Skautastjarna í vinnunni hjá mér.
17.7.2008 | 05:43
Það felast ákveðnir kostir í því að vinna fyrir Ólympíunefnd Vancouver. Einn kosturinn er sá að þekktum íþróttamönnum er reglulega boðið að koma og halda erindi yfir starfsmönnum - líklega til þess að efla andann. Degi áður en ég byrjaði að vinna kom hokkíleikmaðurinn Trevor Linden, í júní fengum við kanadíska skíðamanninn Thomas Grandi til að halda erindi og í dag kom enginn annar en Apolo Ohno, skautasnillingurinn bandaríski. Apolo Ohn hefur unnið til fimm verðlauna í skautahlaupi á síðustu tveim Ólympíuleikum, þar af tvö gull.
Hann er þó líklega enn þekktari fyrir það að taka í fyrra þátt í keppninni Dansað með stjörnunum - þar sem hann vann.
Apolo var alveg yndislegur. Hann var svo skemmtilegur og einlægur að maður gat ekki annað en heillast. Hann sagði okkur frá því að hann hefði byrjað að æfa skautahlaup þegar hann var tólf ára og þegar hann var fjórtán ára var hann orðinn besti skautahlaupari Bandaríkjanna. Hann náði þó ekki að halda sér á toppnum og missti því af Ólympíuleikunum í Nagano en kom sterkur til leiks bæði í Salt Lake City og Torino.
Yndislegur drengur þessi Apolo. Og svo er hann alveg gullfallegur. Mig langar reyndar að raka þetta skeggræksni sem hann hefur framan í sér en maður verður að fyrirgefa honum smá ófullkomnun.
Það var tekin mynd af okkur stelpunum í ICS með honum og þegar ég fæ eintak mun ég setja hana hér. Strákarnir voru ekki með. Boris var heima í dag, Bas er farinn til Bejing og Francois...ætli hann hafi nokkuð nennt að koma.
Dagurinn var annars góður. Hann byrjaði rólega og ég hafði nógan tíma til að sinna ýmsum verkum sem lágu á borðinu hjá mér. Um hádegi fórum við Francois og Kiara í langan göngutúr svo við gætum fengið okkur kebab í hádegisverð (við höfum nú stofnað kebab-klúbb og ætlum að fara reglulega í svona túra). Eftir hádegi átti ég stuttan fund með framkvæmdastjóra alpagreina (Peter, algjör dúlla - fyrrum landsliðsþjálfari Kanadamanna - og ógiftur samkvæmt áreiðanlegum upplýsingum) og svo kom Apolo!!!
Ó já, góður og rólegur dagur.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.