Debitkortið mitt hefur ógurleg völd

Ég  skil ekki bankakerfið. Ég held að kannski fái bankastjórar svona há laun fyrir að sitja og flækja málin svo fólk eins og ég skilji ekki hvað er í gangi. Minnst af öllu skil ég hvernig debitkortið mitt virkar. Þetta ætti ekki að vera flókið. Ég set ákveðna upphæð inn á reikninginn minn og síðan get ég tekið þá upphæð en ekki meir útaf reikningnum mínum. Virkar einfalt, ekki satt?

En þannig virkar þetta alls ekki, alla vega ekki ef maður ætlar að nota hraðbanka.

Undanfarna mánuði hef ég fengið launin mín greidd inn á íslenskan reikning en þar sem ég þarf að borga húsaleigu og aðra reikninga hér í Kanada, og af því að millifærsla kostar andskotanum meira, þá hef ég notað þá aðferð að taka út peninga í hraðbankanum hérna og leggja þá samstundis inn á kanadískan reikning. Nema hvað debitkortið mitt virðist hafa sjálfstæðan vilja og leyfir mér aldrei að taka út þá upphæð sem ég vil, næstum því sama hversu mikið eða lítið ég vil taka út. Það er t.d. útilokað að taka út 1000 dollara. Líklega hefur bankinn minn einhver takmörk um að það megi ekki. Þetta þýðir að ég verð annað hvort að fara í bankann tvo daga í röð eða þá að ég get tekið út helminginn af vísakortinu og hinn helminginn af debitkortinu. Það er vanalega það sem ég geri. Gallinn er að debitkortið leyfir mér stundum að taka út 600 dollara, stundum fimm hundruð, stundum fjögur hundruð og nú um daginn bara tvöhundruð. Ég hélt að kannski væri svona lítið á reikningunum mínum að ég ætti einfaldlega ekki fyrir þessu, en nei...það var nógur peningur inni.

Einu sinni fór ég og talaði við konuna í bankanum hér hjá mér og spurði hvort það væru einhver takmörk á því hversu mikið mætti taka út úr hraðbankanum hjá þeim, en hún sagði nei nei, enda get ég alltaf tekið þessar upphæðir út af vísakortinu þannig að það er ekki eins og hraðbankinn hafi orðið uppiskroppa með peninga. Og þar að auki kemur letur á skjáinn þar sem stendur að beiðninni hafi verið hafnað af mínum eigin viðskiptabanka.

Já, ég segi nú bara fuss og svei. Bölvað debitkortið mitt er að neyða mig til þess að nota vísakortið meira sem er algjört happadrætti þessa dagana þar sem gengið er eins og rússíbani.

Í öðrum fréttum er helst frá því að segja að við spiluðum fantavel í fótboltaleiknum í gærkvöldi og unnum 12-4. Við sitjum nú á toppi þriðju deildar en liðið sem var á toppnum á leik til góða. Sjálfri þótti mér það býsna erfitt að hlaupa 10 kílómetra um morguninn og spila svo fótbolta um kvöldið - en ég lifði það af. Núna er ég reyndar með svo mikla strengi að ég átti erfitt með að labba stigann í morgun til þess að ná í blaðið út á tröppur. En þetta lagast! Einhvern tímann! 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Ég veit að það eru takmörk. Málið er að það flakkar upp og niður hversu mikið ég get tekið út. Stundum get ég tekið út 500 dollara, stundum bara 300. Heimildin ætti ekki að flakka upp og niður.

Kristín M. Jóhannsdóttir, 11.5.2008 kl. 19:33

2 identicon

nei heimildin ætti ekki að gera það en þetta er rétt sem Jón segir það er 20 eða 25 þús á sólarhring sem má taka út á ísl kort í hraðbanka ... svo verður maður bara að passa sig á að hann sé liðinn ég hef OFT flaskað mig á því og orðið alveg arfavitlaus yfir því að geta ekki tekið út hehe :p

En ég skil þig vel, þarf nú eiginlega að fá botn í þetta mál!! Svo með að millifæra - úff það er einfaldlega of dýrt eða já jú ég mundi segja það ... en ég veit ekki hvort þú veist af því, þú átt að geta fengið inn í heimabankann þinn íslenska aðgerð sem gerir þér kleift að millifæra sjálf af ísl reikn. yfir á erlendan ... en það kostar sem sko!!

Hrabba (IP-tala skráð) 12.5.2008 kl. 23:29

3 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Einhver sagði mér að það væri ódýrast fyrir mig að taka út af reikningnum með debitkortinu og leggja svo inn á bókina hér sjálf.

Kristín M. Jóhannsdóttir, 13.5.2008 kl. 00:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband