Sitt lítið af hverju

Þetta var hin ágætasta helgi. Hófst opinberlega á föstudaginn með kvöldverði í Bátaskýlinu (The Boathouse) sem er fínn veitingastaður niður við English Bay í Vancouver. Þarna var saman kominn matarklúbbur Vanoc en um er að ræða félagsskap sem hefur það eitt að markmiði að velja spennandi veitingarhús einu sinni í mánuði og fara saman út að borða. Góð leið til þess að kynnast vinnufélögunum nánar. Og sérlega skemmtilegt að kynnast fólki sem maður sér ekki dags daglega, eða sem maður á engin samskipti við í vinnunni. Þarna kemur saman áhugaverður hópur og ég kynnist nokkrum nýjum sem ég hafði aldrei hitt áður og styrkti kunningsskapinn við aðra. Einn vinnufélaganna var svo riddaralegur að labba með mér að strætóskýlinu og bíða með mér þar til vagninn kom. Alvöru herramennska.

Á laugardaginn var mikill fótboltadagur. Spilaði með Presto klukkan eitt í mígandi rigningu. Það var ekki hundi út sigandi en samt vorum að við að sparka tuðrunni. Ég skoraði þrjú mörk í 4-4 jafntefli. Eitt markanna skoraði ég þannig að ég fékk boltann á miðjum eigin vallarhelming og hljóp með hann upp allan völlinn. Það var þrisvar sinnum brotið á mér á leiðinni en ég náði að halda jafnvægi og tók boltann alla leið og skoraði örugglega fram hjá markmanninum sem kom of seint út úr markinu. Ég er mjög stolt af þessu marki.

Tveimur klukkutímum eftir að Presto leiknum lauk spilaði ég annan leik með innanhússliðinu mínu. Því miður vorum við bara tvær stelpurnar, ég og Meaghan svo við urðum að spila allan leikinn og það er býsna erfitt innanhúss. Enda var ég dauð á eftir. Eftir leik fékk ég mér að borða með nokkrum úr liðinu (flestir voru á leið í afmæli eða aðrar veislur) og eftir það heimsótti ég Emmu sem vinnur með mér og við horfðum á Into the Wild sem er alveg dásamleg mynd. Mæli með henni ef þið hafið ekki séð hana. En munið eftir vasaklútnum.

Í dag fórum við Rosemary niður til Surrey að sjá hann Kai litla hennar Jóhönnu. Ég hafði ekki séð hann þrátt fyrir að hann væri orðinn rúmlega tveggja vikna, vegna þess að það tekur um klukkutíma að keyra heim til þeirra - ef maður er á bíl - um tvo klukkutíma í strætó. Hann er alveg dásamlegur og ég fékk að halda á honum. Mynd hér að neðan til sönnunar. Verð að fá mér einn svona. Vantar bara pabbann.

 

img_4299.jpg

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

1) Stinu i landslidid

2) Er ekki sjentilmadurinn sem fylgdi ther a straetostodina godur kandidat i pabbann?

Kvedjur fra stigvelafolkinu

Rut (IP-tala skráð) 23.9.2008 kl. 09:07

2 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Hmmm... ekki endilega viss um að sjentilmaðurinn sé gott efni í pabba þótt hann vissulega kunni mannasiði. Ég skal taka málið til skoðunar.

Kristín M. Jóhannsdóttir, 24.9.2008 kl. 17:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband