Íslenski þjóðbúningurinn
24.10.2006 | 07:00
Ég var að fara í gegnum nokkrar gamlar myndir í kvöld og fann þar á meðal þessa mynd af mér á íslenska þjóðbúningnum. Myndin var tekin 1. desember 1988 heima hjá ömmu og afa, rétt áður en við Guðrún Helga fórum á árshátíð MA. Mikið er ég ung þarna. Nítján ára og virðist yngri. Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan. Myndin var fremur gráleit enda bakgrunnurinn hvítur svo ég lagaði hana aðeins í Photoshop. Ég kann reyndar ekki nógu vel á forritið en samt nógu vel til þess að gera myndin betri en hún var áður.
Ég man vel eftir þessum degi. Mamma hafði fengið búninginn lánaðann hjá vinkonu sinni og hann passaði alveg súpervel. Við frænkur vorum svo dressaðar upp og þá var við hæfi að taka myndir. Mamma tók myndirnar og á meðan stóð amma á bak við hana og glennti sig og geiflaði til þess að fá okkur til að hlæja. Hún tók meira að segja út úr sér tennurnar svo hún gæti nú litið virkilega hlægilega út. Og svo rak hún tunguna upp að nefi. Og við hlógum.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.