Skotin niður

Ég hef aldrei áður verið skotin niður í orðsins fyllstu merkingu en það gerðist í dag.

Liðið mitt var að spila fyrsta alvöru leikinn í innanhúsboltanum og ég var með skotmark á mér allan tímann. Undir lok fyrri hálfleiks barðist ég um boltann við stóran og sterkan karlmann í hinu liðinu og lenti einhvern veginn undir og á úlnliðnum. Ekkert brotnaði en ég er svolítið sár. Fór útaf, setti ís á úlnliðinn og plástur á hnéð og fór aftur inná.

Þegar um sex mínútur voru eftir af leiknum stóð ég í vítateignum og William, Hollendingurinn í okkar liði, skaut boltanum fast að marki - nema hvað í stað þess að hitta markið þá hitti hann mig fyrir framan markið, beint í vangann og ég flaug afturábak eins og í teiknimynd. Ég var viss um að þetta hlyti að hafa verið svolítið fyndið að sjá en mér skilst að hljóðið sem kom frá hinum hafi ekki verið hlátur heldur djúp andköf. Þetta leit víst ekki vel út. En ekkert alvarlegt gerðist og Dave, þjálfarinn minn í Presto, og fyrirliði innanhúsliðsins grínaðist með það að þeir hefðu bara viljað vita hvort ég gæti staðið í marki ef á þyrfti að halda. Ég hefði staðist prófið. Annar strákanna (hef ekki hugmynd um hver þeirra, var svolítið utanvið mig) vildi fá að sjá á mér vangann (sem ég hélt um með hendinni) og þegar hann hafði litið á andlitið kvað hann upp dóminn: No worries, still beautiful. 

Mér dauðsveið í vangann lengi á eftir en þegar hitinn fór úr því tók ég eftir að hálsinn hafði orðið verr úti. Ég gat ekki snúið höfðinu til vinstri. En það er að lagast líka. Sef þetta úr mér.

Best var að við unnum leikinn 8-6 og byrjum því vel í vormótinu.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Stina, ekki lata lida of langt adur en thu bloggar aftur, thvi annars fer bloggheimur ad hafa ahyggjur af ther -ad thu liggir kannski einhversstadar utanvid thig med heilahristing eda eitthvad thadan af verra! Ja og eg er spennt ad vita hvort thad kom boltafar a kinnina a ther svona med timanum! Eg hef aldrei verid skotin nidur, en thad naesta sem eg komst thvi var thegar Thora Vikings slo mig nidur med bandikylfu og eg fekk thetta fina bandikylfufar a halsinn. Eg held ad thad hafi ekki einusinni verid daemdur a hana haskaleikur, thvi eg var ju frekar litil amk framundir fermingu, og Thora var natturulega alltaf risi, svo hun var orugglega ekki med kylfuna ofar en i mjadmarhaed! En thetta var vont, og farid helst i um halfan manud!

Til hamingju annars med sigurinn!

Rut (IP-tala skráð) 7.4.2008 kl. 07:24

2 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Ég held það sé ónauðsynlegt að hafa áhyggjur af mér - ég er ekki einu sinni með höfuðverk. ótrúlegt en sennilega er það af því að ég fékk boltann í kinnina en ekki hálsinn. Ég hef fengið miklu verri meðferð þegar mér hefur verið hrint afturábak og höfuðið skollið í jörðina (á möl). Ég er reyndar ekki farin að sofa ennþá (þótt komið sé langt fram yfir háttatíma) en hef ekki áhyggjur. Hehe, kylfufar í framan. Það hefur verið skemmtilegt að sjá. Sjálf hef ég ekki boltafar í andlitinu en önnur kinnin er óneitanlega rjóðari en hin!

Kristín M. Jóhannsdóttir, 7.4.2008 kl. 07:54

3 Smámynd: Einar Indriðason

Usss... Íþróttir geta verið stórhættulegar!  Nú þarf bloggheimur að safna fyrir body-armor og brynjur fyrir þig.  Ef þú endar svo eins og Michelin kallinn þá eru það bara hliðarverkanir af því að bloggheimur hafi brynjað þig upp :-) 

Einar Indriðason, 7.4.2008 kl. 08:20

4 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Altt er gott sem endar vel!

Heimir Lárusson Fjeldsted, 7.4.2008 kl. 09:38

5 Smámynd: Róslín A. Valdemarsdóttir

Haha!!! Þetta er ógeðslega vont að fá boltann svona, en ógeðslega fyndið eftir á!
En ertu að spila með karlmönnum, ertu það góð?

Róslín A. Valdemarsdóttir, 7.4.2008 kl. 15:03

6 Smámynd: Róslín A. Valdemarsdóttir

Haha! Gat ekki verið fyndara, hálftíma eftir að ég sendi þetta komment, fékk ég símtal frá pabba, valin á úrtaksæfingu í U-17!!

Róslín A. Valdemarsdóttir, 7.4.2008 kl. 15:47

7 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Til hamingju!!! frábært.

Kristín M. Jóhannsdóttir, 7.4.2008 kl. 16:24

8 Smámynd: Róslín A. Valdemarsdóttir

Takk!
En ertu svo góð að fá að spila með karlmönnum?

Róslín A. Valdemarsdóttir, 7.4.2008 kl. 16:29

9 Smámynd: Marinó Már Marinósson

Þú hefur verið eins og gangandi auglýsing fyrir Puma fótboltaframleiðendur.  

Marinó Már Marinósson, 7.4.2008 kl. 19:43

10 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Róslín, nei, ekki get ég nú sagt það. Þessi innanhúsdeild er svokölluð co-ed sem þýðir að það þurfa að vera að minnsta kosti tvær konur á vellinum í hvert sinn.

Við þetta má bæta að ég svaf nú ekki alveg úr mér hálsverkinn en þetta er ekkert ógurlega slæmt. verður ábyggilega orðið gott fyrir leikinn um næstu helgi. Grær áður en ég gift mig eins og mamma var vön að segja. 

Kristín M. Jóhannsdóttir, 7.4.2008 kl. 19:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband