Um óskipulagt fólk
11.4.2008 | 16:50
Hópvinna getur verið ógurlega erfið vegna þess að maður þarf að treysta svo mikið á annað fólk, og þegar einhver gerir ekki það sem ætlast er af þeim lenda allir í vanda.
Í vetur hef ég verið aðstoðarkennari í grunnáfanga í málvísindum, einn fimm aðstoðarkennara. Við fimm höfum unnið nokkuð vel saman en prófessorinn hefur verið vandamál. Hún gerir allt á síðustu stundu sem bæði þýðir að við hin þurfum að gera okkar hluta undir pressu, og hvenær sem henni hentar, og það þýðir líka að við vorum stundum í stresskasti yfir því hvort náist að klára hlutina eða ekki.
Á hverjum mánudagsmorgni hafa nemendur þurft að taka próf og uppkast af prófinu lá vanalega fyrir eftir tíu á sunnudagskvöldum. Endanlegt próf þurfti að vera tilbúið ekki síðar en klukkan níu á mánudagsmorgnum, helst fyrr því þá þurfti að ljósrita það í 150 eintökum. Það sýnir að við hin höfðum ekki mikinn tíma til að lesa prófið yfir og koma með athugasemdir. Stundum náði ekkert okkar að lesa yfir og stundum fóru því villur í gegn. Ég segi alla vega fyrir mig að ég les ekki mikið póstinn minn eftir klukkan tíu á sunnudagskvöldum. Og vanalega byrja ég ekki að vinna fyrr en klukkan níu á morgnana. Þetta var því ekki sérlega gott kerfi.
Við aðstoðarkennararnir sáum svo um kennslu á föstudögum. Oft þurftum við þá að fara yfir fyrirfram ákveðið efni en stundum lá ekki fyrir hvert það efni var fyrr en á fimmtudagskvöldum. Ekki var því mikill tími til þess að undirbúa það sem maður átti að kenna. Ég segi alla vega fyrir mína parta að ég vil helst vita fyrr en á fimmtudagskvöldi hvað ég á að kenna á föstudagsmorgni. Þetta var einmitt verst fyrir mig því ég var eini aðstoðarkennarinn sem hafði ekki kennt þennan áfanga áður.
Og af hverju er ég að tala um þetta núna? Af því að í dag er síðasti kennsludagur og það sem ég þarf að gera í tímanum er að afhenda einkunnir fyrir síðasta prófið og fyrir veggspjaldaráðstefnuna fyrir viku. Við settumst öll niður strax eftir ráðstefnuna og gáfum nemendum einkunnir fyrir veggspjaldið sitt og prófessorinn skráði einkunnirnar í tölvu. Hún lofaði að senda okkur síðan einkunnirnar því við þurfum að láta nemendur fá þær. Nú er rétt rúmur klukkutími þar til kennslutími byrjar, ég þarf að fara út úr húsi eftir hálftíma, og engar einkunnir komnar. Við minntum kennarann á þetta í vikunni, sendum annað bréf í gær og ég sendi svo ítrekunarbréf í morgun - en ekkert komið. Ég veit ekki alveg hvað ég á að segja nemendum sem koma í tímann til að fá einkunnirnar sínar.
Aaargggghhhhhhh. Svona fólk á ekki að hafa rétt til þess að vinna með öðrum!
Athugasemdir
Þú neyðist bara til að segja nemendunum sannleikann, sumsé að kennarinn sé hálfvithi.
Steini Briem (IP-tala skráð) 12.4.2008 kl. 09:47
Þetta reddaðist. Fékk einkunnirnar tíu mínútum áður en ég þurfti að rjúka í strætó.
Kristín M. Jóhannsdóttir, 12.4.2008 kl. 16:50
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.