Salmonella
19.11.2006 | 08:59
Muniði gömlu góðu dagana þegar salmonella var bara í kjúklingum? Nú getur maður aldrei verið öruggur. Það er ekki langt síðan allt spínat frá ákveðnum framleiðanda í Bandaríkjunum var endurkallað og í dag kom út viðvörun um að salmonella hafi fundist í canteloups (appelsínugulu melónunum - hef ekki hugmynd um hvað þær kallast á íslensku) sem dreift hefur verið í Kanada, frá Saskatchewan til BC og í Yukon og Norðvesturfylkjunum líka. Og er ég ekki heppin. Ég keypti einmitt kantelópu í gær og bjó til ávaxtasalatið sem ég borða á hverjum morgni (kantelópa, ananas, vínber og vatnsmelóna). Og að sjálfsögðu borðaði ég fulla skál af þessu í morgun, sem þýðir að ég innbirti töluvert magn af hugsanlega salmonellusýktri kantelópu. Og nú í kvöld er ég með heiftarlegan magaverk. Vona að það tengist bara Rósu frænku sem kom í heimsókn í gær. Vil alls ekki fá salmonellusýkingu (nema að ef ég er lasin í viku þá legg ég helling af fyrir jólin!!!!!!).
En sem sagt, maður er hvergi öruggur lengur. Salmonellan getur leynst hvar sem er. Og þetta kemur allt ofan á vatnsskortinn sem enn ríkir hér. Vatnsból borgarinnar er enn mengað og við megum ekki drekka kranavatnið. Það bragðast illa þótt maður sjóði það en sem betur fer fékk ég tvær flöskur á Starbucks í dag. Fór þangað og naut þess að sötra piparköku latté. Mmmm. En það er nú annað mál.
Hugsið ykkur örlögin að fá salmonellusýkingu á meðan vatnsskortur ríkir í borginni!
Sem sagt, vona að ávaxtasalatið í morgun hafi verið salmonellulaust. Kannski ég hefði átt að halda mig við súrmjólk og Cheerios (nema hvað hér er ekki hægt að kaupa súrmjólk).
Flokkur: Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 09:01 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.