Tilviljanir

Ég velti því stundum fyrir mér hvað eru tilviljanir og hvað er eitthvað allt annað og óútskýranlegt.

Undanfarið hef ég farið í nokkrar skoðanaferðir í hin ýmsu íþróttamannvirki sem þjóna munu mikilvægum hlutverkum á vetrarólympíuleikunum 2010, svo sem Colosseum þar sem listdans á skautum mun fara fram, svo og stuttar vegalengdir í skautahlaupi, og Í GM Place og UBC Thunderbird stadium þar sem hokkíið mun fara fram. Ég hef fengið boð um að koma í þessar ferðir því ég tilheyri svo kölluðum borgarklasa 1, sem inniheldur þessi mannvirki, auk blaðamannahallarinnar þar sem ég mun verða staðsett á meðan leikum stendur. Ég fæ hins vegar ekki boð um að fara í skoðanaferðir í fjallaferðir, nema einhver sem fær slík boð áframsendi þau til mín.

Í dag fékk Kiara boð um að koma í skoðanaferð í Cypress fjall á morgun, þar sem keppni í skíðafimi og snjóbrettum mun fara fram. Við vitum ekki af hverju hún fékk boðið svona seint þar sem var búið að ákveða þessa ferð fyrir löngu, en hún sem sagt bauð mér að koma með. Ég þarf svo sem ekkert nauðsynlega að fara en þessar ferðir eru gagnlegar því mínir tungumálasjálfboðaliðar verða í fjöllunum eins og annars staðar. Þar að auki er framkvæmdastjóri skíðafimi og snjóbretta alveg guðdómlegur og vel ferðarinnar virði. Sem sagt, Kiara áframsendi boð sitt til mín en ég hafði nokkrar áhyggjur af því að þetta væri svo seint ákveðið að það væri ekkert víst að þeir hefðu pláss fyrir mig. Mér fannst ég þyrfti að láta Stuart vita, en hann er sá sem skipulagði ferðina. Ég er eiginlega ekki alveg viss um hvert hans starf er, það hefur alla vega eitthvað með Cypress að gera því hann er alltaf með Cypress liðinu sem er fest saman á mjöðmum. Ég sé aldrei bara einn þeirra. En Kiara sagði að þetta yrði allt í lagi, ég þyrfti ekkert að athuga þetta. Og svo var komið að lokum vinnudags og allt of seint hvort eð var að senda póst á einhvern. Svo ég ákvað að láta bara slag standa og fór heim.

Nema hvað, þegar ég kem út er einn smárútubíllinn að leggja af stað og hópur manns beið eftir þeim næsta. Þessir rútubílar keyra frá vinnustaðnum að nálægustu lestarstöðum og selflytja þannig þá sem nota almenningssamgöngur. Hver bíll tekur tólf manns og hver ferð tekur tuttugu mínútur fram og til baka. Það var því ljóst að ég kæmist ekki í næsta bíl og yrði að bíða eftir þessum sem var að fara. Ég nennti ekki að bíða þarna í tuttugu mínútur. Ef ég tek ekki lestina er annar möguleiki fyrir hendi. Það er um tíu mínútna gangur að næstu strætóstöð og þaðan get ég tekið strætó niður að Commercial þar sem ég skipti í hraðvagninn. Þetta er almennt seinlegra en að taka lestina svo ég tek eingöngu þennan kost þegar ég veit að biðin eftir rútunni er löng. Í dag tók ég strætó. 

Svo ég labba sem sagt niður að stoppistöð og fer inn í vagninn. Og hver situr þar nema Stuart. Hann heilsaði mér þótt við hefðum aðeins einu sinni talað saman áður (þegar ég mætti á fund með Eric, framkvæmdastjóranum sjarmerandi), svo ég skellti mér til hans og spurði hvort ekki væri í lagi að ég bættist í hópinn í fjallaferðinni á morgun. Hann hélt það nú. Ekki málið. Og svo spjölluðum við þar til hann fór úr vagninum.

Ókei, ykkur finnst þetta kannski ekkert merkileg tilviljun, eða bara venjuleg tilviljun, en mér fannst það stórmerkilegt að í eitt þeirra fáu skipta sem ég tek strætó þarna uppfrá skuli ég rekast á manninn sem ég þurfti að tala við en ákvað að senda ekki póst á af því að vinnudagurinn var hvort eð er búinn. Hvað sem ykkur finnst þá finnst mér þetta alla vega skemmtileg tilviljun. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Það las sennilega enginn þessa færslu mína en ég vil samt bæta við hana svolitlu. Það fyndna er nefnilega að það var ekki Stuart sem ég rakst á í strætó heldur Allen sem vinnur með honum Ég rugla þeim alltaf saman, sennilega af því að Allen er rauðhærður náungi frá Nýfundnalandi og því finnst mér hann alltaf vera af skoskum ættum og ætti að heita Stuart. Hinn raunverulegi Stuart er hins vegar ástralskur sem passar auðvitað ekki. Ég ætla að stinga upp á því að þeir skipti um nafn. En sem sagt, tilviljunin var því ekki svo mikil tilviljun eftir allt saman. Ja, nema reyndar að það var Allen sem stýrði ferðinni en ekki Stuart þannig að ég endaði á því að tala við réttann mann, þótt hann héti ekki réttu nafni.

Kristín M. Jóhannsdóttir, 13.8.2008 kl. 05:50

2 identicon

hhahah tær snilld - heppin í óheppninni eða bara tilviljun veit ekki, ótrúlegt samt allt ;)

Hrabba (IP-tala skráð) 13.8.2008 kl. 19:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband