Fótbolti, gestir og Jimmy Choo

Vetrarboltinn er hafinn á ný. Liðið mitt, Presto, færðist upp í haust og við spilum nú í gull hluta fjórðudeildar (skipt er í gull og silfur eftir getu). Við þekkjum flest liðin sem við spilum á móti því þetta eru öll liðin sem hafa valdið okkur vandræðum á undanförnum árum. Góðu fréttirnar eru þær að við spilum yfirleitt betri bolta þegar við spilum á móti betri liðum.

Við gerðum jafntefli í fyrsta leiknum sem leikinn var í gær. Spiluðum á móti Kits Saints (sem eru nú engir englar). Komumst í 2-0 (bæði mörkin frá mér) en lentum svo undir 2-3. Jöfnuðum 3-3, lentum undir í 3-4 en náðum svo að jafna úr víti á síðustu mínútu leiksins. Ég var spörkuð niður af varnarmanni sem gat ekkert annað gert þegar ég komst inn fyrir hana. Það fór reyndar illa hjá henni því ekki var nóg með að ég fengi víti út á þetta heldur datt hún á úlnliðinn og braut hann. Stelpuræfillinn grét og grét en ég gat ekkert að þessu gert. Það var hún sem kallaði þetta yfir sig með fruntaskap. Ég bað Benitu um að taka vítið því hún er öryggið uppmálað og hefur aðeins brennt af einu eða tveim vítum á síðastliðnum fimm árum. Við vorum ánægðar með úrslitin en Kits Saints voru hundfúlar. Þær hafa líklega talið að þær færu létt með okkur.

Um kvöldið fór ég á leik með Vancouver Whitecaps sem eru í öðru sæti deildarinnar. Hvernig stendur á því að íslensku blöðin tala aldrei um gengi Whitecaps? Það er sagt frá næstum því hvaða liði í Englandi sem inniheldur Íslending, þótt hann sé á varamannabekknum, en ekkert er minnst á Whitecaps sem þó hafa íslenskan þjálfara, Teit Þórðar. Ég vil bara benda á að þeir voru ömurlegir í fyrra og náðu ekki einu sinni í úrslitakeppnina, en eftir að Teitur tók við hafa þeir verið ýmist í fyrsta eða öðru sæti í deildinni. Það er bara býsna gott. Talið um það.

Ég er annars orðin ein aftur eftir að hafa haft íslenska gesti hjá mér í nokkra daga. Stína Sigfúsar og Ólafur Odds voru á ferð um vesturhéruð og stoppuðu hjá mér í Vancouver. Við áttum voðalega notalega daga saman. Fórum meðal annars á Libra Room og hlustuðum á Monicu Lee, leigðum bíl og keyrðum aðeins um o.s.frv. Alltaf gaman að fá góða gesti.

Maureen, yfirmaður minn kom í dag til baka frá Beijing (Peking eins og borgin er enn kölluð á Íslandi). Hún færði okkur stelpunum eftirlíkingar af Jimmy Choo töskum. Mín er rauð og alveg æðisleg. Nú vantar mig skó við!!!

Og nú er ég farin að sofa. Morgunverður með deildinni klukkan átta í fyrramálið svo ég verð að leggja af stað að heiman klukkan sjö. Þarf minn svefn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Gaman að lesa fótboltasögurnar þínar. Góður og sannarlega réttmætur punktur varðandi Whitecaps og Teit ... sérstaklega með tilliti til þess að meira að segja Beckham fær meiri umfjöllun í íslenskum blöðum.

Til hamingju annars með þína frammistöðu og kærar kveðjur!

Doddi - Þorsteinn G. Jónsson (IP-tala skráð) 9.9.2008 kl. 20:19

2 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

Segjum við ekki  Beijing hér heima? Ég man þegar nafninu var breytt úr Peking, nánast formlega, og segi sjálf Beijing - með mjög skýru j-hljóði, hehe.

Berglind Steinsdóttir, 12.9.2008 kl. 18:45

3 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

'Eg man líka eftir umræðunni um nafnið því ég var að vinna á fréttastofu Sjónvaprs þá, en þetta hefur alla vega ekki verið tekið of mikið til greina á ritfjölmiðlum eins og eftirfarandi fyrirsagnir sýna.

Einum ráðherra var boðið til Peking
Ferðin til Peking kostaði 2,8 milljónir
Kyssti ekki bara gullpeninga í Peking
Bjarni á heimleið frá Peking

En ef maður lítur svo á fréttirnar sjálfar en ekki fyrirsagnirnar þá má oft sjá:

Yfirvöld í Kína búa sig nú undir mikla giftingaöldu sama dag og Ólympíuleikarnir í Beijing hefjast

Óljóst er hvort Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, verður við opnunarhátíð leikanna í Beijing í ágúst.

Nicolas Sarkozy Frakklandsforseti segist ekki útiloka að Frakkar sniðgangi Ólympíuleikana í Beijing í Kína í sumar vegna framgöngu Kínverskra yfirvalda í mannréttindamálum og málefnum Tíbet.

Kristín M. Jóhannsdóttir, 12.9.2008 kl. 21:15

4 identicon

Elsku besta Kristín!

INNILEGAR HAMINGJUÓSKIR MEÐ DAGINN Í DAG!

Hún á afmæli í dag
hún á afmæli í dag,
hún á afmæli hún Kristín,
hún á afmæli í dag!!!!

Woo hoo og kossar frá Íslandi!

Doddi - Þorsteinn G. Jónsson (IP-tala skráð) 14.9.2008 kl. 11:27

5 identicon

Til hamingju með daginn!!

kveðja frá Osló

Helga F (IP-tala skráð) 14.9.2008 kl. 17:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband