Kvenmaður handtekinn í bakgarðinum

Það var heilmikið stuð hér í bakgarðinum í nótt. Ég vaknaði upp um hálffjögur í morgun við öskur í kvenmanni nokkrum. Hún var greinilega að rífast við kærastann sinn. Þegar hún linnti ekki látunum fór ég á stúfana, einangraði hvaðan hljóðið kom (frá húsinu á ská á bakvið) og greindi stöðuna. Svo virtist sem þessi kona hefði komið að heimsækja kærastann sinn sem býr í kjallara hússins, en þau hljóta að hafa verið að rífast eða eitthvað því hann neitaði greinilega að hleypa henni inn. Hún stóð því fyrir framan einn gluggann, lamdi húsið allt að utan og öskraði á hann. Ýmist var þetta garg um það að hún væri kærastan hans og hann ætti að hleypa henni inn, eða þá að henni væri svo kalt að hún myndi deyja þarna úti. Mér þótti það nú heldur ólíklegt þar sem það var ennþá ótrúlega heitt úti, en þessi dama var greinilega gefin fyrir drama. Hún ýmist kveinaði og bað eða bölvaði og hótaði manninum öllu illu. Ekki hefði ég viljað hleypa henni inn ef ég hefði verið þessi karl.

Ég reyndi nokkrum sinnum að sofna en það var erfitt með svona garg fyrir utan. Það hefði verið hægt að loka gluggum til þess ég heyrði ekki eins vel í henni en þá hefði orðið ólíft í íbúðinni og ég hefði ekki getað sofið vegna hita.

En allt í einu heyrði ég samræður og kvensan hætti að garga. Ég settist fram í stofu til að kanna málið. Já já, ekkert að dæma mig, ég vildi vita hvort þetta væri lögreglan. Og svo reyndist vera. Ég heyrði lögreglukonu reyna að ræða við kvensniftina sem allt í einu öskraði: Ég trúi ekki að þú hafir sigað lögreglunni á mig, Aaron. Og svo byrjaði hún að öskra aftur á sama styrk og fyrr. Og eins og hendi væri veifað stökk lögreglan á konuna og þær skullu í grasið. Eftir það sá ég ekkert en heyrði gargið. Kvensa skipti á milli þess að garga á kærastann og kvarta við lögregluna undan harðhentum aðgerðum. Svo fór hún að gráta undan handjárnunum sem hún sagði að meiddu sig.  Ég sá svo ljósið færast til og gat mér til um að nú væri verið að drösla konunni í lögreglubílinn, enda varð allt hljótt eftir þetta.

Og ég gat loksins farið að sofa aftur.  

P.S. Annað er helst í fréttum að Kanada er yfir gegn Rússlandi í heimsmeistarakeppninni í hokkí eftir fyrsta leikhluta. Staðan er 3-1. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Bara líf í tuskunum hjá þér kona!  Liff í því.

Jenný Anna Baldursdóttir, 18.5.2008 kl. 18:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband