Frábær leikur

Sigur Vancouver á Calgary var stórkostlegur í kvöld. Og ég var á staðnum.

Ég hafði ekki ætlað á leikinn enda aðeins þrír leikir eftir og ekki auðvelt að fá miða. En í gærkvöldi fékk ég tölvupóst frá stelpu í málvísindadeildinni sem átti tvö miða en komst ekki. Hún bauð mér að kaupa miðana af sér. Ég hringdi í nokkra sem ég þekkti sem hefðu mögulega áhuga á að fara en fólk var ýmist að vinna, átti ekki pening, eða fékk skilaboðin ekki nógu snemma. Það varð því úr að ég tók bara annan miðann og stelpan náði að losna við hinn miðann í gegnum netið. Ég þurfti bara að borga rúmlega hálfvirði sem var mjög fínt.

Einhvern tímann lofaði ég því að blogga ekki meira um hokkí en ég er búin að komast að því að örfáir hafa gaman af að lesa hokkíblogg og fyrir þá ætla ég aðeins að skrifa um leikinn.

Það byrjaði ekki vel hjá okkur. Calgary kom út á fullu og skoraði fyrsta markið þegar rétt rúmlega mínúta var liðin af leiktímanum. Þeir héldu áfram að koma harkalega að okkur og það var eins og það tæki Vancouver nokkrar mínútur að átta sig á því hvar þeir væru staddir. Sko, málið er að þegar við mættumst síðast, fyrir tæpri viku, þá spilaði Vancouver góðan fyrsta leikhluta en hrundi svo eins og spilaborg og Calgary hreinlega át þá. Þeim var hent til hliðar, þeim kastað í glerið og svo voru þeir notaðir til að sópa gólfið með. Það var eins og Vancouver myndi allt í einu eftir þessu og þeir ákváðu að gera eitthvað í málunum. Þegar leikið er gegn Calgary þarf að leika að hörku. Ekki bara með pökkinn heldur almennt. Calgary þjálfarinn Mike Keenan er kallaður járn Mike. Hann er harðhaus og hundur. Ég þoli hann ekki. Fæ grænar bólur í hvert sinn sem ég sé hann. Ég held að hann sé ömurlegur karakter og þetta segi ég ekki af því að hann þjálfar Calgary. Almennt séð hef ég ekkert á móti þeim. En sögurnar sem ég hef heyrt af Keenan frá því hann þjálfaði hér í Vancouver eru ömurlegar. En nóg um það. Hér kemur að næsta hluta leiksins - sá hluti hófst fyrir alvöru sjö mínútur eftir að leikur hófst.

Í NHL hokkí er vanalega spilað með fjórar línur framherja. Fyrsta línan hefur að skipa bestu leikmönnunum, önnur lína á líka að geta skorað, þriðja línan er aðallega send út á móti fyrstu línu andstæðingsins og þeirra hlutverk er að stoppa þá, og fjórða línan er aðallega skipuðu stórum og sterkum slagsmálahundum sem ætlað er að tuska aðeins til leikmenn hins liðsins. Þriðja línan hjá Vancovuer hefur verið alveg mögnuð í vetur. Þeir Ryan Kesler og Alex Burrows, og hver sem spilar með þeim í hvert sinn, hafa náð að stoppa hér um bil alla bestu leikmenn andstæðinganna. Þeir lokuðu á Sidney Crosby, Henrik Zetterberg, Ilya Kovalchuk, Alexander Ovechkin, og þeir hafa sama sem lokað á Iginla - hann hefur aðeins eitt mark gegn þeim í sjö leikjum. Þessir strákar eru snillingar og eitt af því sem þeir gera er að atast í markaskorurum andstæðinganna og reita þá til reiði. Alexandre Burrows er víst snillingur í því og fer víst oft yfir strikið samkvæmt samherjum hans. Hann fékk meira að segja Vincent Lecavalier til að slást við sig í vetur og báðir fengu fimm mínútna brottvísun. Þið sem fylgist ekki mikið með hokkí skiljið kannski ekki hvað er svona aðdáunarvert við þetta en lítið á mennina sem fara út af. Alex Burrows er  búinn að skora 11 mörk og hefur 19 stoðsendingar. Lecavalier hefur 40 mörk og 50 stoðsendingar. Punktarnir 30 hans Burrows eru því öllu lægri en þessir 90 sem Lecavalier hefur. Og þess vegna skiptir það miklu minna máli hvort Burrows er á svellinu eða Lecavalier. Þetta er það sem þessir strákar gera, þeir æsa upp bestu leikmenn hins liðsins þar til þeim verður hent út af og þar með er sú ógn farin af svellinu um stund. Í kvöld voru þeir magnaðir. Þeir náðu að losa okkur við Iginla í alls 16 mínútur og Phaneuf í 4 mínútur. Iginla er með 94 punkta (49 mörk og 45 stoðsendingar) og Phaneuf hefur 58 punkta (17 mörk og 41 stoðsendingu). Mestu munaði auðvitað að losna við Iginla. Gallinn er að tíu mínúturnar sem hann fékk fyrir óheiðarlega framkomu nýttust illa því það voru ekki eftir nema rúmar þrjár mínútur þegar hann fékk þær en samt. Iginla er ekki slagsmálahundur og það er því ekki hver sem er sem fær hann til við sig.

En aftur að leiknum. Eftir að Iginla var sendur af velli sjö mínútur inn í leikinn var eins og Vancouver hafi tekið við sér. Þeir komu út af fítonskrafti og nokkrum mínútum síðar jafnaði Sami Salo leikinn með svaka skoti út við bláu línuna. En rétt fyrir leikslok kom annað mark frá Calgary, nokkuð óheiðarlega að mati flestra í höllinni. Calgary hafði fengið powerplay og þeir spiluðu því fimm gegn fjórum. Ryan Kesler fékk pökkinn harkalega í fótinn og gat fyrst ekki staðið í lappirnar, hann komst loks á fætur og byrjaði að haltra af velli og allir voru farnir að öskra á dómarana um að stoppa leikinn, en þei gerðu það ekki og Calgary spilaði því í raun fimm á þrjá - og þeir náðu að skora. En Vancouver sýndi karakter og innan við mínútu síðar jafnaði Naslund leikinn aftur inn með því að fylgja pekkinum vel eftir.

Við áttum það sem eftir var leiksins. Tveimur mínútum inn í annan leikhluta skoraði gamli jaxlinn Trevor Linden við mikinn fögnuð áhorfenda, enda Linden líklega vinsælasti leikmaður liðsins fyrr og síðar. Hann hefur setið mikið á bekknum í vetur enda orðinn 37 ára sem þykir býsna aldrað í hokkí. En Linden var ekki hættur, tæpum fimm mínútum síðar bætti hann við öðru marki sínu og staðan orðin 4-2 Vncouver í vil. Sex mínútum síðar bætti Matt Pettinger við fimmta markinu og Brad Isbister innsiglaði sigurinn tæpa mínútu inn í þriðja leikhluta. Staðan 6-2 fyrir Vancouver og sigur í höfn.

Leikurinn var glettilega skemmtilegur og mikil orka, bæði á svellinu og í salnum. Fjöldi Calgary aðdáenda var á svæðinu og þeim var ekki skemmt. Tveir þeirra sátu við hliðina á mér en ég lét vera að atast í þeim. Læt karlana um það.

Hér má sjá mörkin (athugið að það þarf að smella á 'open video portal'):

http://canucks.nhl.tv/team/launch.htm?type=fvod&id=15384&catid=201

Og hér er viðtal við hann Vigneault minn:
http://canucks.nhl.tv/team/launch.htm?type=fvod&id=15385&catid=201

Það versta er að við erum svo langt frá því að vera örugg með sæti í úrslitakeppninni. Við sitjum nú í áttunda sæti, síðasta úrslitasætinu, og Nashville er aðeins stigi á eftir okkur eftir tap í vítakeppni gegn Detroit. Calgary hefur tveimur stigum fleira en við og Colorado þremur stigum fleira, en Colarado hefur leikið einum leik meira. Í raun verðum við að vinna alla leikina þrjá sem eftir eru. Þá fyrst getum við andað. Ég vildi helst komast upp fyrir hvort tveggja Calgary og Colorado og enda í sjötta sæti því þá leikum við gegn Minnesota í úrslitunum og þá ættum við að geta unnið. Ef við lendum í áttunda sæti leikum við gegn Detroit og þá getur allt gerst. Við lékum tvisvar við þá í vetur og unnum annan leikinn en töpuðum hinum. Það skiptir engu máli þótt þeir séu í efsta sæti vesturriðilsins. Þeir eru að hluta til þar af því að þeir leika í auðveldasta undirriðlinum. Hin liðin fjögur í miðvesturriðlinum eru ekki í úrslitasæti eins og er. Versta staðan fyrir okkur er að lenda í sjöunda sæti. Þá leikum við gegn San Jose og ég get ekki séð okkur vinna þá.

En aðalatriðið er að tryggja sér sæti í úrslitunum og svo verðum við að einbeitta okkur að andstæðingnum, hver svo sem það nú er.  

Við þetta má svo bæta að í dag skrifaði Aquilini Investment Group, eigandi Canucks, undir samning við Vanoc (nýja vinnuveitandann minn) um samstarf við Ólympíuleikana 2010. Carly sem leikur fótbolta með mér var á staðnum og hitti allt aðalliðið hjá Canucks og ég dauðöfunda hana. Hún hitti þó held ég ekki þjálfarann minn svo ég þarf ekki að verða algjörlega græn á litinn. Á myndinni hér til hliðar má sjá frá vinstri: Paolo Aqulini, John Furlong, CEO of Vanoc, Francesco Aquilini og Roberto Aquilini. Þeir Aquilini bræður keyptu Canucks fyrir fjórum árum og Francesco lenti í málaferlum út af þeim kaupum þar sem hann var ásakaður um að hafa hálfpartinn rænt félaginu frá tveim kaupsýslumönnum sem voru að reyna að ná samningum, Gagliardi og Beady. Úr urðu heilmikil málaferli sem tóku meira og minna allt sumarið og illilega var höggið að mannorði Francesco, en sem betur fer komst dómarinn að þeirri niðurstöðu sem mér sýndist alltaf augljós - að hann hafði ekki gert neitt af sér og keypti liðið á algjörlega löglegan hátt. Ég var ánægð með það, mér sýnist þessir bræður hin ágætustu grey.

Og áður en ég fer að sofa verð ég endilega að setja inn gamalt myndband með Trevor Linden frá þeim tíma þegar glerið í kringum völlinn var ekki eins sterkt og það er nú. Trevor er sá sem missir hjálminn:


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband