Strákarnir hans Teits byrja vel

Fyrst smá um veðrið
Hitinn í dag fór upp í 19 stig samkvæmt  veðurfréttum en ég húkti inni og vann við fréttabréf Norræna félagsins í Kanada. Það þarf að koma út núna í apríl og ég ákvað því að drífa í þessu. Sá strax eftir því þegar ég fór loks út úr húsi og áttaði mig á því hversu frábært veðrið var í raun og veru. Maður getur ekki dæmt það bara með því að horfa út um gluggann því oft getur sólin platað mann.  En á móti kemur að ég er langt komin með fréttabréfið og þarf ekki nema eins dags vinnu í viðbót, ef það.

Innanhússboltinn
Þegar ég loksins kom mér út úr húsi var það til þess að halda yfir í Burnaby til að spila fótbolta. Leikur númer tvö í deildinni. Við byrjuðum æðislega og yfirspiluðum hitt liðið algjörlega, en hitt liðið var gróft og komst upp með það. Það sem gerðist þá var að bestu leikmennirnir í okkar liði létu það pirra sig og leikurinn hrundi niður. Miðjan hætti að nenna að hlaupa og pakkaði aldrei í vörn svo það kom fyrir aftur og aftur að hitt liðið náði að spila þrír á tvo. Þannig fengu þeir þrjú mörk í röð og staðan sem hafði verið 5-2 fyrir okkur varð allt í einu 5-5. Þá urðu framverðirnir okkar ennþá pirraðri, hættu að senda boltann og reyndi að komast einir í gegn (sendu aldrei á okkur stelpurnar til að mynda), og þetta varð til þess að staðan varð allt í einu 5-7. Við náðum að minnka muninn í 6-7 þegar einn þeirra manna fékk rauða spjaldið (sem hann átti skilið þótt fyrr hefði verið) en það var ekki nóg. Við spiluðum vel í fyrri hálfleik en svo tók skapið hjá sumum yfir og leikurinn hrundi niður. Phil, einn framherjanna okkar (sem aldrei gefur boltann ef hann mögulega kemst hjá því), átti í stöðugu samstuði við einn leikmanna hins liðsins og missti loks stjórn á sér og hálfpartinn lamdi til náungs. Fékk gula spjaldi, og dómarinn bað hann um að fara af velli og kæla sig aðeins niður. Phil fór af velli en hélt svo áfram að skammast og að mínu mati var hann heppinn að fá ekki rautt spjald. Hefði átt að fá það. Þegar hann lýsti þessu eftirá sagði hann að dómarinn hafi ekki hætt að öskra á sig og sjálfur hafi hann ekki sagt neitt. Það var bull. Það var hann sjálfur sem ekki þagnaði. Það þarf rennilás á rifuna á svona mönnum. Dómarinn hefði reyndar mátt standa sig betur í leiknum. Við söknum Angelo, hann er besti dómarinn í deildinni.

Vancouver Whitecaps
Vancouver Whitecaps spilaði sinn fyrsta leik í USL deildinni í kvöld gegn erkiféndunum í Montreal Impact og unnu þeir sigur, 1-0. Það byrjar því vel hjá Teiti Þórðar og félögum. Ég ætla að reyna að fara á nokkra leiki í sumar. Stemningin er víst frábær og ég á von á að liðið verði betra í sumar en það var í fyrra. 

Stanleybikarinn
Keppnin um Stanley bikarinn er komin vel af stað og flest lið hafa nú þegar leikið tvo leiki:

Montreal Canadians hafa unnið tvo leiki gegn Boston Bruins (í samræmi við mína spá).

Washington hafa unnið einn leik gegn Philadelphia Flyers (ég átti erfitt með að velja hér)

Red Wings hafa unnið tvo leiki gegn Nashville (í samræmi við mína spá)

Minnesota Wild og Colorado Avalance eru jöfn með einn sigur hvort lið (í samræmi við mína spá - spáði að sjö leiki þyrfti til)

Pittsburgh Penguins hafa unnið tvo leiki gegn Ottawa Senators (i samræmi við mína spá)

NY Rangers hafa unnið tvo leiki gegn New Jersey Devils (í samræmi við mína spá)

San Jose Shark og Calgary Flames eru jöfn með einn leik hvort lið (ekki í samræmi við mína spá, ég hélt að San Jose myndi rúlla upp Calgary í fimm leikjum...það getur reyndar enn gerst)

Dallas Stars hafa unnið tvo leiki gegn Anaheim Ducks (ekki í samræmi við mína spá. Var viss um að Anaheim færi létt með þetta. Verð að segja að ég er ánægð með að hafa haft rangt fyrir mér. Vona að Dallas slái þá út).

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Teitur er víða. Hitti hann fyrir tilviljun í Tallinn sumarið 1997, þegar hann var að þjálfa Eistana. Fínn kall. Vann mikið með Eistunum.

Steini Briem (IP-tala skráð) 13.4.2008 kl. 18:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband