Maístjarnan og öll hin lögin
2.5.2008 | 07:27
Nú er bara einn og hálfur tími eftir af verkalýðsdeginum en það er allt í lagi því að ég er búin að syngja Maístjörnuna (undir báðum lögum og tangóútgáfuna tvisvar), Nallann og Fram allir verkamenn. Það er reyndar enginn verkalýðsdagur í Kanada í dag. Hér er hann haldinn hátíðlegur á haustin, fyrstu helgina í september.
Ég flutti einmitt til Kanada fyrsta september 1999 og fyrsta helgin mín í landinu var einmitt hin svokallaða verkalýðshelgi, eða labour day weekend. Þá fór ég í partý með öllum helstu rithöfundum Manitobafylkis en ég þekkti náttúrulega ekki til neins þeirra og var því kannski ekki með eins miklar stjörnur í augum og ég hefði kannski getað verið. Ég man að það var mígandi rigning og kuldi alla helgina en mér alveg sama því ég var nýkomin til spennandi lands, ég var á Víðirnesi (rétt sunnan við Gimli) og það var spennandi ævintýri framundan. Ég trúi því ekki að í haust verða liðin níu ár síðan.
En nú er ég farin út af sporinu því þetta blogg átti að fjalla um verkalýðsdaginn. Ég er hins vegar orðin allt of þreytt til þess að ég geti skrifað meira. Enda er ekki lengur eftir einn og hálfur tími af fyrsta maí. Ég lenti í símanum í dágóðan tíma og nú er allt í einu kominn annar maí og enginn verkalýðsdagur neins staðar.
Athugasemdir
Skemmtilegt samt, hvernig hugurinn reikar. Þú leggur af stað með það að markmiði að skrifa um eitthvað ákveðið, segir það í fyrstu setningu eða svo og svo bara flögrar hugurinn um í allar áttir, og fingurnir fylgja með.
:-)
Einar Indriðason, 2.5.2008 kl. 09:22
Nákvæmlega. Hversu oft gerist þetta ekki þegar maður til dæmis situr að spjalli við einhvern. Maður ætlar að segja sögu en svo kemur smá útúrdúr og áður en maðr veit af er spjallið komið eitthvert allt annað og maður klárar aldrei söguna.
Kristín M. Jóhannsdóttir, 2.5.2008 kl. 15:47
Já..það er gott að láta hugann reika.
Fram allir verkamenn, ég kem þessu lagi eða texta ekki fyrir mig. Manstu eftir hvern/hverja það er?
Þóra Sigurðardóttir, 2.5.2008 kl. 23:00
Nei, ég man ekki eftir hvern þetta er. En textinn er svona:
Fram allir verkamenn
og fjöldinn snauði
því fáninn rauði, því fáninn rauði
Fram allir verkamenn
og fjöldinn snauði
því fáninn rauði okkar merki er.
Því fáninn rauði okkar merki er
Því fáninn rauði okkar merki er
Því fáninn rauði okkar merki er
Lifi kommúnisminn og hinn rauði her.
Kristín M. Jóhannsdóttir, 2.5.2008 kl. 23:34
Takk fyrir þetta Kristín. Textinn kveikir á einhverjum perum en ég kem laginu ekki fyrir mig
Þóra Sigurðardóttir, 2.5.2008 kl. 23:50
þetta hefur verið langt símtal
Arnar (IP-tala skráð) 3.5.2008 kl. 11:26
Mikið rétt Arnar.
Kristín M. Jóhannsdóttir, 4.5.2008 kl. 04:50
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.