Golfað í góðu veðri

Ég spilaði golf í dag - í fyrsta sinn í ein tvö ár. Þar á undan hafði ég ekki spilað í þrjú ár þannig að þetta er svona sirka einn hringur á tveggja til þriggja ára fresti. Enda sást það alveg.

Þetta var árleg golfkeppni Vanoc og spilaður var svokallaður Texas Scramble þar sem fjórir leika saman og slá alltaf besta bolta. Einu reglurnar (svona utan við venjulegar golfreglur) eru þær að það þarf að nota upphafshögg allra að minnsta kosti þrisvar sinnum.

Við Akimi vinkona mín sem kom með spiluðum með tveim Áströlum, Peter og Rob. Við komumst að því að stjórnendur mótsins höfðu eitthvað á móti okkur því

a) Við spiluðum með tveim giftum körlum (og annar þeirra var með yfirvararskegg).

b) Fyrir framan okkur voru fjórar konur.

c) Fyrir aftan okkur voru fjórir gamlingjar. 

Þegar kom svo að kvöldverðinum enduðum við á borði með

a) Einum homma.

b) Einum krakka.

c) Einum eldri manni (sem reyndar var sjarmerandi en kominn yfir fimmtugt). 

Það var því eins gott að veðrið var yndislegt og maturinn var góður því ekki gekk okkur neitt að kynnast verðandi eiginmönnum þarna.

IMG_3912

Á morgun er árlegt fótboltamót Presto-kvenna gegn mökum og karlkyns vinum. Í fyrra mörðu karlarnir okkur með einu marki. Hvað mun gerast núna? Annars get ég ekki spilað. Ég þarf að vinna á morgun frá hálftíu til hálf tvö og þarf svo að taka almenningsvagna yfir í New Westminster. Er viss um að fótboltinn verður búinn þegar ég kemst þangað. En fer bara í grillveisluna á eftir í staðinn. Ég bauð Mark vini mínum með. Það er auðvitað stórhættulegt að kynna eina einhleypa karlkynsvin minn fyrir öðrum konum, ætti að halda honum útaf fyrir mig ef ekkert gengur með Vanockarlana, en ég verð að taka greyið út og viðra hann aðeins. Ég yggli mig bara á stelpurnar ef þær sýna honum áhuga. Eða held undir arminn á honum svo þær haldi að hann sé minn.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: S. Lúther Gestsson

Hrikalega leiðinlegt að sjá hvað margt ungt fólk er farið að þessum göngutúrum gamla fólksins gólfinu. Þetta er venjulega ungt fólk í blóma lífsins sem gæti verið að ná árangr í knattspyrnu.

S. Lúther Gestsson, 12.7.2008 kl. 21:39

2 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Það gæti verið. Tel mig þó ekki í þeim hóp þar sem ég spila fótbolta tvisvar í viku en golf þriðja hvert ár eða svo.

Kristín M. Jóhannsdóttir, 13.7.2008 kl. 06:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband