Góð byrjun
4.6.2008 | 02:45
Jæja, ég lofaði að segja ykkur aðeins frá fyrstu tveim dögunum í vinnunni.
Dagurinn í gær var býsna þéttur. Við vorum 28 sem hófum vinnu annan júní, stærsti hópur frá því í janúar og við vorum látin fylla út alls kyns skjöl áður en við vorum send í þriggja klukkutíma fyrirlestur um fyrirtækið. Í hádeginu borðuðum við með nánustu samstarfsmönnum og svo vorum við send á tölvufyrirlestur þar sem okkur voru kynntar helstu siðareglur fyrirtækisins (t.d. má ekki blogga of náið um það sem fram fer í vinnunni - og aldrei má segja fréttir af atburðum sem ekki er búið að tilkynna opinberlega), okkur kennt á intranetið (innra kerfi fyrirtækisins), og svo vorum við send til baka, hvert með sína fartölvuna. Þeir nota mest fartölvur enda geta starfsmenn þá tekið vinnuna heim ef svo ber undir, o.s.frv. Klukkan þrjú var ég loksins búin að hlusta á alla fyrirlestra dagsins og þá fór ég að skrifborðinu mínu og vann við það að koma tölvunni í gagnið. Helv. pési. Þá á eftir að taka mig nokkurn tíma að venjast henni. Í allan dag ýtti ég t.d. á 'home' takkann í stað 'backspace' og var sífellt send fremst í línuna. Arg.
Í dag sat ég fyrirlestra frá níu til eitt með smá göngutúr um fyrirtækið svona um ellefu leytið. Klukkan eitt var ég laus þaðan og hélt þá áfram við að koma öllu í gagnið. T.d. þurfti ég að setja upp símann og einnig opinberu undirskriftina sem birtist neðst í öllum bréfum sem koma frá mér. Þetta þarf allt að fylgja ákveðnum standard. Ég fékk líka að sjá dagskrá næstu viku sem er alveg geðveik. Þá verður mér algjörlega hent út í sundlaugina - spurningin er hvort ég fæ að vera með kút.
Samstarfsfólk mitt er alveg magnað. Ég vinn mest með Kiara og Boris. Við þrjú myndum ákveðna heild undir yfirstjórn Maureen sem vinnur að mestu frá Salt Lake City. Við fjögur erum síðan hluti af deild sem kallast International Client Service og sameiginlega munum við sjá um þjónustu við hina erlendu íþróttamenn, blaðamenn og þjóðhöfðingja. Mér skilst að við séum fimmtán sem vinnum saman þar.
Við þrjú, ég, Kiara og Boris höfum mikil samskipti við Liza og Rina og þær eru báðar frábærar. Allt er þetta fólk á milli 30 og 40 og því góður hópur fyrir mig. Liza og Kiara eru að auki báðar einhleypar þannig að það er aldrei að vita nema það verði nokkur stelpnakvöld haldin. Við fimm ætlum annars saman á kaffihús í hádeginu á morgun í tilefni af fyrstu vikunni minni. Kiara sendi út opinbert boð í gegnum tölvupóstinn og um leið og maður samþykkir boðið færist tíminn inn í dagatalið mitt. Frábært kerfi. Þannig er allt gert þarna. Ég var í allan dag að fá alls kyns tilkynningar um fundi sem ég þarf að sitja og um leið og ég samþykkti þá hurfu bréfin úr tölvupóstinum og lentu í staðinn í dagatalinu. Þar er síðan bjalla sem mun láta mig vita með 15 mínútna fyrirvara. Í fyrramálið mun ég t.d. eiga fund með konunni sem sér um eftirlaun og hún mun setja upp allt kerfið sem ég þarf þar.
Allt er eitthvað svo skipulagt. Í gær, t.d. þegar ég kom úr tölvukennslunni að borðinu mínu var kominn sími á borðið, pennar og heftari við hliðina, nafnið mitt á básinn og búið að setja upp heimasíðu fyrir mig þar sem búið var að setja mynd af mér. Sniðugt maður.
Starfsmenn dreifast á tvö hús. Húsið sem ég er í er á sjö hæðum og er að mestu úr gleri. Því er bjart og notalegt og þótt næstum allir séu með bása en ekki skrifstofur þá er þetta ekki svona eitt völundarhús af básum. Lægra húsið, sem er á tveim hæðum, er meira þannig. Og þar er miklu dimmra. Ég er ánægð með að vera í háhýsinu. En þarna er næstum ekkert næði og maður getur ekki lagað á sér brækurnar án þess að einhver sjái. Ég held að John Furlong, forstjóri, og hans fimm undirmenn séu þeir einu sem hafa skrifstofur. Hvorki yfirmaður minn né yfirmaður hennar fá slíkan munað.
Ég setti reyndar eina konu í vanda í dag - strax á öðrum degi. Ég spurði hvort þeir hefðu ekkert gert til þess að kanna hvort nöfnin sem lukkudýrunum voru gefin hefðu slæma merkingu í öðrum málum. Benti á að sætasta skepnan heitir Miga. Mig langaði að kaupa svoleiðis handa bræðrabörnum mínum en ég er ekki viss um að þau myndu vilja eiga loðdýr með nafn sem tengdist hlandi. Hún reyndi að stynja einhverju upp um það að þetta væri aðallega fyrir n-amerískan markað sem er auðvitað bull. Samstarfsmenn mínir hlógu svo mikið þegar ég sagði þeim frá þessu að það sem eftir var dags kölluðu þau mig vandræðagemling og sögðu að ég væri komin á svartan lista hjá hönnunardeildinni. Síðan var ákveðið að í hvert sinn sem við færum á klóið þá ættum við að segja: I'm going to miga. Húmorinn í alþjóðadeildinni!!!!
En sem sagt, virkilega góð byrjun í nýju vinnunni.
Athugasemdir
Gaman að þessu, svona geta orð verið mismunandi milli tungumála. (Hver man ekki eftir því hvað öskubílarnir hérna á Íslandi hétu á sínum tíma?)
En, ég glotti mikið að öðru hjá þér.... þegar þú ýttir á "Home" takkann, og varst send HEIM fremst í línuna. Ég var farinn að sjá fyrir mér íshokkíið, og að þú hefðir verið send heim. Og... þvílíkt ofbeldi hjá þér... bara send sí og æ heim! Þarna brosti ég vel við lesturinn :-)
Gangi vel í þessu starfi, og reyndu nú að vera ekki of mikill vandræðagemlingur... :-)
Einar Indriðason, 4.6.2008 kl. 08:33
hehe djö líst mér vel á þig ;) ... en hvað segiru vita þau nokkuð að þú sért með blogg?? Og svo bloggaru á Íslensku er einhver annar þarna sem talar okkar ástkæra ylhýra?? ... iss getur alveg bloggað um allt sem gerist þarna innandyra og vertu ekkert að segja þeim frá því að þú bloggið ;) .... inside information plz ... wiii guys við erum komin með inside konu á Ól hahah :p
ehm já og svo eitt annað, ég veit nú ekki með allt þetta "tölvulega" skipulag, hvað gerist ef tölvan klikkar - er þá eitthvað skipulag?? Stundum þarf maður að muna líka og jafnvel að skrifa niður í fílófax - annars er hætt við að allt fari í skrall!!
Hrabba (IP-tala skráð) 4.6.2008 kl. 12:09
Var eimitt staddur á þingi Alþjóða íshokkísambandsins um daginn þar sem hokkí-partur leikanna var kynntur. Mjög gaman að sjá allan þann undirbúning sem er í gangi og einnig fengum við að heyra af öllum þeim sem sótt hafa um að vinna við leikana. Ef ég man rétt þá voru það 40.000 manns. Ég vorkenni þeim í starfsmannahaldinu að hafa farið yfir þetta allt Hokkíið á eftir að verða frábært þarna.
Hallmundur Hallgrimsson (IP-tala skráð) 4.6.2008 kl. 14:34
Þetta virðist skemmtileg vinna sem þú ert byrjuð í, og ég efast ekki um að þér á eftir að ganga vel
Sigrún Jónsdóttir, 4.6.2008 kl. 14:54
Þetta er ekkert smá spennandi allt hjá þér Stína!
Heldur fyndið með lukkudýrið sem var kannski ekki svo lukkulegur með nafnið!!
Þú átt eftir að gera stóra hluti Stína mín!!
Rakel (IP-tala skráð) 4.6.2008 kl. 15:24
Ja, eg byst vid frabaerum tima herna. Hallmundur, draumurinn er ad fa ad vera i hollinn thegar Kanada vinnur Russa i sigurleik um gullid. Annars verd eg anaegd ad fa ad sja bara einhvern leik, serstaklega ef eg get sed Kanada, Russland, Svithod eda Finnland. Fyrstu tvo af thvi ad eg held thad verdi bestu lidin og hin tvo venga thess ad thau mun lika hafa frabaer lid og eru fraendur okkar ad auki.
Kristín M. Jóhannsdóttir, 4.6.2008 kl. 17:13
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.