Viktoríudagur klikkaði ekki
20.5.2008 | 07:51
Vá, þvílík þruma núna rétt áðan. Ég snarhrökk við og samt er ég býsna vön þrumuveðri frá því ég bjó í Manitoba. Þar voru þrumur og eldingar daglegt brauð yfir sumartímann. Hér í Vancouver rignir mikið en sjaldan fáum við þrumuveður.
Ég var tiltölulega nýkomin heim. Hafði hlaupið heim úr strætó því úti var eins og hellt væri úr fötu. Hélt ég hefði regnhlíf með mér en það var ekki svo. Alla vega, ég settist við tölvuna og las blogg og hlustaði á regnið dynja á húsþakinu. Allt í einu sá ég mikinn blossa fyrir utan og vissi að þetta hefði verið elding. Þruma var því á næsta leyti. En ég var alls ekki búin undir hávaðann sem fylgdi. Það var eins og húsið skylfi, og samt gat þruman ekki hafa verið svo nálægt því nokkur tími leið á milli eldingarinnar og þrumunnar. Og það var bara þessi eina. Svo var það búið. Það rignir reyndar ennþá og á að halda áfram næstu daga. En það er allt í lagi. Undanfarnir dagar hafa verið svo dásamlegir.
Í dag var annars Viktoríudagur sem er frídagur í Kanada og þetta var því löng helgi. Dagurinn í dag var enn einn dásamlegi dagurinn. Ég tók það mjög rólega, lærði næstum því ekkert og hafði ekkert samviskubit yfir því. Ég á rétt á frídögum eins og aðrir.
Ég talaði lengi við Rut á Skype. Skype er ein dásamlegasta uppfinning síðari tíma. Maður getur verið í stöðugu sambandi við vini og ættingja erlendis án þess að þurfa að borga neitt. Við Rut höfum hist aðeins einu sinni á síðustu níu árum en ég veit miklu meira um hvað er að gerast í hennar lífi en flestra vina minna. Og hún veit miklu meira um mig. Þegar ég var búin að tala við Rut talaði ég við mömmu. Líka á Skype. Við tölum miklu oftar saman í síma núna en þegar maður þurfti að borga fyrir langlínusamtal. Og svo ég tali nú ekki um hversu mikið oftar ég heyri í pabba. Honum var aldrei vel við síma og það var erfitt að halda honum á tali. Enda síminn dýr. En núna...allt annað líf.
Eftir spjallið við Rut og mömmu horfði ég á tveggja tíma lokaþátt af Desperate Housewives. Þátturinn var á dagskrá í gærkvöldi en af því að ég fór í bíó með Mark þá hafði ég stillt myndbandið á upptöku. Þátturinn var magnaður. Passið ykkur að missa ekki af honum. Við fáum loks að vita um söguna á bakvið Dylan og af hverju hún man ekki eftir því að hafa búið á Wisteria Lane. Og Lynette lendir í fangelsi...ta da.
Seinni partinn kom Akimi við hjá mér. Við sátum heima í nokkurn tíma en svo langaði okkur báðar svo í eitthvað sætt að við fórum á veitingastað í nágrenninu og fengum okkur kökur. Jamm jamm. Þær voru æðislegar. Við þurftum líka að ræða svo margt að okkur veitti ekkert af fitu og sykri.
Um kvöldið fór ég svo í mat til Línu og Alex. Þau eru pizzusnillingar og kvöldið var yndislegt. Ég hafði ekki komið áður í nýju íbúðina þeirra svo ég hafði ekki séð flotta útsýnið. Það var býsna magna.
Já, þetta var alveg hinn fínasti dagur.
Athugasemdir
Ég varð svolítið svangur á að lesa þessa færslu, en dagurinn hljómar ótrúlega vel hjá þér!
Bestu kveðjur frá Fróni,
og ég hef ekki enn náð mér í Skype ... hvað er að mér?
- D.
Doddi - Þorsteinn G. Jónsson (IP-tala skráð) 20.5.2008 kl. 08:34
Frábær dagur greinilega hjá þér!! Hlakkar ekkert smá til þegar Despó byrjar aftur hjá RÚV!!! Krakkarnir mínir tala við pabba sinn á afa og ömmu í Skype, þetta er magnað!!
alva (IP-tala skráð) 20.5.2008 kl. 10:52
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.