Náði markmiðinu
21.4.2008 | 05:05
Nú er helgin næstum liðin og ég er að mestu leyti ánægð. Tvennt stendur uppúr, annars vegar sigur Family ties (innanhússfótboltaliðsins míns) í gær og hins vegar Sólarhlaupið í dag.
Við unnum leikinn 10-3 og ég skoraði eitt markanna. Eitt mark af tíu er reyndar ekki mjög merkilegt og þetta var eiginlega ekki mitt mark hvort eð var. Fil Sousa átti mest í því vegna þess að hann dró til sín markmanninn og tvo varnarmenn sem hreinlega gleymdu mér. Hann gleymdi mér hins vegar ekki, sendi boltann til mín og ég var ein og yfirgefin með markið sama sem óvarið. Þurfti bara að breyta stefnu boltans og hann lá í netinu. Við spiluðum þennan leik eins og lið og enginn einspilaði boltann eins og stundum vill verða. Þess vegna var leikurinn miklu opnari og skemmtilegri. Hitt liðið var reyndar ekki mjög sterkt. Stelpurnar voru góðar en af strákunum voru aðeins tveir þokkalegir. Eftir leikinn fórum við nokkur upp á barinn og fengum okkur pizzu. Það er alltaf skemmtilegt að slappa af í góðum félagsskap eftir leik. Það eina sem skyggði á gleðina var að í sjónvarpinu vann Boston Montreal og því verður að spila hreinan úrslitaleik um það hver fer áfram í næstu umferð.
Í morgun var svo Sólarhlaupið og þetta var stærsta Sólarhlaup til þessa - 59.179 manns. Það var reyndar engin sól og skítakuldi þar að auki (þriggja stiga hiti) svo ég hljóp í buxum og peysu. Við Lína hittumst niðrí bæ (eftir smá leit hvor að annarri) og hlupum fyrri hlutann fremur rólega. Það var mjög þægilegt. Við kjöftuðum megnið af leiðinni. En þegar ég leit á klukkuna eftir fimm kílómetra og sá að það hafði tekið okkur 33 mínútur að hlaupa helming leiðarinnar þá sá ég að ég varð að spretta úr spori. Svo við bættum í. Markmið mitt hafði nefnilega verið að hlaupa undir 60 mínútum. (Í fyrra hljóp ég á 60,20 sek.) Það tókst því samkvæmt skeiðklukkunni minni hljóp ég þetta á 59 mínútum og 51 sekúndu. Veit ekki enn hver opinberi tíminn er en fæ að vita það á morgun. Hey, hálfri mínútu betra en í fyrra og ég hef farið tvisvar sinnum út að hlaupa í allan vetur. Ég er bara þokkalega ánægð með það. Aðalatriðið var að ég setti mér markmið og náði því. Ekki merkilegt markmið en markmið samt sem áður.
Í kvöld slógu svo strákarnir í Dallas núverandi Stanleybikarmeistara, Anaheim, út úr keppninni. Mark var svo ánægður að hann sendi mér skilaboð frá Winnipeg sem sagði nokkurn veginn: YEEEEEEEESSSSSSSSSSSSS! Og svo komu nokkur vel valin orð um hvað Chris Pronger gæti gert við sjálfan sig en ég mun ekki hafa það eftir (Mark hatar Pronger meir en nokkurn annan í hokkí). Ég verð að biðja Sigga Ice sem kom hér inná síðuna mína fyrir nokkru afsökunar. Hann sagði að Dallas myndi vinna Anaheim (reyndar sagði hann í fjórum) og ég sagði að það væri ekki séns. Hann hafði rétt fyrir sér, ég rangt.
Það eina sem skyggði á helgina var helv. hún Rita á miðhæðinni. Já, hún er byrjuð aftur. Hún er að reyna að þvinga okkur Alison til þess að borga stærri hluta í rafmagns og vatnsreikningunum (eins og er er farið eftir stærð íbúða) og hún hefur fundið leiðina til þess. Ef við förum ekki eftir því sem hún vill þá mun hún segja við eigendurna að hún hafi ofnæmi fyrir köttum og Alison yrði því annað hvort að flytja eða losa sig við köttinn. Rita hefur reyndar ekki sagt beint út að hún muni gera þetta en hún hefur ýjað að því. Ég nenni ekki að segja ykkur frá þessu í smáatriðum núna. Klukkan er orðin tíu og ég mun aldrei sofna ef ég skrifa meir um kerlingarfíflið.
En sem sagt, fyrir utan smárifrildi þá hefur þetta verið góð og vel heppnuð helgi.
Athugasemdir
Mikið að gera hjá þér hafðu ljúfa viku mín kæra
Brynja skordal, 21.4.2008 kl. 12:19
Tvær óskir:
1. Vildi að ég hefði verið þarna að hlaupa með þér.
2. Vildi að ég væri í svona góðu formi núna.
Kv. Elva.
Ps. er alltaf á leiðinni að hringja í þig - hver er annars tímamismunurinn?
Elva (IP-tala skráð) 21.4.2008 kl. 22:08
Þú ert alveg óð í blogginu, stelpa! Engin er klárari en þú! Ekki spurning, Stína mín.
Þorsteinn Briem, 22.4.2008 kl. 00:19
Elva, það er sjö tíma mismunur.
Takk Steini (fyrir að vera sögð klár, ekki fyrir að vera óð)
Kristín M. Jóhannsdóttir, 22.4.2008 kl. 16:12
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.