Mugison rúllaði yfir Queens of the Stone Age
1.5.2008 | 16:09
Í gær fór ég í góðum hópi Íslendinga á Mugison tónleika hér á PNE Forum. Opinberlega voru þetta reyndar Queens of the Stone Age tónleikar og Mugison hitaði upp fyrir þá, en Mugison er bara miklu betri en QofSA og aðalástæðan fyrir því að ég fór þarna.
Mugison steig á svið sirka korter í átta og hóf tónleikana með krafti. Hann hreif með sér þá áhorfendur sem höfðu safnast saman fyrir framan sviðið og ég sá að margir þarna virtust ákaflega ánægðir með strákana frá Íslandi. Reyndar var aðeins um þriðjungur tónleikagesta inni í salnum á þessum tíma, afgangurinn var frammi í anddyri að drekka bjór en liðið vissi ekki af hverju það missti. Þarna mátti heyra lög eins og The Pathetic Anthem, Jesis is a good name to moan, Two thumb sucking son of a boy og fleiri af nýju plötunni, og alla vega Murr murr af þeirri síðustu. Strákarnir voru vel rokkaðir og takturinn þungur. Ég þekkti varla Murr murr, svo ólíkt var það acoustic útgáfunni. Ég verð reyndar að viðurkenna að mér finnst Mugison án bands betri en Mugison með bandi, en það er kannski vegna þess að maður heyrir snilli hans betur þegar hann er einn með gítarinn, eða fær kannski hjálp frá Pétri Ben. En ég er líka enn í miðri hlustun á Mugiboogie. Ég er nýbúin að fá plötuna og þótt mér finnist hún ennþá ekki eins góð og This is mugimama þá eru þarna nokkur mögnuð lög. Ég þarf að hlusta meira áður en ég geri upp hug minn.
Queens of the Stone Age voru ekki nálægt því eins góðir og á tímabili leiddist mér. Þeir hafa reyndar gert nokkur ágætis lög, svo sem Go with the Flow, The Lost Art of Keeping a Secret og að mínu mati besta lagið þeirra No one knows. Málið er bara að þeir eru bestir þegar þeir syngja svona mellow alternative tónlist. Upp á síðkastið hafa þeir verið að þyngja taktinn en það gleymdist bara að láta söngvarann vita af því. Hann heldur áfram að syngja með svona bljúgri melódískri rödd á meðan hljóðfærin eru hörð og þétt. Það passar hreinlega ekki saman og maður veit ekki hvernig á að taka þessari tónlist.
Eftir tónleikana safnaðist Íslendingagengið saman eftir að hafa dreifst út um allan sal - nema Reynar sem komst víst baksviðs. Við hin skildum systkini hans eftir þar sem þau biðu eftir því að hann kæmi til baka, og héldum sjálf vestureftir til UBC.
Athugasemdir
No One Knows er fáránlega flott lag, leitt að QOTSA voru samt ekki betri en gaman að heyra að Mugison hafi hitað upp af svona mikilli snilld. Bestu kveðjur til útlandsins.
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 1.5.2008 kl. 16:41
Þetta hefur greinilega verið gaman. En hvenær eru tónleikarnir með R.E.M. ?
Marinó Már Marinósson, 1.5.2008 kl. 20:32
Qotsa eru mun betri en þetta múgífífl punktur
Axel Óli (IP-tala skráð) 1.5.2008 kl. 21:36
Vó þetta var ákveðið steitment AÓ!!!
Jæja EN MÉR finnst Mugison nottla bara snillingur og nýja platan hans líka - ég er hrikalega sátt að þú hafir drifið þig ;) ... leið með hina félagana, hélt þeir væru nú fínir sko - oh well allri eiga sína slæmu daga/tímabil :)
Hrabba (IP-tala skráð) 2.5.2008 kl. 01:14
Er það ekki bara Íslendingurinn í þér að tala?
Var hann í alvöru betri?
Mugi með bandi er magnaður, Múgi með tölvu er magnaður, Mugi einn með gítar er magnaður.
Er e-ð skrifað um hann í blöðunum, hvernig er honum tekið þarna?
Þórður Helgi Þórðarson, 2.5.2008 kl. 12:15
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.