Skautahallir

Ég lifði af fyrstu vinnuhelgina hjá Vanoc. Eins og ég minntist á á laugardaginn vorum við að taka viðtöl við fyrstu sjálfboðaliðana okkar. Þetta gekk áfallalaust fyrir sig og við fengum góðan hóp fólks. Ég var komin heim um klukkan þrjú á sunnudaginn og var svo þreytt að í stað þess að fara beint á ströndina (æðislegt veður) lét ég freistast af óuppábúnu rúminu og skreið uppí - rétt um stund. Steinsofnaði. Náði samt að skríða á lappir eftir ekki of langan blund, skipti um föt og fór niður á strönd. Lá síðan þar og slappaði af fram að kvöldmat. Fínn dagur verð ég að segja. Í dag var sem sagt áttundi vinnudagurinn í röð. Ætli ég verði ekki þreytt á föstudaginn?

Í dag fór ég í hópferð að Pacific Colosseum þar sem haldnar verða keppnirnar í listdansi á skautum og styttri skautahlaupum. Þetta var mjög athyglisvert. Við Kiara vorum reyndar ekki alveg ánægðar með svæðið sem okkar viðskiptavinum er úthlutað. Viðskiptavinir okkar eru annars vegar Ólympíufjölskyldan svokallaða og hins vegar liðið í virðingarstöðum (kóngar, drottningar, forsetar, ráðherrar, o.s.frv.). Þessi hópur er vanur að sitja við endalínu en að þessu sinni er það svæði frátekið fyrir fjölmiðla. í staðinn er liðið okkar sett út í horn og útsýnið þaðan er ekki nógu gott. En ég held það muni ekki þýða að berjast um þetta. Við erum búin að tapa baráttunni.

Í næstu viku munum við fá að sjá GM Place (núverandi heimasvell Canucks, verðandi aðal hokkísvæði Ólympíuleikanna) og UBC stadium þar sem sumir hokkíleikir verða leiknir og þar sem sleðahokkíið verður leikið á Ólympíuleikum fatlaðra. Ég hlakka mest til að sjá GM Place. Verst að hokkí er ekki í gangi þessa daga og því engar líkur á að rekast á eitt stykki þjálfara á randi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband