Þegar Camilla réðst á Karl

Ég er svo trúgjörn að það er ekki einu sinni fyndið. Eða jú, það er eiginlega helv. fyndið. Hér kemur saga af trúgirni minni.

Ég sat í lestinni í kvöld á leið í fótboltann. Maður sest við hliðina á mér og segir við mig: "Ótrúlegar fréttir í dag." "Ha, hvaða fréttir?" "Camilla Parker-Bowls kom að Karli prinsi í rúminu með annarri konu og réðst á hann. Hann liggur á sjúkrahúsi og það er óvíst með hann. Elísabet hefur tilkynnt að hann hafi gengið of langt og að hann muni aldrei verða konungur. Synir hans eru svo reiðir við hann að Vilhjálmur hefur sagst ekki vilja neitt með konungsfjölskylduna að hafa og að hann muni ekki taka við af ömmu sinni."

Ég var orðlaus og sagði með reglulegu millibili: "Ertu að meina það?" og "Er þetta satt?"

Maðurinn var mjög sannfærandi og ég hafði í raun ekki ástæðu til þess að ætla að ókunnugur maður fari að ljúga mig fulla í lest? Ég meina, hver væri ástæðan fyrir því? Það er enginn fyrsti apríl í dag.

Hann sagði mér frá þessu öllu í smáatriðum og fordæmdi Karl og framhjáhaldið en viðurkenndi að auðvitað væri Camilla brjáluð að ráðast svona að honum.

Svo fór hann að tala um viðbrögð Stephen Harper, forsætisráðherra Kanada, við fréttinni og ég veit ekki hvað og hvað. Þetta var allt hið athyglisverðasta.

Þegar ég kom úr lestinni hringdi ég í Mark sem hafði ekki heyrt neinar fréttir, enda kannski ekki skrítið, hann hafði verið með mér megnið af deginum og eftir að ég fór heim að sækja fótboltaklæðnaðinn fór hann heim með fólkinu sem við höfðum verið með. Benita kom að sækja mig og hún hafði ekki heldur hlustað á fréttir. Ég hringdi þá í Rosemary en hún og Doug voru í sumarbústaðnum með gesti og höfðu ekki hlustað á fréttir allan daginn. Það var því ekki fyrr en ég kom heim og rauk á netið og...fann ekkert um málið, að ég vissi fyrir víst að það hafði verið logið að mér.

Annars er ég ekki beinlínis viss um að maðurinn hafi verið að ljúga. Það er vel mögulegt að hann hafi trúað þessu. Hann var greinilega ekki alveg með heilan hausinn og hann sagði mér meira að segja frá því að hann hafi verið reiðmaður og að hann hafi fallið af baki í keppni og hesturinn hafi stigið á höfuðið á honum. Hann hlaut slæman heilaskaða og missti m.a. minnið og stjórn á hluta líkamans. Það gæti svo sem útskýrt af hverju hann sá ástæðu til þess að ljúga mig fulla.

Ég viðurkenni að þótt ég hafi í raun trúað manninum þá var ég samt pínulítið efins, sérstaklega eftir að hann sagði mér frá heilaskaðanum. Þess vegna hringdi ég í fólk um leið og tækifæri gafst til - til að fá staðfestingu á sögunni. En í alvöru, hvaða líkur eru í raun á því að ókunnug manneskja skáldi upp svona sögu handa manni?

En kannski er hann bara spámaður? Kannski gerist þetta allt á morgun! 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

Hva, þetta eru einmitt svona fréttir sem maður verður svo hissa á að maður fer að tala um þær við einhvern ókunnugan. Kalli er eini ólíkindaþátturinn í sögunni ...

Berglind Steinsdóttir, 22.6.2008 kl. 09:00

2 Smámynd: Sigrún Jónsdóttir

Akkúrat svona geta svæsnustu kjaftasögur orðið til.  Góð saga samt

Sigrún Jónsdóttir, 22.6.2008 kl. 10:44

3 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Honey, you´ve been taken for a ride.

Jenný Anna Baldursdóttir, 22.6.2008 kl. 12:05

4 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Ég hef heyrt fullt af svona sögum og reyndar séð myndbönd með þeim líka.

Sumt af þessu er svo ótrúlegt að maður missir málið. 

Ég sttti tvö á bloggið mitt í dag.  

Sigurður Þórðarson, 22.6.2008 kl. 13:41

5 identicon

 Að ´geta skáldað svona nokkuð svona af fingrum fram er náttúrulega list. Sé einhvern veginn svipinn á þér í anda - þó að ég hafi aldrei séð þig nema á mynd

Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 22.6.2008 kl. 13:53

6 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Rétt hjá þér Berglind. Þetta hefði verið slík frétt að fólk gæti ekki annað en rætt hana, hvort sem væri við kunningja eða ókunnuga. Og já, góð saga. Þvílíkt hugmyndaflug. Anna, ég er nokkuð viss um að svipurinn á mér var óborganlegur. Held að ég hafi gapað svolítið.

Kristín M. Jóhannsdóttir, 22.6.2008 kl. 16:33

7 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Sæl Kristín. Þetta er prýðilegasta efni í flökkusögu. Nú er bara að sjá hvort hún kemst á flug :)

Svanur Gísli Þorkelsson, 22.6.2008 kl. 18:36

8 Smámynd: Ólöf Ingibjörg Davíðsdóttir

Besta saga sem ég hef heyrt lengi

Ólöf Ingibjörg Davíðsdóttir, 22.6.2008 kl. 19:40

9 Smámynd: Haraldur Bjarnason

Það er engin ástæða Kristín að eyðileggja góða sögu með sannleika!!!

Haraldur Bjarnason, 22.6.2008 kl. 20:16

10 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Ég er svo algjörlega sammála þér Haraldur. Eins og Ari fróði sagði: Hafa skal það sem betur hljómar. Eða var það kannski ekki það sem hann sagði? Já Svanur, ég sagði nógu mörgum frá þessu í gær þannig að það er aldrei að vita nema sagan fari á flug. Ólöf, takk.

Kristín M. Jóhannsdóttir, 22.6.2008 kl. 22:05

11 Smámynd: Hrönn Sigurðardóttir

Svakalega fannst mér þetta fyndið!!

Spáðu í fólk.........

Hrönn Sigurðardóttir, 22.6.2008 kl. 23:59

12 identicon

Svona maður á náttúrlega bara að skrifa skáldsögur

Sannleikurinn er oft svo erfiður ... en oft svo lygilegur og skemmtilegur líka.

Kærar kveðjur frá Akureyri til þín! 

Doddi - Þorsteinn G. Jónsson (IP-tala skráð) 23.6.2008 kl. 16:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband