Góður gestur frá Ottawa

Ég stenst ekki mátið að blogga svolítið þótt klukkan sé að nálgast þrjú og ég þurfi að vakna snemma í fyrramálið til þess að fara á ráðstefnu.

Auður vinkona mín frá Ottawa (reyndar frá Íslandi - býr í Ottawa) hefur verið hér vestra í tæpa viku. Hún var á ráðstefnu sem lauk í gær svo við ákváðum að gera eitthvað skemmtilegt í dag. Við hittumst á kampus um hálf ellefu eftir að ég var búin í krabbameinsskoðun og almennri læknisskoðun, og fórum niður í bæ. Kíktum aðeins í nýju H&M búðina (Auður í annað skipti á nokkrum dögum - fín búð) og löbbuðum Robson sem er ein aðal verslunargatan hér í borg.

Um eitt leytið hittum við Marion og við þrjár skelltum okkur í klifur. Auður hafði ekki klifrað í sjö ár en stóð sig vel. Við Marion vorum líka ákaflega ánægðar með að komast aftur í klifrið en það hefur verið lítið um það undanfarið.  

Við fórum beint heim til mín þaðan, skiptum um föt og fínpússuðum okkur aðeins og Rosemary kom svo og sótti okkur og við keyrðum saman yfir í Íslandshús í New Westminster þar sem haldin var móttaka fyrir Markús Örn Antonsson. Móttakan var á milli 5 og 7 en við vorum nokkur sem sátum þarna á spjalli til tæplega níu. Við skemmtum okkur vel og hlógum að Norm sem var orðinn pínulítið drukkinn og svolítið kvensamur. 

Við fengum aftur far með Rosemary niður í Vancouver en hoppuðum út á Granville -  ég, Auður og Mark sem hafði slegist í hópinn. Við byrjuðum á því að fara á Doolin's pub en þar var svo mikill hávaði að við færðum okkur yfir á Malone's sem er meira veitingastaður en pöbb og þar var meira næði til að spjalla. Þar var líka meira tilboð á góðgæti og við fengum okkur nokkra smárétti og síðan súkkulaðiköku í eftirrétt.

Einhvern veginn leið tíminn án þess að við tækjum eftir og klukkan var orðin rúmlega eitt þegar við héldum heim á leið. Gallinn var að bölvuð lestin var hætt að ganga sem var ekki gott fyrir Mark. Með lestinni væri hann sennilega um 15 mínútur heim en með strætó myndi það taka langan tíma auk þess sem hann þyrfti að skipta um vagn og síðan labba spotta. Þannig að hann tók leigubíl í staðinn. Við Auður löbbuðum hins vegar yfir að strætóstöðinni. Það er alltaf gott að búa nálægt UBC. Alltaf nóg af vögnum að keyra heim drukkna háskólanemendur.

Þetta alveg yndislegur dagur og Auður fullyrti að hún hefði skemmt sér vel. Nú er bara að bíða eftir myndunum sem Auður tók yfir daginn. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Stína, Árni Heiðar er orðin stúdent.

Arnar (IP-tala skráð) 31.5.2008 kl. 14:11

2 identicon

Takk takk fyrir ofsa skemmtilegan dag! Ég sendi þér myndir við tækifæri en fyrst ætla ég að sofa svolítið...

Auður (IP-tala skráð) 1.6.2008 kl. 06:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband