Fræga fólkið á göngu
4.11.2006 | 17:11
Það er alltaf eitthvað við það að sjá frægt fólk úti á götu; þekkt andlit sem maður getur tengt við ákveðna bíómynd, sjónvarpsþátt eða lag. Ég held að fyrsta reynsla mín af einhverjum frægum hafi verið að hitta Ómar Ragnarsson þegar hann kom og skemmti á Andrésar andarleikunum á Akureyri þegar ég var níu eða tíu ára og ég hjálpaði honum með því að halda á töskunni hans út í bíl. Mörgum árum síðar vann ég með honum. Ég man líka eftir því hvað ég var hrifin þegar ég hitti Svavar Gestsson í fyrsta sinn. Þá var ég á svipuðum aldrei, sjálfsagt í kringum tíu ára, og mér fannst hann stórkostlegur. Kynntist honum líka vel síðar. Ég hafði alltaf haft gaman af að fylgjast með pólitík frá því ég var býsna ung. Reyndar var það Vilmundur Gylfason sem ég dáðist að framar öðrum og þó kaus ég aldrei Alþýðuflokkinn, Bandalag jafnaðarmanna eða nokkurn arftaka þessa flokka.
Annars sá ég aldrei mikið af frægu fólki á Íslandi, jafnvel þau tíu ár sem ég bjó í Reykjavík. Ég fór reyndar í leikfimi á sama stað og Björk þegar hún kom heim einhvern tímann í afslöppunarferð og hef síðan sagt að mín 'claim-to-faim' sé að hafa verið í sturtu með Björk. Ég talaði einhvern tímann við Einar Örn Benediktsson sem gaf mér sódavatn með sítrónu og einu sinni sá ég Jarvis Cocker, söngvara Pulp úti á götu. Svo sá ég auðvitað slatta af liði sem er bara frægt á Íslandi.
Hér í Vancouver sé ég af og til fræga fólkið enda er Vancouver mikil kvikmyndaborg og því koma hingað margar stjörnur. Hins vegar sé ég auðvitað fæstar þeirra enda þyrfti ég að hanga meira niðri í bæ og fara meira á fínu veitingahúsin og skemmtistaðina. Þannig að ef ég hef séð einhvern þekktan þá er það bara úti á götu - og næstum alltaf niðri í bæ.
Listinn er reyndar ekki langur en ég reyni að halda honum saman - bara svona til gamans.
1. Fyrstu vikuna sem ég bjó í Vancouver fór ég í Oakridge verslunarmiðstöðina og sá þar Gregory Calpakis sem var einn aðalleikarinn í Cold Squad. Cold Squad er sjónvarpsþáttur gerður í Vancouver þar sem lögreglumenn eiga við gömul mál. Ég horfði mikið á þennan þátt í kringum 2002 og 2003, sérstaklega vegna Steve McHattie sem mér finnst góður, en Calpakis var Nicco, aðalsjarmörinn í þáttunum.
2. Á Robson, aðalverslunargötu Vancouver sá ég George Hamilton. Sá er aðallega frægur fyrir að vera alltaf með ljóta gervibrunku. Annars er hann leikari og var meðal annars í einni Godfather myndinni og í yfir hundrað öðrum mynda. Hann kemur líka oft fram í sjónvarpsþáttum sem hann sjálfur. Og mér skilst að hann hafi verið í Dancing with the Stars - Dansað með stjörnunum.
3. Á Granville brúnni mætti ég David Eigenberg sem er fyrst og fremst þekktur fyrir að vera Steve Brady í Sex and the city (Beðmál í borginni).
4. Á Granville stræti nyrðra mætti ég Jeremy Piven sem nú er þekktastur fyrir hlutverk sitt í Entourage (veit ekki hvort er verið að sýna að það á Íslandi) en hann hefur líka verið í myndum eins og Old School, Serendipity, Rush Hour 2 og Singles. En margir muna líka eftir honum úr þáttunum með Ellen þar sem hann var einn af vinum hennar sem héngu í bókabúðinni.
5. Í Richmond hitti ég Chris Isaak, en það var ekki alveg að marka því ég fór á tónleika með honum og hann spjallaði við fólk eftir á. Hann sagði mér þar að það væru lagavandamál með það að gefa út sjónvarpsþættina hans á dvd en verið væri að vinna í því. Svo fékk ég eiginhandaráritun sem sagði "Be Good".
6. Á Burrard stræti mætti ég Gil Billows, sem var Billy í þáttunum um Ally McBeal.
Ég sá líka einhvern tímann eina af þessum ungu stjörnum (Ekki Hillary Duff en eina svipaða) hér úti á tíundu en ég man ekki lengur hvað hún heitir, né er ég hundrað prósent viss um að það hafi verið hún. svo hún telst ekki alveg með. En hvað þessa kalla snerti þá er ég alveg pottþétt.
Hmmm. Þetta er nú ekki svo mikið, svona miðað við hversu margar stjörnur koma hingað. Eftir netinu að dæma eru nú í borginni að kvikmynda: Sarah Michelle Gellar, Ice Cube, Renee Zellweger, Jesica Alba, Michael Chiklis, Pierce Brosnan, Rachel McAdams, Wesley Snipes og Mark Wahlberg, svona til að nefna bara þá allra þekktustu. Hef ekki séð neinn þeirra. Er ekki nógu mikið á réttu stöðunum. Annars skiptir það engu máli. Það er gaman þegar maður séð einhvern þekktan því þá er ég stolt af því að vita hver viðkomandi er, en að öðru leyti gerir það ekkert fyrir mig. Alla vega ekki þar til ég hitti einhvern sem ég er virkilega hrifin af.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.