minni matarlyst.

Sigrún Jónsdóttir, 25.3.2008 kl. 00:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband