Sjálfboðaliðar og fótbolti
13.7.2008 | 06:26
Í dag hófst sjálfboðasmölunin hjá Vanoc fyrir alvöru. 50.000 manns hafa sótt um sem sjálfboðaliðar og við þurfum 25.000. Því þarf að velja vel.
Fyrst er hringt í fólk og það tekið í viðtal í gegnum síma, en svo köllum við inn þá sem standast kröfurnar og hittum alla augliti til auglits. Deildin mín, International Client Services, kallaði inn 50 manns í dag og 50 munu koma á morgun. Þetta er heilmikill prósess. Fyrst þegar mætt er á svæðið er farið í gegnum lögreglurannsókn, síðan er horft á bíómynd og eftir það fer helmingur hópsins í viðtal á meðan hinn helmingurinn vinnur saman að lausn þrautar. Síðan er skipt. Síðasti þátturinn er svo fjögurra klukkutíma þjálfun.
Og það er ekki einu sinni víst að allir þessir verði valdir. Sumir gætu haft hæfileika til þess að taka þátt á einhvern hátt en eru ekki endilega hentugir í þau störf sem við höfum upp á að bjóða. Við munum eiga við kóngana og drottningarnar, forseta, ráðherra....og að sjálfsögðu Alþjóða Ólympíunefndina svo og Ólympíunefndir mismunandi landa.
Ég var mætt í vinnuna um klukkan hálf níu (aðeins of seint því það tekur miklu lengri tíma að komast í vinnuna um helgar en á virkum dögum) og var búin um hálf eitt leytið.
Þaðan fór ég í partý hjá Dave þjálfara og Lucy. Árlegt sumarpartí Presto (fótboltafélagsins míns).
Um kvöldið fórum við svo yfir í Burnaby og spiluðum innanhússleik. Sá var ansi merkilegur.
Phil, bróðir Daves, og strákur í hinu liðinu lentu næstum því í slagsmálum. Strákurinn braut á Phil, flautað var á hann, hann öskraði á dómarann, Phil sagði eitthvað sem ég heyrði ekki, strákurinn hrinti honum, fékk rautt spjald, þeir ruku saman, Joe og Dave reyndu að stía þá í sundur, ekkert dugði, allir aðrir reyndu að stía þeim í sundur, báðir voru sendir á bekkinn, Phil með gult spjald fyrir kjafthátt.
En var þetta búið? Nei, ekki aldeilis. Phil hélt áfram að röfla, hinn strákurinn ætlaði að rjúka í hann, fólk á bekknum varð að halda þeim í sundur. Dómari missti sig og gaf Dave annað gult og þar með rautt. Skrifaði niður nafnið á hinum stráknum sem gæti fengið lengri dóm en einn leik... Karlmenn. Í alvöru, þeir kunna sig ekki. Og það fyndnasta við þetta er að Phil er þessi rólegi, elskulegi piltur sem myndi ekki gera flugu mein. En hann er portúgalskur og það er hreinlega heilmikið til í mýtunni um blóðheitu Suður- Evrópumennina. Joe var stoltur þegar hann kom af velli, lyfti höndum og sagði: Að þessu sinni var það ekki ég!
Annars spiluðum við ótrúlega vel fyrir utan þetta atriði undir lokin. Leikurinn endaði 3-2 fyrir okkur (aldrei áður svona fá mörk í leik hjá okkur) og við erum enn í fyrsta sæti deildarinnar. Jei.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.