Mögnuð skíðaferð á Blackcomb
5.5.2008 | 07:07
Við Lína skelltum okkur til Blackcomb á skíði í dag. Fyrir þá sem ekki vita er Blackcomb hluti af Whistler skíðasvæðinu. Whistler skíðasvæðið samanstendur af tveim fjöllum, Whistler og Blackcomb, sem standa hlið við hlið og við rætur beggja liggur Whistler þorpið. Á þessum tíma árs þykir ekki lengur þess vert að halda báðum fjöllum opnum og vanalega er það Blackcomb sem lokar, en að þessu sinni er búið að loka Whistler því þar eru framkvæmdir fyrir Ólympíuleikana í fullum gangi. Verið er að byggja kláf á milli fjallanna tveggja.
Í dag var því skíðað á Blackcomb. Liðin er ein og hálf vika síðan ég fór síðast og mikið hefur bráðnað af snjó. Enda kannski ekki skrítið - hitinn í dag fór upp í 15 stig. Sól skein og það var hreinlega yndislegt að vera úti. Glacier Express t-lyftan var opin í dag, ólíkt því sem var síðast, svo ég dró Línu með mér á jökulinn. Þetta er ný leið sem opnaði bara í fyrra held ég. Þegar maður er kominn efst með T-lyftunni þarf maður að labba nokkra metra upp að stórum kletti og síðan eftir örmjóum stíg undir klettinum. Fyrir neðan er brött brekka. Þetta hefur aldrei verið neitt vandamál fyrir mig en í dag var ástandið öðruvísi. stígurinn var mjórri en vanalega og ekki eins djúpur. Mér fannst ég aldrei hafa almennilegt grip með skíðaklossunum, og á sumum stöðum var verulega hált. Ég sem hafði haft skíðin á öxlunum tók þau niður og notaði skíðin til að halda jafnvægi öðru megin og stafina hinum megin. Ég fór mér hægt yfir og passaði mig á að líta ekki niður. Á myndunum hér til hliðar má sjá þá sem á eftir mér komu, m.a. Línu í fjólubláum jakka og ég lofa ykkur því að þótt þetta virðist ekkert svakalegt á myndunum þá var þetta býsna bratt þarna.
Stuttu eftir að Lína kom yfir datt náungi framaf og hann rann niður í hálf brekkuna áður en hann náði að stoppa sig. Það var nú allt í lagi með hann. Það hefði verið verst ef hann hefði fengið skíðin í höfuðið eða eitthvað svoleiðis. Eins og sjá má á myndinni missti hann fyrst stafina og svo skíðin en hélt sjálfur áfram aðeins neðar. Hann varð síðan að rölta upp hluta brekkunnar og setja á sig skíðin en gat svo rennt sér bara niður þarna. Hann missti þá bara af útsýninu dásamlega.
Hér má sjá okkur Línu hrikalega flottar uppi á brúninni (ekki alveg uppi á brún reyndar, það er hægt að fara heldur hærra) áður en við skíðuðum niður. Færið var ekki slæmt en það voru nokkuð margir búnir að skíða þarna undanfarna daga og ekkert hafði snjóað þannig að við þurftum í gegnum hálfgerða ruðninga. En þetta var nú samt þokkalega skemmtilegt.
Þegar við komum niður í dalinn stoppuðum við til þess að njóta náttúrunnar. Þetta svæði er uppáhaldssvæðið mitt á öll Whistlersvæðinu. Ekki af því að það séu betra að skíða þarna heldur vegna umhverfisins.
Annars verð ég að viðurkenna að við enduðum á því að hanga þarna í jökuldalnum heldur lengur en kannski æskilegt var. Við vorum náttúrlega búnar að borga hellings pening til að skíða og svo endum við bara á því að finna okkur bekk og sitja í sólbaði. En vitiði það, það var bara allt í lagi. Við vorum úti hreinu fjallaloftinu og dásamlegri náttúrunni og skemmtum okkur konunglega þótt við værum ekki á skíðum allan tímann. En sem sagt á myndunum hér fyrir neðan má sjá hvað við vorum að gera.
Við komum okkur að lokum á lappir, renndum okkur niður þessa 4,8 kílómetra leið niður að nálægustu lyftu, fórum upp aftur og yfir að 7th heaven lyftunni og renndum okkur þar nokkrar ferðir, fengum okkur að borða, renndum okkur meira og fórum svo niður klukkan hálf fjögur þegar hærri lyfturnar lokuðu. Við hefðum eflaust getað farið eina ferð í viðbót í neðri brekkunum en snjórinn þar var blautur og við vorum í raun orðnar þreyttar. Vorsnjórinn er miklu þyngri og erfiðari en sjórinn yfir háveturinn.
Við vorum því hamingjusamar og heilsusamlegar þegar við komum niður í þorp og verðlaunuðum sjálfar okkur með pönnukökum.
Við vorum komnar í bæinn klukkan átta og þá tók við maraþonhokkíáhorf hjá mér. San Jose Dallas fóru í fjórar framlengingar sem enduðu með sigri Dallas. Dallas mun því spila við Detroit um sigur í vesturdeildinni og Pittsburgh spilar við Philadelphia. Það er því ljóst að hvorugt liðanna sem ég spáði í úrslitaleiknum verður þar og því ætla ég að endurskoða spá mína og segja Detroit-Pittsburgh. Annars er Dallas búið að plata mig nú í tvær seríur þannig að þeir gætu svo sem allt eins haldið því áfram og unnið Detroit - nah!
Athugasemdir
Va, thetta hefur verid guddomlegt! Ekki amalegt ad enda skidavertidina a svona flottum degi! Thad er ekki laust vid ad eg ofundi ykkur svolitid af thessu!!! Her er annars buinn ad vera 25°C hiti og sol undanfarid svo mer synist ad sumarid se ad koma ser af stad. Thad hefur ekki sest i alpana nu um stund vegna misturs, svo eg veit ekki hvort thad er einhver snjor eftir thar en eg laet mig dreyma um ad eftir nokkur ar verdi eg buin ad kveikja skidaahuga hja yngri kynslodinni og geti drifid mig i fjollin!
Rut (IP-tala skráð) 5.5.2008 kl. 07:41
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.