Nú er ég alveg í rusli

Í kvöld er ég nærri gráti. Mitt elskulega ástkæra hokkílið sem hefur veitt mér svo mikla skemmtun í vetur missti í kvöld af úrslitasæti og því er það svo að leikurinn gegn Calgary á laugardaginn er síðasti leikur vetrarins. Ég mun því ekki njóta sömu skemmtunar í apríl í ár og ég gerði í fyrra. Ekkert meira hokkí fyrir mig. Ég horfi kannski á einn og einn leik með Ottawa eða Montreal en það verður ekki það sama. Þetta þýðir líka engin fleiri viðtöl við Vigneault þjálfara. Fæ ekki að sjá hann aftur fyrr en í september. Það er allt of langur tími.

Mér finnst að þið ættuð öll að vorkenna mér núna því hokkíið hefur bætt upp allt það sem hefur vantað í líf mitt. Nú þegar það er horfið á veit ég ekki hvað ég á að gera af mér. 

Við töpuðum í kvöld fyrir Edmonton Oilers, liðinu hans Bjarna Gauta. Þeir voru þegar úr leik og mér fannst þeir gætu nú sýnt smá þjóðrækni og hleypt okkur áfram!!!!! En þar sem tekið er tillit til þess að sigur okkar á þeim um daginn henti þeim út úr úrslitasæti má svo sem segja að það hafi verið sanngjarnt að þeir drógu okkur niður með sér núna. En Bjarni minn, eins og mér hefur nú verið vel við Oilers (sérstaklega Jaret Stoll sem er fallegasti maður í NHL deildinni) þá verð ég að viðurkenna að ég hata þá pínulítið núna. Það mun sjálfsagt lagast fljótt. Við getum að mestu sjálfum okkur um kennt. Við áttum yfir fjörutíu skot að marki en Garon sá við öllum nema einu.

Reyndar spiluðu dómararnir í hvítum búningum í þriðja leikhluta því frammistaða þeirra var skammarleg. Það kom t.d. tvisvar fyrir að Garon markvörður fór of hátt með kylfuna, í annað skipti rak hann hana næstum því í augun á Naslund, en ekkert var dæmt á það. Tvisvar sinnum í viðbót síðustu tíu mínúturnar var illa brotið á okkar mönnum án þess að nokkuð væri dæmt en svo þegar um tvær mínútur voru eftir var dæmt hooking á okkur. Þar með gert út um okkar vonir. Ég held reyndar að það hafi verið sanngjarn dómur miðað við það sem á að dæma—þarna var um hooking að ræða—en eftir að dómararnir slepptu fjórum brotum gegn Oilers þá hélt maður að þeir ætluðu bara að láta leikinn ganga síðustu mínúturnar. Mennirnir verða að vera samkvæmir sjálfum sér.

En það skiptir sjálfsagt ekki öllu máli. Við hefðum átt að vera búin að spila nógu vel undanfarna mánuði að tap hefði ekki skipt máli. Við höfum gott lið sem hefði átt að komast áfram en endalaus meiðsli í allan vetur hafa sett strik í reikninginn. Á tímabili voru fimm af sex varnarmönnum meiddir. Það munar um minna. En aðalvandamál Vancouver er samt sem áður það að okkur vantar menn sem geta sett pökkinn í netið. Sedin bræðurnir eru góðir en þeir ættu í raun að spila á annarri línu en ekki fyrstu. Okkur vantar sterkan skorara—sterkan mann á fyrstu línuna. Það verður væntanlega verk Dave Nonis í sumar, að finna þann mann. 

Á meðan spila leikmenn og þjálfarar golf. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég samhryggist þér innilega vegna úrslitanna! kærar kveðjur frá Íslandinu góða og Akureyrinni frábæru!

Doddi - Þorsteinn G. Jónsson (IP-tala skráð) 4.4.2008 kl. 08:04

2 Smámynd: Viðar Garðarsson

Það er nú ekki hægt annað en að samhryggjast þér á þessum erfiðu tímum.

Ég á nokkra félaga sem tengjast hokkí í Svíþjóð og nú mun ég óspart segja þeim að samkvæmt upplýsingum sem ég hafi frá Vancouver séu Sedin bræðurnir annarrar línu spilarar ég er nú ekki viss um að því verði vel tekið

Viðar Garðarsson, 4.4.2008 kl. 09:43

3 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Takk samúðina. 

Já, Roloson var alveg frábær. Hann var betri en Luongo, sem hefur alls ekki sýnt sitt besta undanfarið. Enda sést það á skotum að marki, við áttum miklu miklu fleiri og einnig betri tækifæri en samt fór þetta svo. Oilers fundu ekkert fyrir því að það vantaði Garon. Ég sá nokkur skipti þar sem okkar leikmenn reyndu að komast að pekkinum eftir að svo virtist sem Roloson hefði hann, þannig að ég skil að hann hafi kvartað. En ef þú skoðar fyrsta mark Oilers sérðu að einn þinn manna hálfpartinn liggur ofan á Luongo og klemmir hann niður en ekkert var dæmt. Ég held að dómgæslan hafi hreinlega verið í köku. Eins og ég sagði, menn voru ekki samkvæmir sjálfum sér. 

Já, mörkin voru gegn gangi leiksins, en við komum ekki pekkinum inn en Edmonton gerði það. Það var munurinn.

Viðar, það eru kannski ýkjur hjá mér að Sedins eigi heima á annarri línu. Þeir eru auðvitað frábærir leikmenn en málið með þá er að þeir spila ákveðinn leik þar sem þeir fara í hringi með pökkinn fyrir aftan netið og reyna að setja upp hina fullkomnu sendingu. oft gengur þetta en oftekki. Daniel Sedin, markaskorarinn okkar, spilaði eina fjórtán leiki í röð um daginn án þess að fá stig. Á sama tíma fékk Henrik eitt og það var að skora í autt mark eftir að markvörður hafði verið tekinn af velli. Stóru sterku liðin eins og Anaheim og San Jose éta þá í morgunverð og í einvíginu við Anaheim hreinlegu gleymdust þeir. Þeir eru góðir leikmenn en ekki nógu jafnir til þess að geta komið okkur í úrslitin, hvað þá nálægt bikarnum. Þess vegna vantar okkur einn eða tvo frábæra leikmenn. Til að róa Svíana þína þá geturðu sagt þeim að mig langi ógurlega til þess að Sundin komi hingað, en því miður held ég að það muni ekki gerast.

Kristín M. Jóhannsdóttir, 4.4.2008 kl. 15:34

4 identicon

Thu varst nu alveg lidtaek i golfinu her i den....er ekki bara ad finna ut HVAR thessir peyjar eru ad golfast!! 

Rut (IP-tala skráð) 4.4.2008 kl. 20:14

5 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Rut, gallinn er bara að aðeins örfáir þeirra eru hér á sumrin. Flestir fara þangað sem þeir eiga fast heimili. My love t.d. fer til Gatineau þar sem hann á hús - og þar sem ég vann fyrir tveim sumrum, og þar sem Martin minn fyrrverandi býr líka.  Er ekki viss um að ég geti fundið ástæðu til að skella mér þangað til að hanga í kringum golfvellina.

Bjarni, mmmmm, flott video, sexí náungi.

Já, hver skyldi komast í landsliðið. Hjá okkur gæti ég séð Luongo, Alex Burrows, Willie Mitchell, hugsanlega Kevin Bieksa...

Hjá ykkur, Horcoff (eða er hann enn meiddur), Dustin Penner,  og hugsanlega Cogliano og Gagner. 

Annars þekki ég ekki reglurnar um heimsmeistarkeppni. Eru aldurstakmörk?

By the way, rosalega er Mathieu Roy eitthvað óheppinn með andlit. 

Kristín M. Jóhannsdóttir, 4.4.2008 kl. 23:46

6 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Það var útilokað að gráta ekki þegar Trevor Linden kvaddi. Það virðist klárt að þetta var hans síðasti leikur og þessi maður hefur lengi verið stórkostlegur leikmaður og hefur þýtt mikið fyrir borgina svo það voru held ég allir grátandi. Það er ljóst að treyja númer 16 verður ekki notuð aftur í Vancouver. Hún verður hengd upp í loftið á GM place við hliðina á peysu Stan Smyl.

Jarmoe Iginla er klassa leikmaður. Því miður er hann með Calgary sem er þjálfað af ógeðinu Keenan, en hann á eftir að verða aðalnúmer Kanada á Olympíuleikunum. Sama má segja um Dion Phaneuf. Hann er ekki eins góður og Iginla, augljóslega, en hann er topp leikmaður samt sem áður. Galli Calgary er sá að utan við þá tvo, og Kipursoff markmann, þá hafa þeir ekki gott lið. Þeir eru eiginlega öfugt við okkur (ef markmenn eru skyldir frá). Þeir hafa topp markaskorara en að öðru leyti ekkert sérstakt lið. VIð höfum gott lið en engan öruggan markaskorara. Ef við fengjum Iginla og Phaneuf gæti ekkert stoppað okkur.

Að öðru leyti um leikinn í gær...vil bara gleyma honum. Strákarnir voru greinilega enn í sjokki frá því á fimmtudaginn og viljinn var greinilega ekki fyrir hendi. Sorglegt fyrir Linden. Hefði verið skemmtilegra fyrir hann að fara út með dampi.

Spurningin er hvort þetta var síðasti leikur Naslund lika í Vancouver búningi. Margir halda að hann fari núna. Hann er unrestricted free agent eð rúmlega 6 millur í árslaun og hefur ekki staðið sig eins vel og vænst var af honum í ár. Það er hugsanlegt að hann verði látinn fara ef Nonis finnur betri markaskorara sem þarf að borga vel, sem þarf ábyggilega - held að laun verði eina lausnin til að fá hingað stórstjörnu. Flestir sem geta ráðið hvar þeir enda vilja vera á austurströndinni því þar eru miklu minni ferðalög og miklu meiri tími með fjölskyldunni. Það er því helst að einhver frá Vancouver svæðinu vilji koma hingað. Þar kemur helst upp í hugann Joe Sakic sem er héðan, en hann hefur lýst því yfir að hann vilji enda þar sem hann er. Kannski er hægt að bjóða honum mikla peninga. Það er hins vegar ekki hægt að horfa fram hjá því að hann er 37 ára. Ári yngri en Linden og þremur árum eldri en Naslund! Hann er hins vegar enn að skora.

Kristín M. Jóhannsdóttir, 6.4.2008 kl. 17:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband