Um kerlingaálftir og tryggingamál

Ég hef verið að hugsa svolítið um að kaupa bíl. Það verður ákaflega langt í vinnuna mína þegar hún hefst í júní og þar að auki þarf ég alltaf á fótboltaleiki í hinum hluta bæjarins. Ég mun því eyða ótrúlegum tíma í strætó og lestum og enn meiri tíma í að bíða eftir strætó og lestum.

En ég ætla ekki að fara mér óðslega. Ég þarf helst að reikna út allan kostnað, sjá hvort ég hef efni á þessu, reikna líka út tímatap. Og svo kemur líka til greina að flytja frekar í austurbæinn en að kaupa bíl. Það væri ódýrara en á móti kæmi að ég yrði að yfirgefa mitt dásamlega hverfi, missa útsýnið, garðinn, ströndina...það væri erfitt.

En einn liður í að kanna málið var að finna út úr því hversu mikið ég þyrfti að borga í tryggingar. Í hverfinu mínu eru tveir tryggingaaðilar, sem segir reyndar ekki margt því Autopac hefur einokun á bílatryggingum. Ég fór inn á fyrsta staðinn og spurði hversu mikið ég þyrfti að borga í tryggingar.

-Það fer eftir því hvaða bíl þú ætlar að kaupa. Hvaða árgerð, hvað gerð...
-Ég veit ekki hvað ég mun kaupa, ég er að reyna að reikna út hvort ég hafi efni á að kaupa bíl.
-Ég get ekkert sagt þér nema ég viti hvaða bíl þú ætlar að kaupa.
-Það er ekki mjög gagnlegt, er það?
-Ég get ekkert gert að því.
-En skilurðu ekki að ég get ekki ákveðið hvaða bíl ég ætla að kaupa fyrr en ég veit hversu dýran bíl ég hef efni á að kaupa, og þar spila tryggingarnar inn í.
-En tryggingarnar fara eftir því hvaða bíl þú kaupir.
-Ekki mjög hjálplegt er það?
-Aðrir eiga ekki í vandræðum með þetta.

Eftir svolítið meira þjark yppti ég öxlum og gekk út. Þakkaði ekki einu sinni fyrir mig enda ekki fyrir neitt að þakka. Þar að auki var manneskjan fúl og leiðinleg og bauð ekki einu sinni góðan daginn þegar ég kom inn. Hvorug okkar kvaddi.

Ég fór hinum megin við götuna. Undirbjó spurninguna aðeins og betur og sagðist hafa flókna spurningu. Svo væri nefnilega mál með vexti að ég þyrfti að reikna út hvort ég hefði efni á að kaupa bíl og því þyrfti ég að vita hversu miklu sirka ég þyrfti að eyða í tryggingar, og að ég ætlaði ekki að eyða tíma mínum í að finna út nákvæmlega hvaða bíl ég gæti keypt fyrr en ég vissi hvort ég hefði efni á tryggingunum.

Þessi manneskja var miklu hjálplegri. Hún gaf mér áætlaða upphæð fyrir grunnlínuna, benti svo á hvað gæti hækkað gjöldin og hvað gæti lækkað. Ef ég keypti t.d. gamlan notaðan bíl þyrfti ég bara að borga gruninn, mínus afsláttinn sem ég fengi (fæ næstum því fullan af því að ég er búin að vera með kanadískt bílpróf í næstum átta ár). Ef ég keypti nýrri bíl vildi ég væntanlega hafa hann í kaskó.

Ég kom út af þessari tryggingastofnun með mun betri hugmynd um hvað það kostar að koma bíl á götuna. Ef af þessu verður veit ég við hvern ég mun eiga og þá sérstaklega hvar ég kem ekki aftur inn fyrir dyr.

Annars langaði mig pínulítið að fara aftur á fyrri staðinn, heimta að fá að tala við yfirmann og kvarta undan kerlingarálftinni. Það væri gott á hana. Svona fólk á ekki að vinna í þjónustustörfum. En kannski átti hún erfiðan dag ræfilinn. Verður maður ekki að reikna með því að hún hafi ekki fengið neitt í nótt! 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þröstur Unnar

Í gvöðana bænum ekki láta svona herfur trufla þig.

Er dýrt að tryggja þarna?

Þröstur Unnar, 1.4.2008 kl. 21:06

2 Smámynd: Marinó Már Marinósson

Sammála Þresti.  

Marinó Már Marinósson, 1.4.2008 kl. 23:49

3 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Ég reyni að láta svona dýr ekki pirra mig.

Grunntrygging með engum bónus en heldur engum aukaálagningum er um $1200 sem er um 90.000 krónur. Ég á líklega rétt á 35% bónus eins og erog 40% í haust.

Kristín M. Jóhannsdóttir, 1.4.2008 kl. 23:59

4 identicon

ertu að tala um á ári!!??

Hrabba (IP-tala skráð) 2.4.2008 kl. 17:16

5 identicon

eh jám höfuð það á hreinu að ég hef alltaf átt bíl en aldrei borgað tryggingarnar!! Ekki enn að minnsta kosti ... þannig að ég veit ekkert hvort þetta er mikið eða lítið en hef á tilfinningunni að þetta sé lítið

Hrabba (IP-tala skráð) 2.4.2008 kl. 17:17

6 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Já, á ári. Mér finnst þetta mikið því þetta er sirka 1/13 af núverandi árslaunum og er meira en mánaðarleiga. Kostnaður er annar hér og launin oftast heldur lægri en á Íslandi. En hvernig geturðu hafa átt bíl svona lengi en aldrei borgað tryggingar? Ég man ég var alltaf að fara á hausinn á Íslandi út af tryggingunum. Ógurlega háar.

Má líka benda á að þótt okkur hér finnist bensínverð hátt þá er það líklegra tvöfalt hærra á Íslandi!!! 

Kristín M. Jóhannsdóttir, 2.4.2008 kl. 17:23

7 identicon

well eigum við ekki bara að segja að ég sé ofdekrað einkabarn ;) ... en svo hef ég líka bara verið í skóla þar til nú og á góða foreldra sem eru til í að hjálpa mér.

Hrabba (IP-tala skráð) 2.4.2008 kl. 23:44

8 identicon

OMG - það er ekki einfalt að kaupa bíl + fá á hann tryggingar í Kanada. Ég hef prófað það. Það var ekki hægt að kaupa bíl nema vera með trygginguna tilbúna - en það var ekki hægt að fá trygginguna fyrr en þú varst búin að kaupa bílinn. Vonlaus staða.  Það þurfti meirapróf í samningatækni til að fá hlutina til að ganga upp. Gangi þér vel!

Þórunn (IP-tala skráð) 4.4.2008 kl. 21:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband