Þjóðhátíð, Vanoc og Shyamalan

Við tókum forskot á þjóðhátíðarsæluna í dag hér í Vancouver. Boðið var upp á grillaðar pylsur og hamborgara í Íslandshúsi. Snillingarnir Jana, Óðinn, Maggý og Ottó sáu um veitingar og stóðu sig stórkostlega að venju. Alveg hreint magnað fólk. Ótrúlega fáir mættu en við skemmtum okkur vel og sungum íslensk lög eins og englar.

Á morgun þarf ég aftur upp í Íslandshús því ég lofaði að hjálpa til við niðurrif á pallinum á bakvið húsið. Hann skemmdist í haust þegar kveikt var í húsinu.

Vikan var annars mjög skemmtileg en býsna erfið. Ég var á stanslausum fundum og var því búin að vera þegar ég kom heim á kvöldin. En þessir fundir hafa verið ótrúlega gagnlegir því ég hef lært svo margt á einni viku. Miklu meira en ég lærði á lestri skjala í síðustu viku. Á föstudaginn sat ég námskeið þar sem við vorum þjálfuð í viðtalstækni. Það er vegna þess að í júní hefjast viðtöl við sjálfboðaliðana sem munu hjálpa til við leikana. Námskeiðinu lauk um eitt leytið og við tókum þá leigubát yfir í Kitsilano (námskeiðið var í BC Place) þar sem boðið var upp á dýrindismat. Góður endir á vinnuvikunni.

Nú er ég búin að vinna fyrir Vanoc og niðurstaðan er þessi: Vinnan er æðisleg, fólkið er magnað en það er alveg ógurlega erfitt að þurfa að vakna klukkan sex á morgnana. 

Í gærkvöldi fór ég svo út að borða með Marion og Mark. Marion gat reyndar ekki stoppað lengi því hún þurfti að sækja Ryan, manninn sinn, á ferjuna en hann var að koma frá Victoriu. Á eftir fórum við Mark að sjá nýju myndina eftir M. Night Shyamalan, The Happening. Shyamalan gerði hina frábæru mynd The sixth sense en hann hefur aldrei aftur komist nálægt þeirri snilld sem hann sýndi þar. Unbreakable var reyndar mjög flott en myndirnar tvær sem þar fylgdu á eftir, Signs og The Village voru skref niðurávið. Mér fannst reyndar hvorug þeirra leiðinleg en þær voru báðar að mörgu leyti gallaðar. Á eftir kom myndin The Lady in the Water sem floppaði alveg og ég fór ekki einu sinni að sjá hana. Reyndar vissi ég ekki einu sinni að við vorum að fara á Shyamalan mynd í gærkvöldi. Hafði ekki fylgst með. En Mark langaði að sjá myndina og mig langaði í bíó svo ég spurði ekki einu sinni hvað við værum að fara að sjá. Dómurinn: Hún fær ekki nema rúmlega 20% á Rotten Tomatoes og í blaðinu hjá mér í gær fékk hún C, en við Mark skemmtum okkur þræl vel. Við sátum oft stíf í sætunum og það gerðist aftur og aftur að við stukkum upp úr sætunum þegar okkur brá. Inn á milli voru brandarar svo salurinn ýmist öskraði af hlátri eða hræðslu. Sagan sjálf er alls ekki góð og mér fannst leikurinn ekki nógu góður, en mér fannst peningnum alveg ágætlega varið. Maður má bara ekki búast við annarri Sixth sense.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Róslín A. Valdemarsdóttir

Hversvegna var kveikt í húsinu???

Róslín A. Valdemarsdóttir, 15.6.2008 kl. 13:47

2 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Brennuvargur. Hann fannst aldrei.

Kristín M. Jóhannsdóttir, 15.6.2008 kl. 15:30

3 Smámynd: Róslín A. Valdemarsdóttir

svo það er innflytjendahatur í Kanada!

Róslín A. Valdemarsdóttir, 15.6.2008 kl. 17:51

4 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Haha, já einmitt. Hér er mikið talað um helvítis íslensku mafíuna!!!

Kristín M. Jóhannsdóttir, 16.6.2008 kl. 05:07

5 Smámynd: Róslín A. Valdemarsdóttir

Helvískur!

Róslín A. Valdemarsdóttir, 16.6.2008 kl. 17:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband