Hvenær er hægt að segja að mynd sé byggð á bók?

Ég fór í bíó í dag sem svo sem er ekki í frásögur færandi, nema hvað ég fór að sjá Hina Boleyn stelpuna (The other Boleyn girl) eftir að hafa lesið bókina. Je minn góður. Á hverju voru handritshöfundar? Ég veit að vanalega er kvikmyndahandrit ekki alltaf mjög trútt upphaflegu bókinni (þegar kvikmynd er byggð á bók) en það var ekkert ógurlega margt þarna sem fylgdi bókinni. Skil ekki af hverju þeir sögðust ekki bara vera að gera mynd byggða á lífi Önnu og Maríu Boleyn (sem hefði líka verið nokkuð frjálslegt því staðreyndum er stanslaust breytt. Hér koma nokkur dæmi:

Í upphafi bíómyndarinnar búa Boleyn systkinin hamingjusamlega í Rochford heima hjá foreldrum sínum. Í bókinni eru börnin öll send í burtu í nám mjög ung, Mary fjögurra ára gömul og hin væntanlega á svipuðum aldri. Stelpurnar eru báðar aldrar upp meira og minna í frönsku hirðinni og síðar í ensku hirðinni, en ekki úti í sveit eins og í myndinni.

Í myndinni ákveður fjölskyldan að Anna verði ástkonan Henrys áttunda, jafnvel áður en hann hefur hitt hana, en hann velur síðan Maríu. Í bókinni er það svo að þegar Henry fer að sýna Maríu áhuga þá gerir fjölskyldan allt til þess að ýta undir það en það er ekki þeirra verk að Henry fær áhuga á henni. Önnu er aldrei ýtt fram fyrr en eftir að María er ófrísk og konungur fer að leita að nýrri ástkonu á meðan María liggur í rúminu.

Í myndinni eignast María son í fyrstu tilraun en konungur lítur ekki einu sinni á son sinn því hann hefur lofað Önnu því að tala aldrei aftur við Maríu. Í bókinni eignast María fyrst dóttur, Catherine og síðan son. Anna lætur konung aldrei lofa því að tala ekki við Maríu framar. Hún veit að hún hefur sigrað systur sína án þess.

Í myndinni lætur Anna reka Maríu í burtu eftir fæðingu sonar hennar, en í bókinni vill Anna hafa hana hjá sér og sendir börnin hennar í staðinn í burtu, og notar svo börnin sem tálbeitu í hvert sinn sem María vill ekki gera eins og henni er sagt.

Í myndinni nauðgar konungur Önnu þegar hann er þreyttur á að bíða eftir henni en í bókinni velur Anna sjálf stað og stund fyrir fyrstu samfarir hennar og konungs.

Í bæði bók og bíómynd giftist María William Carey áður en hún verður ástkona konungs. Í bókinni deyr hann í plágunni en í myndinni er eins og hann hverfi bara. María virðist allt í einu vera einstæð móðir án þess að nokkuð sé frekar minnst á eiginmanninn.

Í myndinni er William Stafford, síðari eiginmaður Maríu þjónn fyrir fjölskylduna sem hefur þekkt Maríu frá barnæsku og þjónar henni. Þau eru einu sinni eða tvisvar sýnd tala saman og svo allt í einu upp úr þurru segir hann henni að hann ætli að kaupa bóndabæ og hún geti komið með sér og orðið konan sín. Í bókinni eru ástir Maríu og Williams besti kaflinn í bókinni og dásamlegt hvernig hann vinnur hana með því að vera einfaldlega dásamlegur maður. Það er ekkert í myndinni sem útskýrir af hverju hún ætti að vilja hafa nokkuð með hann að gera.

Í myndinni er Anna látin missa fóstur sem enginn fær að sjá (sem passar við fyrstu tvö fósturlát hennar). Í bókinni var það hins vegar þriðja fósturlátið sem fór með hana, þegar hún ól barn sem lýst var sem skrímsli. Konungur hafði sent sína eigin ljósmóður á staðinn og sama hvað Anna reyndi að múta henni, ekkert gekk. Konungur fékk að vita að Anna hefði eignast skrímsli sem benti til þess að hún hefði lagst með djöflinum.

Í bókinni er Anna látinn biðja bróður sinn um að barna sig, og kona bróðurins verður vitni að þessu og segir frá. Þegar konungur lætur hálshöggva Önnu þá er hann því að fara eftir því sem honum hefur verið sagt. Í bókinni, og í samræmi við það sem sagnfræðingar telja, þá voru þetta upplognar ásakanir vegna þess að konungur vildi losna við Önnu. Hún gat ekki gefið honum son og hann vildi nýja konu.

Í lokin kemur fram að þótt konungur hafi ekki eignast son þá hafi hann eignast erfingja því rauðhærð dóttir Önnu, Elísabet, ríkti sem drottning yfir Englandi í 45 ár. Þetta er auðvitað bull því Henry eignaðist son, Edward, ásamt Jane Seymour sem hann giftist á eftir Önnu, og Edward þessi varð konungur á eftir föður sínum. Þegar hann dó þá tók við María drottning, dóttir Henry's og Kathrine drottningar, og Elísabet tók svo við eftir lát hennar, þriðja í röð frá föður sínum.

Ég skil ekki svona bull. Ég veit að ekki er allt í bókinni í samræmi við það sem sagnfræðingar trúa núna, en ef maður byggir mynd á bók, þá mætti fara eftir bókinni í fleiri atriðum en allra stærstu dráttum. Þessir tveir tímar í bíói voru ekki sérlega skemmtilegir.

Það gæti vel verið að myndin sé áhugaverð fyrir þá sem ekki hafa lesið bókina, en þið hin sem hafið lesið bókina, ekki eyða pening í bíómiða. Ekki þess virði. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Smá ábending - þú settir óvart inn vitlaust nafn á drottningunni sem tók við fyrst af pabba sínum, þeas Maríu, sem fékk hið fræga viðurnefni, Bloody Mary fyrir það hversu dugleg hún var við að láta pynta, brenna og hálshöggva þá sem ekki voru nógu kaþólskir fyrir hennar smekk.

Bestu kveðjur, Ægir

Ægir Sveinsson (IP-tala skráð) 18.4.2008 kl. 10:12

2 identicon

Ég er ekki búin að sjá myndina en ég er mikill aðdáandi bókarinnar. Mig hlakkaði einmitt svo til að sjá myndina... en hvað ég er svekkt. BBC gerði líka mynd eftir þessari sögu sem var gerð í heimildarmyndastíl - ömurlega glatað - en sú mynd fór nú mjög vel eftir söguþræðinum... enda bresk framleiðsla. Ég er líka búin að lesa bókina sem er um Elísabetu I og hvernig hún komst til valda (Queen's fool) eftir sama höfund. Brilliant bækur.. mæli með þeim.

Marý (IP-tala skráð) 18.4.2008 kl. 12:31

3 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

úps, Ægir rétt hjá þér. Það var að sjálfsögðu Queen Mary sem tók við eftir Edward. En veistu, ég var ekki búin að tengja hana við Bloody Mary, þótt ég hefði átt að gera það því ég sá alla vega tvær myndir um Elísabetu á sínum tíma og þar kom þetta fram. Kannski tengdi ég eki af því að í bókinni er María bara barn og minnti ekki á þá brjáluðu kaþólsku drottningu sem síðar kom.

Mary, þú getur farið á myndina til að horfa á fötin og fólki. Reyndu bara að búast við eins litlu og þú getur og þá verðurðu ekki fyrir eins miklum vonbrigðum.

Kristín M. Jóhannsdóttir, 18.4.2008 kl. 15:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband