Bumbershoot tónlistarhátíðin

Ég gerði góða ferð til Seattle í gær. Fór með Emmu sem vinnur með mér hjá Vanoc og Clint vini hennar á Bumbershoot tónlistarhátíðina. Þetta er risastór hátíð með fjölmörgum sviðum og stendur í þrjá daga. Aðalnúmer hátíðarinnar eru Beck, Stone Temple Pilots og Death Cab for Cutie. Beck spilaði í gær (hinar hljómsveitirnar í dag og á morgun) en við komum of seint til að fá miða. Við lögðum ekki af stað frá Vancouver fyrr en um hálfellefu og svo var að komast yfir landamærin o.s.frv., fá okkur hádegisverð...klukkan var orðin um fimm þegar við komum á svæðið og öll armböndin sem þurfti til að komast inn á stærsta leikvanginn þar sem Beck spilaði, voru búin. Okkur var eiginlega alveg sama. Beck er flottur en það var svo margt að sjá.

Það sem er skemmtilegast við svona hátíðir er einmitt að ráfa á milli sviða og hlusta á alls kyns tónlist sem maður myndi aldrei annars hlusta á.

Fyrst þegar við komum var Joe Bonamassa að spila á Starbuckssviðinu og hann var ótrúlegur. Rokkblúsari sem virtist geta spilað hvað sem var. Ég hafði aldrei heyrt í honum áður en varð yfir mig hrifin. Blús er æðislegur og þessi var magnaður. En okkur Emmu langaði báðar að fara með hann í klippingu og kaupa á hann ný föt. Áhorfendur þarna voru flottir. Flestir voru gamlir hippar sem höfðu ekkert breyst í fjörutíu ár en fílingurinn var flottur. Enda ansi margir á einhverju. Hlustið á þetta lag. Það er mjög langt gítarspil fyrst og svo hefst söngurinn. Magnað alveg.

 

Næst röltum við niður að Fisher Green sviðinu og hlustuðum á Estelle sem er hipp hoppari. Ég er ekki hrifin af svoleiðis tónlist en hún hafði áheyrendur (sem flestir voru á tvítugs- og þrítugsaldri) algjörlega í vösum sér.

 

Á eftir Estelle byrjaði Saul Williams að syngja en það var hræðileg tónlist (eitthvað á milli rapps og pönks) svo við flúðum yfir að Starbuckssviðinu aftur þar sem eitthvað undarlegt var í gangi, svo við héldum áfram niður að Rockstar sviðinu og hlustuðum á Man Man. Það var nú undarleg tónlist en við hrifumst með og hoppuðum af kæti. Ég veit ekki hvað það var við þessa náunga sem var svona magnað, kannski bara orkan í þeim, en allir voru í stuði.

 

Við fórum aftur að Starbuckssviðinu því Clint lofaði mikið næstu hjómsveit þar, Nada Surf. Komið var myrkur og við fundum okkur stað á grasinu, lögðum niður teppi og fengum okkur lúr. Nada Surf voru flottir en þeir náðu eiginlega ekki að hrífa áhorfendur með sér. Ég veit ekki af hverju. Kannski eru þeir of venjulegir. Þeir eru ekki að gera neitt sem fjöldi annarra hljómsveita er ekki að gera líka. En mér fannst þetta ákaflega notalegt. Ég lá þarna á jörðinni, hlustaði á góða tónlist og horfði á stjörnurnar og Geimnálina í Seattle (Space Needle - stór turn sem einkennir borgina) sem var böðuð ljósum. 

 

 Þegar okkur var orðið þokkalega kalt löbbuðum við yfir að vellinum þar sem Beck var að spila. Eins og fyrr segir komumst við ekki inn en við gátum hlustað. Svo við hlustuðum á nokkur lög og fórum svo heim. Vorum ekki komin heim fyrr en um hálfþrjú um nóttina - þreytt en ánægð. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband