Hvernig er hægt að læra í góða veðrinu?
5.5.2008 | 18:05
Stóra spurning dagsins er þessi: Er sumarið komið? Hitinn á að fara upp í nítján gráður í dag með tilheyrandi sólskini. Samkvæmt vefsíðum er reyndar bara þrettán stiga hiti eins og er (klukkan er ellefu) en ég skaust út á tröppur að kanna málið og það var orðið býsna heitt. Ég stóð reyndar ekki lengi þar því ég er enn á náttfötunum (jájá, stundum fer ég ekki úr þeim fyrr en klukkan fimm á daginn - ef ég ef ekkert út að gera) og það eru enn vinnumenn í nýja húsinu við hliðina.
Ég er að reyna að koma með plan fyrir daginn. Ég er að hugsa um að setja bæði tölvu og klifurbúnað í bakpokann og fara svo bara út og spila þetta eftir hendinni. Ég hugsa að ég labbi niður í Kits, setjist á eitthvert kaffihús, vinni um stund, haldi svo áfram austureftir og klifri í klukkutíma eða svo. Svo þyrfti ég reyndar að koma við í Costsco því ég er búin með asíska salatið mitt svo ég þarf nýjar birgðir. Ég ét þetta eins og sælgæti. Það er náttúrlega fínt. Hvort er betra fyrir líkamann, súkkulaði eða niðurskorið grænmeti?
Í morgun las ég fréttir um það að alls kyns hópar séu þegar farnir að útbúa ítarleg plön um mótmæli gegn Vancouver Ólympíuleikunum. Sumir hafa reyndar hafið starfsemi nú þegar með því að henda málningu á Ólympíuklukkuna og fleira, en miklu stærri mótmæli eru plönuð. Þarna er um að ræða hópa anarkista, herskárra indjána (first nations warriors), samtök gegn fátækt, stúdenta, ofl. hópa. Mér finnst allt í lagi að fólk mótmæli og þetta er auðvitað ágætur vettvangur en ég vona að ekki verði gripið til mjög alvarlegra eða hættulegra aðgerða. Þetta verður vonandi innan skynsemdamarka.
Athugasemdir
Vertu bara í stuttbuxum og gerðu ráð fyrir rigningu. Annar kemur veðrið okkur alltaf á óvart öðruvísi væri ekkert gaman.
Marinó Már Marinósson, 5.5.2008 kl. 22:29
KNÚS Á ÞIG INN Í NÓTT OG NÆSTA DAG, MEGI HANN VERÐA FULLUR AF TÆKIFÆRUM
Elín Katrín Rúnarsdóttir. , 6.5.2008 kl. 01:56
Stína mín, ertu ekki til í að senda mér netfangið þitt? Á við þig soldið erindi, ekkert háalvarlegt samt. Yrði þakklátur. Kveðja, helgimar@akureyri.net
Helgi Már Barðason, 6.5.2008 kl. 09:14
innlitskvitt hafðu ljúfa viku
Brynja skordal, 6.5.2008 kl. 11:54
Ætli þetta séu ekki kynblendingar indíána og herskárra Svarfdælinga af ætt Jóhanns risa frá Ytra-Hvarfi, sem sturtuðu mykju vegna lokunar Húsabakkaskóla.
Þessir Ólympíuleikar verða ekki haldnir.
Hér í Vesturbænum er náttfatapartí á daginn en dagfatapartí á nóttunum.
Og allir í röndóttum náttfötum, bæði inni og úti.
Með hitakveðju,
Þorsteinn Briem, 6.5.2008 kl. 13:54
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.