Góðar fréttir
14.5.2008 | 06:40
Ég fékk góðar fréttir fyrr í kvöld. Þið munið vesenið með Ritu á miðhæðinni - hún vill að við Alison í kjallaranum borgum hærra hlutfall af rafmagns- og gasreikningunum. Við viljum meina að þegar við gerðum leigusamninginn hafi okkur verið sagt okkar hlutfall og það eigi að standa. Hún vildi ekki samþykkja það og hefur valdið okkur leiðindum. Meðal annars með því að halda hitanum í húsinu niðri, kvarta undan öllum fjandanum o.s.frv. Í dag hringdi Alison í húseigandann og hann hafði samband við lögfræðinginn sinn og kom með þær niðurstöður í kvöld að það sem okkur var sagt við undirskrift samningsins ætti að standa. Ef Rita er ekki ánægð með það er eina leiðin sem hún getur gripið til sú að fara með málið í dómstóla. Vonandi er hún ekki svo klikkuð að hún geri það, en maður veit svo sem aldrei.
Aðrar góðar fréttir eru þær að við stelpurnar spiluðum fótbolta í mígandi rigningu á gervigrasi í kvöld og unnum leikinn 5-0. Benita skoraði þrjú mörk og ég tvö. Liðið spilaði almennt frábærlega og ég var sérlega ánægð með miðjuna sem vanalega hefur verið okkar veiki punktur. Í kvöld voru þær ótrúlegar. Og vörnin stóð sig með afbrigðum vel líka því ég held að hitt liðið hafi ekki átt nema eitt skota að marki. Í síðustu viku spiluðum við gegn besta liðinu í riðlinum og töpuðum 0-2. Við spiluðum býsna vel þar líka en fengum á okkur vítaspyrnu seint í leiknum (hendi, það var alveg réttilega dæmt) og það breytti öllu. Markið sem stelpan skoraði var ótrúlega flott. Það var alveg uppi í þverslánni. Ekki séns fyrir markmanninn að verja.
Ég hef góða tilfinningu fyrir sumarboltanum. Við eigum eftir að standa okkur ágætlega. Á laugardaginn er svo annar leikur í innanhússboltanum. Þar sitjum við á toppnum eins og er og höfum hugsað okkur að vera þar áfram.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.