Kanadadagur í Vancouver
2.7.2008 | 06:51
Nú er þjóðhátíðardagur Kanadamanna að kvöldi kominn og ég er komin heim eftir að hafa notið þess sem dagurinn hafði upp á að bjóða. Uppúr hádegi hitti ég Lizu niðri í Kits og við löbbuðum niður á Granville island þar sem við hittum líka Elli sem vinnur með okkur hjá Vanoc. Við þrjár löbbuðum um markaðinn, fengum okkur límonaði að drekka og settumst svo niður úti á túni og hlustuðum á meiri jazz en jazzhátíðin er enn í gangi. Þar mættu okkur sambýlismenn Lizu, Ryan og Andre og vinur Andres, Robert. Litlir strákar á þrítugsaldri...ja, Ryan er reyndar ekki lítill. Hann er 6 fet og 6 tommur og tæp þrjúhundruð pund, en hey, þið vitið hvað ég meina.
Strákarnir höfðu verið niðri í bæ og sögðu að þar væri fjöldinn þvílíkur að maður kæmist varla áfram. Og af því að veðrið var frábært þá ákváðum við að sleppa miðbænum og fara frekar niður á strönd og grilla. Svo það var gert. Liza, ég, og strákarnir fórum heim til þeirra að búa til salöt og þvíumlíkt, Elli fór í búðina að versla það sem vantaði og svo hittumst við aftur niðri á Jericho, grilluðum hamborgara og pylsur, lágum í leti og horfðum svo á flugeldasýninguna klukkan hálf ellefu. Amanda og Kiara sem einnig vinna á Vanoc bættust í hópinn, svo og Lindsay, vinkona Lizu, svo þetta var góður hópur sem eyddi saman kvöldi Kanadadags.
Á morgun skal ég segja ykkur frá heimsókninni til Gambier eyju - er of þreytt núna. Verð að fara að sofa. Þarf í vinnu á morgun eftir þessa fjögurra daga helgi.
Athugasemdir
Happy Canada Day í gær... Það var að vanda mikið um dýrðir hérna í höfuðborginni.
AuðurA (IP-tala skráð) 2.7.2008 kl. 14:09
6 fet og 6 tommur? Stína, þú ert að breytast í útlending. Einhvers staðar las ég að fetið væri 30,48 sm og tomman 2,54 sm og þá er hann 182,9 + 15,2 sem gerir ... já, vá, hann er hávaxinn ungur maður. Beint í körfuboltann með hann.
Berglind Steinsdóttir, 3.7.2008 kl. 00:20
Ég er löngu hætt að nenna að reikna á milli. Ég veit að sex fet eru sirka einn áttatíu og þrír og að meðal karlmaður á Íslandi er sirka fimm fet og ellefu sentimetrar. Með þetta að vopni veit ég hver er stór og hver er ekki svo stór.
Auður, ég mun aldrei gleyma Kanadadegi 2006. Besti Kanadadagur sem ég hef upplifað og endaði líka best!!! Ottawa er pottþétt rétti staðurinn á þessum degi.
Kristín M. Jóhannsdóttir, 3.7.2008 kl. 02:03
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.