Allt of mikið af mat og fallegir karlmenn hjá Vanoc
17.6.2008 | 04:56
Í dag fékk ég fyrsta launaseðilinn minn frá Vanoc sem var ákaflega ánægjulegt því ég fékk svipað borgað eftir skatta og ég fékk á mánaðarlaun sem nemandi. Launin eru sem sagt rúmlega tvöföld núna. Ég fæ reyndar engar ógurlegar upphæðar, en miðað við líf námsmanna mun ég vera þokkalega sett.
Ég fór út að borða í kvöld með yfirmönnum mínum tveim og Peter sem mun sjá um öll þýðingartækin sem við þurfum. Ég ákvað að leyfa mér fínan matseðil í tilefni þess að ég fékk útborgað en það reyndi aldrei á það því Peter ákvað að borga fyrir okkur dömurnar. Ég er búin að borða allt of mikið undanfarna daga. Í síðustu viku borðaði ég fimm sinnum úti og fjórar þeirra máltíða voru mér ókeypis. Um helgina borðaði ég svo tvisvar hamborga í Íslandshúsi (fyrst í tilefni af sautjánda júní og svo þegar við vorum að rífa niður sólpallinn) og í dag borðaði ég bæði hádegisverð og kvöldverð á fínum veitingastöðum. Og þvílíkur matur, jamm. En nú er þetta búið. Nú eru allir slíkir matarfundir búnir í bili. Kannski eins gott. Má ekki hlaupa í spik.
Var ég búin að segja ykkur að það er allt fullt af myndarlegum karlmönnum hjá Vanoc, þarf af nokkrir á lausu. Ójá, þetta ætti að vera skemmtilegt. Í dag fékk ég einn til að roðna alveg niður í rass. Hann hafði fundað með okkur um morguninn og sirka hálftíma eftir að fundi lauk var ég send til hans til þess að fá kort sem hann lofaði okkur. Þegar ég kom að borðinu hans, svo stuttu eftir að fundi lauk, gat ég ekki stillt mig og sagðist hafa komið af því að ég var strax farin að sakna hans. Hann auðvitað roðnaði niður í hársrætur en vildi svo allt fyrir mig gera eftir þetta þannig að ég held það hafi bara verið fínt að flörta svolítið við drenginn. Og svo er annar sem Maureen, yfirmaður minn, sagði að ég myndi þurfa að eiga samskipti við því henni væri ekki treystandi nálægt honum. Hún bráðnar alveg í hvert sinn sem hann lítur á hana svo hún sagðist örugglega myndu samþykkja allt sem hann segði. Bölvaðir Ítalir. Hafa endalausan sjarma.
Annars vil ég bara óska öllum Íslendingum til hamingju með daginn. Ég mun raula okkar óopinbera þjóðhátíðarlag þegar ég vakna í fyrramálið. En hér er bara 16. júní í rúma tvo tíma í viðbót. Og þá er ég farin í rúmið. Vona að þið skemmtið ykkur vel.
Athugasemdir
Jenný Anna Baldursdóttir, 17.6.2008 kl. 11:12
aldeilis sjarmatröll þarna á ferð!!
alva (IP-tala skráð) 18.6.2008 kl. 23:41
Kæra Kristín, ég hefi ávallt gaman að lesa pistlana þína. Verst er að vera svona
"dirty old man" og kvæntur í þokkabót. En sem ég hefi kannske áður sagt, þé get ég huggað mig við, að hún Kristín mín Ingiríður Hallgríms og þú eruð nöfnur.Kannske eruð þið skyldar, því að Gamla mín er Þingeyingur Já, þetta hefur verið stormasamt af og til. Slíkt gerir ekkert til, því að smákritur milli hjóna
skerpir bara ástina. Ég þoli ekki geðluðrur og ég fæ stundum upp í kok,nær hjón
eru ævinlega sammála um ALLT !
Með kveðju frá LYCKEBY, Blekinge Amt, Skáni, KPG.
Kristján P. Gudmundsson, 19.6.2008 kl. 00:20
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.